Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.
Loftslagsráð og Staðlaráð Íslands buðu nýverið til vinnustofu um ábyrga kolefnisjöfnun. Loftslagsráð hafði áður látið gera samantekt um innviði kolefnisjöfnunar hér á landi og sent frá sér álit um ábyrga kolefnisjöfnun. Hagaðilum, sem hafa hlutverki að gegna eða hagsmuna að gæta, var boðin þátttaka. Um 50 manns frá 32 fyrirtækjum, samtökum, stofnunum og ríki tóku virkan þátt í vinnustofunni. Eingöngu var til umræðu valkvæður markaður með kolefniseiningar, ekki skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi. Vinnustofusamþykkt ÍST WA 91 liggur nú fyrir og er aðgengileg á vef Staðlaráðs og er starf tækninefndar að hefjast.
Tilgangur vinnustofunnar var að ná fram skýrari heildarmynd af áskorunum, hindrunum, möguleikum og lausnum með framlagningu upplýsinga, gegnum skoðanaskipti og sameiginlega vinnu þátttakenda. Þannig var besta þekking nýtt til að móta nýjar lausnir á flóknu og brýnu viðfangsefni. Markmið vinnustofunnar var að ná fram sameiginlegum skilningi á stöðu kolefnisjöfnunar á Íslandi og sammæli um traust kerfi kolefnisjöfnunar hérlendis auk þess að gera aðgerðayfirlit og móta næstu skref.
Framleiðsla kolefniseininga þarf að standast alþjóðlegar gæðakröfur og framleiðsla þeirra og viðskipti með þær þurfa að byggja á viðurkenndri aðferðafræði til að unnt sé að mæta samkeppni erlendis frá og fyrirsjáanlegum örum vexti á þessum markaði.
Á vinnustofunni fór fram mikil og ítarleg greiningarvinna þar sem dregnir voru saman helstu þættir; staðan í dag, framtíðarsýn og mótaðar tillögur að því hvernig haldið verður áfram með þróunarvinnu við að koma á ábyrgri kolefnisjöfnun. Staðan er sú að kaupendum kolefniseininga býðst að kaupa vottaðar kolefniseiningar erlendis frá. Engin sannprófun fer fram hérlendis og markaður með slíkar einingar því enginn, enn sem komið er. Í því felst sú staðreynd að fjármunir sem nýttir eru til kaupa á kolefniseiningum til jöfnunar sbr. 5. gr. c. laga um loftslagsmál, renna úr landi. Vinnustofan leiddi í ljós mikinn vilja íslenskra fyrirtækja til að styðja við uppbyggingu og verndun íslenskrar náttúru og stuðning við markmið Íslands um 55% samdrátt losunar fyrir árið 2030 og kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 með kaupum á vottuðum einingum sem rætur eiga að rekja hér á landi.
Sammæli varð um að tilgangur kerfis um ábyrga kolefnisjöfnun ætti að vera að tryggja rekjanleika, gagnsæi og áreiðanleika í kolefnisjöfnun, bindingu og samdrátt losunar og tryggja samræmi milli íslenskra og erlendra viðmiða. Tilgangurinn á einnig að vera að skapa skilning og sátt um mismunandi aðferðir kolefnisbindingar og koma í veg fyrir grænþvott.
Virði kerfis um ábyrga kolefnisjöfnun felst í innlendum fjárfestingarmöguleikum og traustum markaði með kolefniseiningar þannig að íslenskir aðilar sem nú kaupa vottaðar einingar erlendis til jöfnunar hafi möguleika á því að fjárfesta í íslenskum innviðum. Möguleg sala á kolefniseiningum til erlendra aðila styður einnig við íslensk náttúruverndarverkefni og markmið Íslands um samdrátt og kolefnishlutleysi og því felast möguleikar til nýsköpunar hér á landi.
Á síðasta fundi vinnustofunnar ákváðu þátttakendur að stofna tækninefnd undir hatti Staðlaráðs sem í munu sitja fulltrúar hagaðila; fyrirtækja, samtaka, stofnana og stjórnvalda og verkefnisstjórn. Sammæli var um að í fyrstu skrefum tækninefndar felist að rýna staðla og viðmið sem þegar eru í notkun bæði á Íslandi og alþjóðavettvangi til að nýta þekktar og viðurkenndar aðferðir, að því marki sem unnt er til að ná takmarkinu um ábyrga kolefnisjöfnun. Á sama tíma tökum við risastórt skref, sem lítil þjóð, við úrvinnslu áskorana sem blasa við á sviði loftslagsmála.