Píkur á túr...

Breyting á innskráningu

Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.

Já. Þú last rétt. Staðlaráð Íslands er að tala um píkur á túr. Um það bil helmingur mannkyns fæst við það verkefni u.þ.b. helming ævinnar auk þess að fæða börn og ýmislegt fleira merkilegt með sama líkamshluta. Svo tekur við breytingaskeið, stundum nefnt tíðahvörf. En hvað er Staðlaráð Íslands að skipta sér af því? Svarið við því er að Staðlaráð Íslands leitar stöðugt leiða til að einfalda líf fólks, tryggja öryggi þess og gæta að heilsu þess og að eina spurningin sem skiptir okkur máli að svara er, hvernig er best að gera þetta?

Staðlaráð er eitt púslið í stóru heimsmyndinni þar sem sífellt er leitað svara við þessari spurningu. Það er gert með því að hóa í bestu sérfræðingana úr hópi hagaðila til að svara spurningunni og sammælast um það svör. Þannig verða staðlar til. Créme de la créme og allir sammála.

Um þessar mundir eru bresku systursamtök okkar, BSI, að gefa út staðal sem inniheldur leiðbeiningar til atvinnurekenda um það hvernig þeir geta viðurkennt og stutt við þá staðreynd að helmingur mannkyns fer á túr mánaðarlega svo áratugum skiptir og þaðan í gegnum breytingaskeið. Það er þeirra framlag til jafnréttisbaráttunnar að þessu sinni og 42 hagaðilar tóku þátt í gerð þessa staðals. Þessi líffræði sem fylgir konulíkama hefur ýmis einkenni sem í gegnum áranna rás hafa verið mikið feimnisatriði en eru líka stundum notuð við gaslýsingar. Hvaða kona kannast ekki við spurninguna „Ertu á túr?“ þegar þarf að smætta hennar framlag til heimsins. Eða þegar þessi líkamspartur er notaður til að tala niðrandi um hluti eins og lélegan árangur í íþróttum! Eins furðulegt og það er!

En aftur að staðlinum. Í honum er að finna skilgreiningar á ýmsum hugtökum, farið í gegnum 10 algengar mýtur og þær leiðréttar, atvinnurekendum gefnar góðar leiðbeiningar um mat á stöðunni í eigin rekstri og aðgerðir sem þeir geta gripið til til að styðja við konur á túr eða konur á breytingaskeiði. Þeim eru einnig gefnar mjög góðar leiðbeiningar um það hvernig vinnustaðamenning getur stutt við konur sem glíma við einkenni sem fylgja því að fara á túr eða vera á breytingarskeiði. Atvinnurekendum eru líka gefin verkfæri með þessum staðli sem geta hjálpað þeim að skipuleggja vinnuna þannig að konum líði betur á vinnustaðnum og þær fái það svigrúm og stuðning sem þær þurfa til að koma í veg fyrir streitu. Þannig er þeim gert auðveldara fyrir að takast á við dagleg verkefni og ná betri árangri. Þá er þar að finna leiðbeiningar um mælingar og viðmið sem unnt er að nota til að meta stöðuna og mæla árangur.

Konur eru ekki sjúklingar af því þær eru konur. Þær finna hins vegar fyrir sársauka, blóðmissi, skapsveiflum, meltingartruflunum, höfuðverk og hitakófi auk þess sem gæði svefns geta minnkað. Atvinnurekendur geta margt gert til að styðja við konur þannig að þeim líði betur og nái betri árangri. Og nú er okkur ekkert að vanbúnaði.

BSI telur þennan hluta jafnréttisbaráttunnar svo aðkallandi að staðallinn hefur verið gerður aðgengilegur í lesaðgangi, án endurgjalds.

Atvinnurekendur geta því sótt staðalinn strax í dag og hafist handa við að gera heiminn betri en hann var í gær. Þetta gæti orðið mikilvægasta framlag þeirra til jafnréttis á Íslandi.

Staðalinn BS 30416:2023 Menstruation, menstrual health and menopause in the workplace - Guide má finna hér (stofnið ykkur sem notendur í vefverslun BSI. Það kostar ekkert og ekki þarf að gefa upp annað en nafn og netfang. Veljið svo "view online" til fá aðgang að þessu stórmerkilega verkfæri)

Menu
Top