Rafstaðlaráð (RST) er fagstaðlaráð á vegum Staðlaráðs Íslands. RST var stofnað 7. júní 1994 og voru stofnaðilar 16 talsins. Áður starfaði Fagstjórn í raftækni um fjögurra ára skeið á vegum Staðlaráðs.
Rafstaðlaráð (RST) var stofnað til að skapa breiðan grundvöll fyrir samvinnu um rafstöðlun meðal hagsmunaaðila hér á landi svo og til að taka þátt í rafstöðlun á alþjóðavettvangi. RST eru opin samtök fyrir innlenda hagsmunaaðila og alla þá sem vilja fylgjast með og hafa áhrif á gerð staðla. Aðild að RST veitir aðgang að nýjustu upplýsingum um þróun alþjóðlegrar stöðlunar. Aðilar RST geta haft áhrif á gerð staðla á evrópskum vettvangi og frumkvæði að gerð séríslenskra staðla auk handbóka og annars kynningarefnis á íslensku.
RST tekur þátt í alþjóðastöðlun á sviði raftækni og fjallar um tæknileg málefni sem heyra undir evrópsku rafstaðlasamtökin CENELEC og Alþjóða raftækniráðið IEC. RST leitast við að kynna fyrir aðilum sínum og öðrum þeim sem málið varðar, það stöðlunarstarf sem fram fer á vegum CENELEC og IEC og að gæta íslenskra hagsmuna á þeim vettvangi. RST hefur auk þess frumkvæði að nýjum verkefnum á staðlasviði hér innanlands.
Aðildargjöld Rafstaðlaráðs standa undir mestum hluta rekstrarkostnaðar þess, en einnig koma til tekjur af útgáfu handbóka og útgáfu séríslenskra staðla á raftæknisviði. Rafstaðlaráð lítur eftir hagsmunum íslenskra fyrirtækja og almennings á sviði raftækni, gefur út handbækur og stendur fyrir þýðingu mikilvægra staðla. Með aðild gefst félögum tækifæri til að fylgjast með rafstöðlun, fá þar möguleika á að starfa að staðlamálum á Evrópuvettvangi og um leið að efla starfsemi Rafstaðlaráðs. Með samstarfi við aðrar þjóðir á vettvangi rafstöðlunar hefur RST, undir merkjum Staðlaráðs, náð að koma fram sem marktækt afl í heimi stöðlunar í Evrópu.
RST hefur, auk þýðingar staðla og útgáfu handbóka, meðal annars beitt sér fyrir gerð sérstakra þjóðarviðauka, þegar þær aðstæður skapast að þörf er á að gera sérkröfur í rafstöðlum fyrir Ísland. Slík þörf getur skapast vegna óblíðra náttúruafla svo sem ísingar, jarðskjálfta eða vinds. Við hvetjum alla þá sem hagsmuni og/eða áhuga hafa á rafstöðlun til að gerast aðilar að Rafstaðlaráði. Með aðild að Rafstaðlaráði er viðkomandi jafnframt orðinn aðili að Staðlaráði Íslands sem tryggir honum aðgang að upplýsingum um stöðlun á öðrum fagsviðum.
Rafstaðlaráð notar skammstöfunina RST, sem auk tilvísunar í nafnið, er valin með hliðsjón af því að þessir bókstafir voru lengi notaðir fyrir heiti fasanna í þrífasa rafkerfum, þar til núgildandi staðall um það efni tók gildi.
Stjórn Rafstaðlaráðs 2024-2025 skipa:
Kjörnir skoðunarmenn reikninga eru:
Ritari RST er Guðmundur Valsson hjá Staðlaráði Íslands.
Rafstaðlaráð heldur tvo almenna fundi árlega. Aðalfundur er haldinn í febrúar/mars og haustfundur í október/nóvember. Þess utan stendur Rafstaðlaráð fyrir vinnustofum um málefni sem eru í deiglunni hverju sinni sem leitt geta til útgáfu stöðlunarskjala þyki vinnustofunni þörf á því.
Tækninefnd um raflagnir bygginga NTC64
Tilgangur nefndarinnar er að fara yfir tillögur að breytingu á staðli um raflagnir bygginga, (e. Low voltage electrical installations - HD/IEC 60364 staðlaröðina). Nefndin heldur fundi eftir þörfum. Hún hefur ekki markaðan starfstíma og er opin öllum áhugasömum.
Jóhann Ólafsson hjá HMS, sem situr í nefndinni, hefur tekið þátt í starfi nefndarinnar TC 64 á vettvangi IEC.
Í nefndinni starfa:
Vinnustofa um málefni rafbíla
Í febrúar 2024 var haldin fjölsótt vinnustofa um málefni rafbíla þar sem fjölmörg málefni voru reifuð og ákveðið að halda áfram að starfa undir merkjum vinnustofunnar að skilgreiningu verkefna á grundvelli þessara málefna. Vinnustofan hefur haldið 3 fundi á árinu og er enn að störfum.
Tækninefnd um innviði og tengistaði rafbíla TN-ITR - í dvala
Tækninefndin er vettvangur til samræmingar og stöðlunar vegna rafbílavæðingar á Íslandi sem hefur það hlutverk að:
ÍST HB 200
Rafstaðlaráð stóð fyrir útgáfuverkefninu ÍST 200 ný útgáfa, þar sem gefin er út þýðing staðlaráðarinnar ÍST HD 60364 í handbókinni ÍST HB 200. Gefin var út handbókin ÍST HB 200:2020. Í handbókinni eru þýðingar 43 staðla í staðlaröðinni og hefur síðan verið gefin út árleg útgáfa í júní þar sem nýjustu útgáfur staðlanna eru þýddar og nýjir staðlar í staðlaröðinni teknir inn. Handbókinni er eingöngu dreift í rafrænum lesaðgangi í áskrift á vef Staðlaráðs. Handbókinni er dreift gjaldfrjálst til allra nemenda í rafiðngreinum, meistaranema og til rafiðnkennara á grundvelli samnings við Rafmennt. Þá hefur SART samið um aðgang að handbókinni fyrir sína félagsmenn. Þá er seld áskrift til annarra notenda sem fer vaxandi með hverju árinu.
Í upphafi styrkti HMS verkefnið duglega en áskriftarsamningar standa undir viðhaldi handbókarinnar.
Við þýðingar hafa nokkrir aðilar komið að yfirferð þeirra auk ritara Rafstaðlaráðs.
VH Orðalistar í ÍST HB 200
Sérstakur vinnuhópur um um orðalista og hugtök vann við uppfærslu hugtakalista og skilgreininga í ÍST HB 200. Með hópnum störfuðu fulltrúar frá Orðanefnd Rafmagnsverkfræðideildar Verkfræðingafélagsins ORVFÍ sem hafa gefið út alla Electropediu (IEV), Raftækniorðasafn IEC (IEC 60050) og birt í bókum og í íðorðasafni á vef Árnastofnunar. Hópurinn lauk störfum eftir útgáfu á ÍST HB-200:2023.
Í hópnum störfuðu:
RST-SH-200 - Stýrihópur ÍST HB 200
ÍST HB 200 verkefninu er stýrt af stýrihóp sem eftirfarandi skipa:
Þróunarverkefni framkvæmdaráðs - Vinnustofur
Vinnustofa – VS Landtengingar skipa. Stofnaður var undirbúningshópur sem samanstóð af:
Vinnustofan var haldin og var góð þátttaka og í kjölfar hennar var stofnaður ad hoc hópur sem gekk frá fjórum vinnustofusamþykktum um mikilvæga þætti við stöðlun landtenginga skipa til útgáfu og voru staðfestar af Vinnustofunni og aðgengilegar í Staðlabúðinni. Kjartan Jónsson Verkís var formaður fyrir vinnuhóps fyrir ritun vinnustofusamþykkta um Landtengingar skipa. Vinnustofusamþykktirnar eru aðgengilegar án endurgjalds í Staðlabúðinni.
Vinnustofa um Töflustaðalinn
Rafstaðlaráð í samvinnu við Rafmennt stóð fyrir fjölsóttri vinnustofu um töflustaðalinn sem er samheiti yfir staðlaröðin ÍST EN 61439 og samanstendur af 6 stöðlum um rafmagnstöflur og mismunandi tilgang þeirra. Í kjölfar þeirrar vinnustofu var undirbúið verkefnið við að þýða handbók/vef með námsefni fyrir „töfluvirkja“ þ.e. þá sem vinna við framleiðslu, hönnun og uppsetningu á rafmagnstöflum. Þannig verði þekkingarstig aukið og að í framhaldi muni sala á töflustaðlinum glæðast en mjög lítil sala hefur verið á stöðlum úr staðlaröðinni þótt vísað sé í hana í Reglugerð um raforkuvirki. Undirbúningshópur fyrir vinnustofuna skipa:
Vinnustofa um raflagnir vinnslunotanda
Í ÍST HB 200:2024 er fyrsta þýðing á staðli um raflagnir vinnslunotenda, en vinnslunotendur eru þeir notendur sem hafa eigin orkuvinnslu úr sólarorku, vind eða vatni eða geyma orku í rafhlöðum. Í tilefni af útgáfunni ákvað Rafstaðlaráð í samstarfi við Rafmennt fyrir vinnustofu um raflagnir vinnslunotenda. Fyrirhuguð dagsetning vinnustofunnar er í janúar 2025.
Tækninefnd um staðal fyrir raflagnir fyrir íbúðir ÍST-150
Tækninefndin er í dvala
Tækninefnd um staðal fyrir fjarskiptalagnir fyrir íbúðir ÍST-151
Tækninefndin er í dvala
YP IEC – IEC Vinnustofa ungra sérfræinga
Staðlaráð hefur undanfarin ár sent unga sérfræðinga á 5 daga vinnustofu ungra sérfræðinga í staðlagerð sem IEC býður upp á samhliða aðalfundi sínum. IEC greiðir fyrir vinnustofuna og gistingu en Rafstaðlaráð hefur greitt flugfar og dagpeninga fyrir ungu sérfræðingana. YP IEC hefur mælst vel fyrir meðal þátttakenda og mikil upplifun og þekking á staðlagerð sem þeir koma sér upp. Árið 2024 var vinnustofan í Edinborg og á vegum RST tóku þátt.
YP Nordic – Norræn vinnustofa ungra sérfræðinga
Seinustu ár hafa rafstaðlasamtökin á Norðurlöndum, NEK í Noregi, DS í Danmörku, SESKO í Finnlandi, SEK í Svíþjóð og ÍST/Rafstaðlaráð efnt til tveggja daga vinnustofu fyrir unga sérfræðinga í rafstaðlamálum. Árið 2025 verður vinnustofan í Helsinki 25.-26. júní og stefnir Rafstaðlaráð á að senda tvo fulltrúa. Val á fulltrúum hefur yfirleitt farið fram meðal aðila að Rafstaðlaráði en þetta árið á að halda sérstaka 2 tíma íslenska vinnustofu fyrir nema í rafmagnsgreinum og er stefnt á að velja íslensku fulltrúana úr þátttakendum í vinnustofunnu.
CENLEC
Ritari sinnir samskiptum vegna tækniráðsfunda CENLEC BT (Technical Board) og er sú vinna greidd af Staðlaráði þar sem hún er hluti þjónustusamnings ÍST við ríkið. Ritari mætir á þrjá Cenlec BT fundi árlega og milli funda eru mikið um afgreiðslur erinda í tölvupósti. Þá hafa Norrænu fulltrúarnir í CLC BT með sér samband sem er ræktað milli funda.
Ritari tekur þátt í CLC CA WG POL sem er vinnuhópur stjórnar Cenelec um stefnumörkun. Á þeim vettvangi er unnið að endurskipulagningu á stjórnkerfi CEN og CENELEC, farið yfir stefnu í evrópskum stöðlunarmálum og alþjóðlega starfssemi á vegum CENELEC. Vinnan er á kostnað Staðlaráðs.
IEC – Alþjóða raftækniráðið
IEC eru samtök þjóða um málefni rafmagnsstaðla og er stjórn Rafstaðlaráðs þjóðarnefnd Íslands í IEC. Ritari Rafstaðlaráðs sækir aðalfundi IEC og tekur þátt í samstarfi ritara þjóðanefnda IEC IF – IEC Forum sem heldur fundi á aðalfundi og er jafnframt með fundi oftast veffundi milli þeirra funda. Þá situr ritari Rafstaðlaráðs Presitent forum á aðalfundi þegar hvorki framkvæmdastjóri ÍST eða formaður stjórnar Rafstaðlaráðs er á fundinum.
Helstu nýjungar sem munu varða Ísland fljótlega eru:
NOREK samstarfið
1NOREK samstarfið er samstarf staðlasamtakanna DS í Danmörku, SEK í Svíþjóð, SESKO í Finnlandi, NEK í Noregi og Staðlaráðs Íslands/Rafstaðlaráðs á Íslandi þar sem farið er yfir nýjungar, áskoranir, vel heppnuð verkefni í þessum staðlasamtökum, málefni IEC og CENELEC auk þess að mynda persónuleg tengsl fulltrúanna á tveimur fundum á ári og óformlegum samskiptum utan þeirra. Þá er á vegum NOREK rekið verkefnið/Vinnustofan YP Nordic, vinnustofa fyrir unga sérfræðinga í staðlamálum og skiptast staðlasamtökin á að vera gestgjafar verkefnisins og er samstarfsnefnd samtakanna sem sér um undirbúninginn. YP Nordic verkefnið er rekið sem sjálfstætt verkefni hjá Rafstaðlaráði.
Formaður NOREK samstarfsins er gestgjafi hvers árs og er Finnland árið 2025
Þátttakendur í NOREK samstarfsins fyrir hönd Íslands er ritari Rafstaðlaráðs nema þegar hann er haldinn á Íslandi en þá sækja fundina jafnframt formaður Rafstaðlaráðs og framkvæmdastjóra Staðlaráðs Íslands er boðaður. Þeir geta þó einnig sótt aðra fundi NOREK samtstarfsins en um það hefur ekki verið að ræða síðasta áratug eða svo.
NOREK fundir: Haldinn er staðfundur snemma vors/apríl í höfuðstöðvum staðlasamtakanna í einhverju hinna fimm Norðurlandanna. Fundarstaður fer á milli landa eftir röð. Annar NOREK fundurinn er haldinn á meðan aðalfundur IEC stendur yfir. Á fundi mæta: æðsti stjórnandi auk formanns stjórnar hverra staðlasamtaka. En samkvæmt hefð hefur ritari Rafstaðlaráðs sótt fundinn fyrir Rafstaðlaráð. Ritari fyrir hönd gestgjafa og gestir sem kynna einstök mál oftast frá gestgjafa. Rafstaðlaráð kostar þátttöku ritara á NOREK fundi. Málefni NOREK samstarfsins eru tekin fyrir á fundum stjórnar Rafstaðlaráðs og stjórnar Staðlaráðs telji forseti það nauðsynlegt s.s. þegar það varðar sölu á stöðlum.
1. gr.
Fagstaðlaráðið starfar í umboði stjórnar Staðlaráðs Íslands í samræmi við starfsreglur þess um fagstaðlaráð.
Að öðru leyti en þessar reglur kveða á um gilda starfsreglur Staðlaráðs og lög um staðla og Staðlaráð Íslands, nr. 36/2003 með síðari breytingum.
2. gr.
Hlutverk og verksvið fagstaðlaráða
Fagstaðlaráð er vettvangur stöðlunar á tilteknu fagsviði.
Byggingarstaðlaráð (BSTR) er vettvangur stöðlunar á sviði bygginga og mannvirkjagerðar. Til byggingariðnaðar telst öll starfsemi sem fellur undir byggingarlög. Þar má telja undirbúning, hönnun, útboð, verksamninga og framkvæmdir við byggingarmannvirki, viðhald þeirra og rekstur svo og allt sem varðar byggingarefni og þjónustukerfi bygginga. Til mannvirkjagerðar telst meðal annars gerð samgöngu- og orkumannvirkja.
Fagstaðlaráð í fiskimálum (FIF) er vettvangur stöðlunar á sviði sjávarútvegs, fiskveiða, fiskvinnslu og fiskeldis.
Fagstaðlaráð í upplýsingatækni (FUT) er vettvangur stöðlunar á sviði upplýsingatækni.
Rafstaðlaráð (RST) er vettvangur stöðlunar á sviði raftækni.
Hlutverk ráðs eru:
• gerð árlegrar starfs- og fjárhagsáætlunar,
• samræming og frumkvæði í stöðlunarvinnu og öðrum verkefnum á fagsviðinu,
• umsjón stöðlunarvinnu á fagsviðinu,
• þátttaka í innlendu og erlendu samstarfi á fagsviði sínu,
• umfjöllun um verkefna- og staðlatillögur á fagsviði sínu sem berast frá staðlasamtökum sem Staðlaráð á aðild að.
3. gr.
Fjármál
Tekjur ráðsins eru aðildargjöld þess og fjármagnstekjur, auk annarra tekna og styrkja vegna verkefna. Jafnframt fær það hlutdeild í tekjum af sölu staðla samkvæmt samningi milli Staðlaráðs og fagstaðlaráðanna. Þessar tekjur skal ekki nýta í annað en verkefni á vegum ráðsins.
Fjárhagur ráðsins er aðskilinn fjárhag Staðlaráðs og er því óheimilt að skuldbinda Staðlaráð eða stjórn þess fjárhagslega.
Sjóðir ráðsins verða á sérgreindum reikningi í vörslu Staðlaráðs sem sér um alla greiðslu og innheimtu reikninga fyrir hönd ráðsins svo og bókhald þess. Reikningar skulu samþykktir af formanni stjórnar eða ritara fagstaðlaráðsins og staða verkefna skal ætíð vera aðgengileg og rekstur þeirra gagnsær.
Stjórn ráðsins ráðstafar þeim ómörkuðu fjármunum, sem því kunna að leggjast til, í samræmi við rekstrar- og verkáætlanir ráðsins, eins og þær eru hverju sinni.
Stjórn ráðsins er ábyrg gagnvart fjárveitingaraðila varðandi ráðstöfun markaðra fjármuna, sem veittir kunna að verða til þess.
Tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga ráðsins skulu kjörnir til tveggja ára úr röðum fulltrúaráðsins á aðalfundi.
4. gr.
Aðild að fagstaðlaráði
Rétt til þátttöku í fagstaðlaráðinu hafa aðilar að Staðlaráði Íslands. Sækja skal skriflega um aðild að ráðinu.
Óski aðili eftir þátttöku í fleiri en einu fagstaðlaráði, skulu aðildargjöld hans skiptast jafnt á milli ráðanna. Hlutfall aðildargjalda hefur ekki áhrif á atkvæðavægi þátttakenda.
Tilkynning um breytingu á þátttöku í fagstaðlaráðinu skal vera skrifleg og berast stjórn þess og Staðlaráði fyrir aðalfund ráðsins.
Úrsögn úr ráðinu skal vera skrifleg og miðast við áramót.
5. gr.
Fulltrúaráð
Þeir sem hafa fengið aðild að fagstaðlaráðinu skulu skipa einn fulltrúa hver til setu í því og einn til vara.
Fulltrúar að ráðinu skulu ábyrgir fyrir því að umbjóðendum þeirra sé ávallt kunnugt um ákvarðanir ráðsins og skulu, eftir því sem við á, leita eftir afstöðu þeirra til mála sem þar eru á dagskrá hverju sinni.
Starfsemi ráðsins fer fram á fundum þess sbr. 6. gr., á vegum stjórnar sbr. 8. gr., innan nefnda sem ráðið skipar og meðal fulltrúa sem starfa á þess vegum í alþjóðlegum nefndum.
6. gr.
Fundir og starfshættir fulltrúaráðs
Halda skal fulltrúaráðsfundi í fagstaðlaráði svo oft sem ástæða þykir, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Jafnframt ber að boða til fundar innan tveggja vikna ef 1/5 hluti fulltrúa óskar þess skriflega.
Fulltrúar í ráðinu eiga einir rétt til fundarsetu, en heimilt er að veita öðrum áheyrnarsæti að fengnu samþykki stjórnar.
Á fundum ráðsins er mótuð stefna þess í einstökum verkefnum og á einstökum verkefnasviðum. Jafnframt tekur fagstaðlaráðið afstöðu til tillagna um upphaf eða lok verkefna, staðfestir rekstrar- og verkáætlanir, fylgist með framvindu verkefna og setur stjórn þau fyrirmæli, sem þurfa þykir. Enn fremur verða á fundum ráðsins tekin til umfjöllunar þau önnur málefni, sem stjórn kýs að leggja fyrir, eða einstakir fulltrúar bera upp með hæfilegum fyrirvara.
Formaður kallar fulltrúaráð saman til funda og skipar fundarstjóra.
Fundarboð skulu send út með sannanlegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fundardag. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundar. Með fundarboði skulu, hverju sinni, fylgja þau gögn, sem fyrir fundinn verða lögð, vegna þeirra mála, sem eru á dagskrá. Heimilt er þó að leggja fram á fundi gögn til kynningar máli, sem ekki er á dagskrá, eða gögn varðandi mál, sem ekki kemur til afgreiðslu á fundinum.
Fundur telst ályktunarfær, hafi verið rétt til hans boðað.
Fundargerð skal send fulltrúum í ráðinu innan tveggja vikna frá fundardegi. Komi engar athugasemdir fram innan tveggja vikna frá útsendingu fundargerðar, skoðast hún samþykkt.
Stjórn og tækninefndir boða til kynninga, námskeiða og ráðstefna á vegum ráðsins, eftir því, sem tilefni gefst til, í samráði við skrifstofu Staðlaráðs.
7. gr.
Stjórn fagstaðlaráðsins
Fulltrúar að fagstaðlaráðinu kjósa á aðalfundi þess formann og 4 aðra fulltrúa og eftir atvikum tvo varamenn úr röðum fulltrúa að fagstaðlaráðinu. Kosið er til tveggja ára í senn. Stjórn skiptir sjálf með sér verkum og fer með málefni fagstaðlaráðsins milli funda þess. Hún fundar svo oft sem þurfa þykir. Formaður boðar fundi stjórnar. Í forföllum aðalmanns skal draga um hvor varamaðurinn tekur sæti aðalmanns og fer með atkvæði á þeim fundi.
8. gr.
Fundir og starfshættir stjórnar
Ritari fagstaðlaráðsins situr stjórnarfundi, hefur málfrelsi og tillögurétt, er fulltrúum stjórnar til aðstoðar og sinnir þeim verkefnum, sem honum eru falin sbr. reglur um þátttöku í staðlastarfi.
Stjórn felur formanni og ritara umboð til þess að fara með málefni þess á milli funda
Fundarboð stjórnar skulu hafa borist eigi síðar en 2 dögum fyrir boðaðan fundardag. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundarins og öll nauðsynleg gögn til að afgreiða mál á dagskránni, auk tillagna um afgreiðslu mála ef við verður komið. Heimilt er að leggja fram á fundi gögn til kynningar á máli, sem ekki er á dagskrá, eða gögn varðandi mál sem ekki koma til afgreiðslu á fundinum.
Komi fram ósk um að sérstakt málefni verði tekið fyrir á fundi er beiðni þess efnis send til formanns. Með erindinu skulu fylgja öll gögn sem varða afgreiðslu málsins.
Fundur er ályktunarbær ef meirihluti stjórnar er mættur. Einfaldan meirihluta fundarmanna þarf til ákvarðanatöku.
9. gr.
Aðalfundur
Aðalfundur fagstaðlaráðsins skal haldinn á fyrri hluta árs, í tæka tíð fyrir aðalfund Staðlaráðs. Hver fulltrúi í ráðinu hefur eitt atkvæði á aðalfundi. Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:
a) Tilnefningar í fulltrúaráð
b) Skýrsla formanns fyrir liðið starfsár
c) Skýrslur starfshópa
d) Staða verkefna
e) Reikningar ráðsins
f) Starfs- og fjárhagsáætlun yfirstandandi árs, þ.m.t. ráðstöfun aðildargjalda og annarra fjármuna sem ráðinu kunna að leggjast til
g) Breytingar á starfsreglum
h) Kosning stjórnar
i) Kosning félagslegra skoðunarmanna reikninga
j) Önnur mál
Starfsár ráðsins er almanaksárið.
10. gr.
Rekstur
Rekstur ráðsins er hluti af faglegum og fjárhagslegum rekstri Staðlaráðs. Framkvæmdastjóri Staðlaráðs ræður, í samráði við formann fagstaðlaráðsins ritara til að sinna faglegum verkefnum fyrir ráðið og ber hann ábyrgð á störfum sínum gagnvart stjórn ráðsins.
Stjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri ráðsins og framkvæmd þeirra verkefna, sem undir það falla.
Ritari ráðsins annast daglegan rekstur þess í umboði stjórnar.
11. gr.
Skipan tækninefnda
Stjórn ráðsins skipar tækninefndir skv. reglum um þátttöku í staðlastarfi og setur þeim umboð. Stjórn Staðlaráðs staðfestir skipan tækninefnda og umboð þeirra sbr. ákvæði í Starfsreglum Staðlaráðs. Tækninefnd og vinnuhópum ber að fylgja þeim fjárhagsramma sem þeim er settur og er óheimilt skuldbinda fagstaðlaráð, Staðlaráð eða stjórn þess fjárhagslega nema skv. umboði.
Tækninefndir geta skv. reglum um þátttöku í staðlastarfi skipað vinnuhópa til að vinna einstök og afmörkuð verkefni sem tilheyra stöðlunarvinnu.
12. gr.
Túlkun staðla
Komi fram ósk um formlega túlkun einstaks ákvæðis gildandi íslensks staðals, skal ætíð leitað til formanns þeirrar nefndar, sem um málið fjallaði, og hann inntur eftir afstöðu hennar til ákvæðisins. Að henni fenginni gefur stjórn umsögn. Jafnframt ákveður stjórn, hvort ástæða sé til þess að meðhöndla túlkunina sem stöðlunarverkefni.
Ef ágreiningur er um túlkun ráðsins varðandi staðla skal vísa honum til stjórnar Staðlaráðs til úrlausnar.
13. gr.
Atkvæðagreiðsla
Við afgreiðslu mála á fundum fagstaðlaráðsins og stjórnar skal leitað eftir samstöðu og kappkostað að afgreiða mál samhljóða.
Komi til atkvæðagreiðslu um almenn málefni ræður einfaldur meirihluti atkvæða.
14. gr.
Ágreiningur
Komi til ágreinings um túlkun þessara reglna skal málinu vísað til stjórnar Staðlaráðs til úrskurðar.
15. gr.
Gildistaka
Reglur þessar öðlast gildi að fenginni staðfestingu aðalfundar Staðlaráðs Íslands. Þeim verður aðeins breytt hafi breyting verið samþykkt á aðalfundi fagstaðlaráðsins og staðfest á aðalfundi Staðlaráðs. Sama gildir um ákvörðun um slit ráðsins og ráðstöfun fjármuna komi til slita á því.
Þannig samþykkt á aðalfundi Staðlaráðs Íslands 28. maí 2020.
ÍST HB 211:2021 Handbók um spennujöfnun raflagna í iðnaði
HB 200 6 kafli Viðauki E1 - Prófunarskýrsla veitu (nýjar eða breyttar veitur)
HB 200 6 kafli Viðauki E2 - Prófunarskýrsla veitu (veitur í rekstri)
HB 200 6 kafli Viðauki F1 - Skýrsluform fyrir skoðun á raflögnum
HB 200 6 kafli Viðauki F2 - Skjalaform fyrir neysluveitur í rekstri
HB 200 6 kafli Viðauki G - Rásaupplýsingar og niðurstöður prófana