Fagstaðlaráð í fiskimálum

Fagstaðlaráð í fiskimálum (FIF) starfar sem fagstaðlaráð í umboði stjórnar Staðlaráðs Íslands. FIF er vettvangur stöðlunar á sviði fiskveiða og fiskeldis og er hlutverk þess meðal annars:

  • Umsjón stöðlunarvinnu á fagsviðinu
  • Samræming og frumkvæði í stöðlunarvinnu á fagsviðinu
  • Þátttaka í innlendu og erlendu samstarfi
  • Helsta verkefni FIF frá stofnun þess hefur verið þátttaka í alþjóðlegu tækninefndinni ISO/TC 234 Fisheries and aquaculture.

 

Framkvæmdaráð Fagstaðlaráðs í fiskimálum skipa:

Kristján Þórarinsson, Ábyrgum fiskveiðum, formaður

Björn Margeirsson, Sæplasti 

Guðmundur Þórðarson, Matvælaráðuneytinu

Hildur Hauksdóttir, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi

Sigurður Pétursson, Samtökum Þörungafélaga

 

Aðild að FIF er opin öllum hagsmunaaðilum.

Ritari Fagstaðlaráðs í fiskimálum er Helga Sigrún Harðardóttir, framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands, og veitir hún allar frekari upplýsingar um störf FIF.

Ábyrgar fiskveiðar ses 

Matvælaráðuneytið

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Samtök Þörungafélaga

Sæplast Iceland

Þorbjörn hf

Helsta verkefni FIF frá stofnun þess hefur verið þátttaka í alþjóðlegu tækninefndinni ISO/TC 234 Fisheries and aquaculture.

Carbon footprint for seafood – Product category rules for finfish

Birgir Örn Smárason, sérfræðingur á sviði lífsferilsgreininga. sem starfar fyrir Matís var fulltrúi ráðsins í starfi nefndarinnar og tók virkan þátt í skrifum hans. Staðallinn ISO 22948:2020  kom út árið 2020 og er að finna í vefverslun Staðlaráðs.

Meðferð úrgangs um borð í fiskiskipum

Fagstaðlaráð í fiskimálum tók þátt í verkefni á vegum ISO TC 234 sem varðar meðferð úrgangs um borð í fiskiskipum (e. Waste reduction and treatment on board fishing vessels)  Hildur Hauksdóttir, SFS var tengiliður ráðsins í nefndinni vegna þeirrar vinnu. Staðallinn ISO 5020:2022 kom út í júlí 2022 og hann er að finna í vefverslun Staðlaráðs 

Meðferð úrgangs í fiskeldi

Fagstaðlaráð í fiskimálum tók nýverið undir tillögu um að hefja vinnu við nýjan staðal sem ætlað er að setja viðmið um meðferð úrgangs í fiskeldi. Sú vinna stendur nú yfir og mun ráðið fylgjast náið með þróun á þeim vettvangi. 

Flokkun stórþörunga vegna útreikninga á kolefnisspori í sjávarútvegi

Sigurður Pétursson tekur þátt í starfi ISO/TC 234/WG12 en vinna við gerð staðalsins er á upphafsmetrum.ISO/TC 234 hefur gefið út 11 alþjóðlega staðla; 6 um rekjanleika, 3 um fiskeldi og tvo um lífsferilsgreiningar og meðferð úrgangs. Einn þeirra hefur verið staðfestur sem íslenskur staðall, ÍST ISO 12878:2012, Environmental monitoring of the impacts from marine finfish farms on soft bottom, sem tók gildi á Íslandi 15. júlí 2016. 

 

1. gr.

Fagstaðlaráðið starfar í umboði stjórnar Staðlaráðs Íslands í samræmi við starfsreglur þess um fagstaðlaráð. 
Að öðru leyti en þessar reglur kveða á um gilda starfsreglur Staðlaráðs og lög um staðla og Staðlaráð Íslands, nr. 36/2003  með síðari breytingum.

2. gr.
Hlutverk og verksvið fagstaðlaráða

Fagstaðlaráð er vettvangur stöðlunar á tilteknu fagsviði.

Byggingarstaðlaráð (BSTR) er vettvangur stöðlunar á sviði bygginga og mannvirkjagerðar. Til byggingariðnaðar telst öll starfsemi sem fellur undir byggingarlög. Þar má telja undirbúning, hönnun, útboð, verksamninga og framkvæmdir við byggingarmannvirki, viðhald þeirra og rekstur svo og allt sem varðar byggingarefni og þjónustukerfi bygginga. Til mannvirkjagerðar telst meðal annars gerð samgöngu- og orkumannvirkja. 

Fagstaðlaráð í fiskimálum (FIF) er vettvangur stöðlunar á sviði sjávarútvegs, fiskveiða, fiskvinnslu og fiskeldis.

Fagstaðlaráð í upplýsingatækni (FUT) er vettvangur stöðlunar á sviði upplýsingatækni.

Rafstaðlaráð (RST) er vettvangur stöðlunar á sviði raftækni.

Hlutverk ráðs eru:
gerð árlegrar starfs- og fjárhagsáætlunar,
samræming og frumkvæði í stöðlunarvinnu og öðrum verkefnum á fagsviðinu,
umsjón stöðlunarvinnu á fagsviðinu,
þátttaka í innlendu og erlendu samstarfi á fagsviði sínu,
umfjöllun um verkefna- og staðlatillögur á fagsviði sínu sem berast frá staðlasamtökum sem Staðlaráð á aðild að.

3. gr.
Fjármál

Tekjur ráðsins eru aðildargjöld þess og fjármagnstekjur, auk annarra tekna og styrkja vegna verkefna.  Jafnframt fær það hlutdeild í tekjum af sölu staðla samkvæmt samningi milli Staðlaráðs og fagstaðlaráðanna.  Þessar tekjur skal ekki nýta í annað en verkefni á vegum ráðsins.

Fjárhagur ráðsins er aðskilinn fjárhag Staðlaráðs og er því óheimilt að skuldbinda Staðlaráð eða stjórn þess fjárhagslega.

Sjóðir ráðsins verða á sérgreindum reikningi í vörslu Staðlaráðs sem sér um alla greiðslu og innheimtu reikninga fyrir hönd ráðsins svo og bókhald þess.  Reikningar skulu samþykktir af formanni stjórnar eða ritara fagstaðlaráðsins og staða verkefna skal ætíð vera aðgengileg og rekstur þeirra gagnsær.

Stjórn ráðsins ráðstafar þeim ómörkuðu fjármunum, sem því kunna að leggjast til, í samræmi við rekstrar- og verkáætlanir ráðsins, eins og þær eru hverju sinni.

Stjórn ráðsins er ábyrg gagnvart fjárveitingaraðila varðandi ráðstöfun markaðra fjármuna, sem veittir kunna að verða til þess.

Tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga ráðsins  skulu kjörnir til tveggja ára úr röðum fulltrúaráðsins á aðalfundi.

4. gr.
Aðild að  fagstaðlaráði

Rétt til þátttöku í fagstaðlaráðinu  hafa aðilar að Staðlaráði Íslands. Sækja skal skriflega um aðild að ráðinu. 

Óski aðili eftir þátttöku í fleiri en einu fagstaðlaráði, skulu aðildargjöld hans skiptast jafnt á milli ráðanna. Hlutfall aðildargjalda hefur ekki áhrif á atkvæðavægi þátttakenda. 

Tilkynning um breytingu á þátttöku í fagstaðlaráðinu skal vera skrifleg og berast stjórn þess og Staðlaráði fyrir aðalfund ráðsins.

Úrsögn úr ráðinu skal vera skrifleg og miðast við áramót.

5. gr.
Fulltrúaráð

Þeir sem hafa fengið aðild að fagstaðlaráðinu skulu skipa einn fulltrúa hver til setu í því og einn til vara.  

Fulltrúar að ráðinu skulu ábyrgir fyrir því að umbjóðendum þeirra sé ávallt kunnugt um ákvarðanir ráðsins og skulu, eftir því sem við á, leita eftir afstöðu þeirra til mála sem þar eru á dagskrá hverju sinni.

Starfsemi ráðsins fer fram á fundum þess sbr. 6. gr., á vegum stjórnar sbr. 8. gr., innan nefnda sem ráðið skipar og meðal fulltrúa sem starfa á þess vegum í alþjóðlegum nefndum.

6. gr.
Fundir og starfshættir fulltrúaráðs

Halda skal fulltrúaráðsfundi í fagstaðlaráði svo oft sem ástæða þykir, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Jafnframt ber að boða til fundar innan tveggja vikna ef 1/5 hluti fulltrúa óskar þess skriflega.

Fulltrúar í ráðinu  eiga einir rétt til fundarsetu, en heimilt er að veita öðrum áheyrnarsæti að fengnu samþykki stjórnar. 

Á fundum ráðsins er mótuð stefna þess í einstökum verkefnum og á einstökum verkefnasviðum. Jafnframt tekur fagstaðlaráðið afstöðu til tillagna um upphaf eða lok verkefna, staðfestir rekstrar- og verkáætlanir, fylgist með framvindu verkefna og setur stjórn þau fyrirmæli, sem þurfa þykir. Enn fremur verða á fundum ráðsins tekin til umfjöllunar þau önnur málefni, sem stjórn kýs að leggja fyrir, eða einstakir fulltrúar bera upp með hæfilegum fyrirvara.

Formaður kallar fulltrúaráð saman til funda og skipar fundarstjóra.

Fundarboð skulu send út með sannanlegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fundardag. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundar. Með fundarboði skulu, hverju sinni, fylgja þau gögn, sem fyrir fundinn verða lögð, vegna þeirra mála, sem eru á dagskrá. Heimilt er þó að leggja fram á fundi gögn til kynningar máli, sem ekki er á dagskrá, eða gögn varðandi mál, sem ekki kemur til afgreiðslu á fundinum.

Fundur telst ályktunarfær, hafi verið rétt til hans boðað.

Fundargerð skal send fulltrúum í ráðinu innan tveggja vikna frá fundardegi. Komi engar athugasemdir fram innan tveggja vikna frá útsendingu fundargerðar, skoðast hún samþykkt.

Stjórn og tækninefndir boða til kynninga, námskeiða og ráðstefna á vegum ráðsins, eftir því, sem tilefni gefst til, í samráði við skrifstofu Staðlaráðs.

7. gr.
Stjórn fagstaðlaráðsins

Fulltrúar að fagstaðlaráðinu kjósa á aðalfundi þess formann og 4 aðra fulltrúa og eftir atvikum tvo varamenn úr röðum fulltrúa að fagstaðlaráðinu. Kosið er til tveggja ára í senn. Stjórn skiptir sjálf með sér verkum og fer með málefni fagstaðlaráðsins milli funda þess. Hún fundar svo oft sem þurfa þykir. Formaður boðar fundi stjórnar. Í forföllum aðalmanns skal draga um hvor varamaðurinn tekur sæti aðalmanns og fer með atkvæði á þeim fundi.

8. gr.
Fundir og starfshættir stjórnar

Ritari fagstaðlaráðsins situr stjórnarfundi, hefur málfrelsi og tillögurétt, er fulltrúum stjórnar til aðstoðar og sinnir þeim verkefnum, sem honum eru falin sbr. reglur um þátttöku í staðlastarfi.

Stjórn felur formanni og ritara umboð til þess að fara með málefni þess á milli funda

Fundarboð stjórnar skulu hafa borist eigi síðar en 2 dögum fyrir boðaðan fundardag. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundarins og öll nauðsynleg gögn til að afgreiða mál á dagskránni, auk tillagna um afgreiðslu mála ef við verður komið. Heimilt er að leggja fram á fundi gögn til kynningar á máli, sem ekki er á dagskrá, eða gögn varðandi mál sem ekki koma til afgreiðslu á fundinum.

Komi fram ósk um að sérstakt málefni verði tekið fyrir á fundi er beiðni þess efnis send til formanns. Með erindinu skulu fylgja öll gögn sem varða afgreiðslu málsins.

Fundur er ályktunarbær ef meirihluti stjórnar er mættur. Einfaldan meirihluta fundarmanna þarf til ákvarðanatöku.

9. gr.
Aðalfundur

Aðalfundur fagstaðlaráðsins skal haldinn á fyrri hluta árs, í tæka tíð fyrir aðalfund Staðlaráðs. Hver fulltrúi í ráðinu hefur eitt atkvæði á aðalfundi. Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:

a) Tilnefningar í fulltrúaráð
b) Skýrsla formanns fyrir liðið starfsár
c) Skýrslur starfshópa
d) Staða verkefna
e) Reikningar ráðsins
f) Starfs- og fjárhagsáætlun yfirstandandi árs, þ.m.t. ráðstöfun aðildargjalda og annarra fjármuna sem ráðinu kunna að leggjast til
g) Breytingar á starfsreglum
h) Kosning stjórnar
i) Kosning félagslegra skoðunarmanna reikninga
j) Önnur mál

Starfsár ráðsins er almanaksárið.

10. gr.
Rekstur

Rekstur ráðsins er hluti af faglegum og fjárhagslegum rekstri Staðlaráðs. Framkvæmdastjóri Staðlaráðs ræður, í samráði við formann fagstaðlaráðsins ritara til að sinna faglegum verkefnum fyrir ráðið og ber hann ábyrgð á störfum sínum gagnvart stjórn ráðsins.

Stjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri ráðsins og framkvæmd þeirra verkefna, sem undir það falla.

Ritari ráðsins annast daglegan rekstur þess í umboði stjórnar. 

11. gr.
Skipan tækninefnda

Stjórn ráðsins skipar tækninefndir skv. reglum um þátttöku í staðlastarfi og setur þeim umboð. Stjórn Staðlaráðs staðfestir skipan tækninefnda og umboð þeirra sbr. ákvæði í Starfsreglum Staðlaráðs. Tækninefnd og vinnuhópum ber að fylgja þeim fjárhagsramma sem þeim er settur og er óheimilt skuldbinda fagstaðlaráð, Staðlaráð eða stjórn þess fjárhagslega nema skv. umboði.

Tækninefndir geta skv. reglum um þátttöku í staðlastarfi skipað vinnuhópa til að vinna einstök og afmörkuð verkefni sem tilheyra stöðlunarvinnu.

12. gr.
Túlkun staðla

Komi fram ósk um formlega túlkun einstaks ákvæðis gildandi íslensks staðals, skal ætíð leitað til formanns þeirrar nefndar, sem um málið fjallaði, og hann inntur eftir afstöðu hennar til ákvæðisins. Að henni fenginni gefur stjórn umsögn.  Jafnframt ákveður stjórn, hvort ástæða sé til þess að meðhöndla túlkunina sem stöðlunarverkefni. 

Ef ágreiningur er um túlkun ráðsins varðandi staðla skal vísa honum til stjórnar Staðlaráðs til úrlausnar.

13. gr.
Atkvæðagreiðsla

Við afgreiðslu mála á fundum fagstaðlaráðsins og stjórnar skal leitað eftir samstöðu og kappkostað að afgreiða mál samhljóða.

Komi til atkvæðagreiðslu um almenn málefni ræður einfaldur meirihluti atkvæða. 


14. gr.
Ágreiningur

Komi til ágreinings um túlkun þessara reglna skal málinu vísað til stjórnar Staðlaráðs til úrskurðar.

15. gr.
Gildistaka

Reglur þessar öðlast gildi að fenginni staðfestingu aðalfundar Staðlaráðs Íslands. Þeim verður aðeins breytt hafi breyting verið samþykkt á aðalfundi fagstaðlaráðsins og staðfest á aðalfundi Staðlaráðs.  Sama gildir um ákvörðun um slit ráðsins og ráðstöfun fjármuna komi til slita á því.

Þannig samþykkt á aðalfundi Staðlaráðs Íslands 28. maí 2020.

Menu
Top