Samvinna til góðs - ætlar Ísland að eiga aðild að framtíðinni?

Árlegur aðalfundur ISO verður haldinn í dag þar sem kosin verður ný forysta til að leiða þessi mikilvægu alþjóðlegu staðlasamtök næstu skref inn í framtíðina. Að venju hefur vikan verið undirlögð áhugaverðum fyrirlestrum og vinnustofum þar sem samvinna allra þjóða heims er í forgrunni og sérstök áhersla lögð á umhverfismál og stafræna þróun.

Staðlar byggja á hæfileikum og þekkingu verulegs fjölda sérfræðinga sem að auki hafa sammælst um viðmið og kröfur. Staðlar stuðla að nýsköpun, þvert á það sem margir halda því þeim er ætlað að tryggja virkni og gæði vöru, þjónustu og kerfa. Afurðir sem framleiddar eru eftir þeim, hvort sem um er að ræða efnislega vöru, þjónustu eða tiltekin kerfi geta svo verið allskonar „í laginu“. Aðalmálið er að allt virki og sé öruggt, ekki litur form eða einstakar útfærslur.

Í ár tóku tæplega 5000 manns þátt með einum eða öðrum hætti í viðburðinum. Margir lögðu leið sína til Abu Dhabi þar sem fundurinn var haldinn í ár en þúsundir tóku þátt með rafrænum hætti. Í ár sat fulltrúi Staðlaráðs heima vegna skorts á fjármagni til að ferðast til fundar við kollega og taka virkan þátt í hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum vettvangi, funda um nýjar lausnir sem unnið er að sviði loftslagsmála og minna á þarfir lítils ríkis sem þó býr yfir aðdáunarverðum mætti til að vera fullgildur þátttakandi í samstarfi þjóða heims. Samvinna neytenda, atvinnugreina og löggjafa í leit að sammæltum lausnum við flóknum áskorunum er áhrifarík leið til að bæta árangur, auka hagkvæmni og tryggja öryggi og gagnsæi. Þannig leggur Alþjóðaviðskiptastofnunin WTO mikla áherslu á staðlanotkun í milliríkjaviðskiptum því í þeim er að finna sammæli, upplýsingar og viðmið sem allir geta reitt sig á. Án staðla væru viðskipti mun áhættusamari og flóknari og öryggi, umhverfis- og heilsuvernd stefnt í hættu.

Meðal þess sem á dagskrá í ISO vikunni var nýsköpun í loftslagsmálum, viðskipti á tímum stafrænnar væðingar og rafræn vottun vöru til að auka viðskiptaöryggi, væntingar neytenda um staðlaða samvirkni, viðskiptastefnur þjóðríka sem tryggja stuðning við áform í loftslagsmálum, notkun „blockchain“ til að tryggja upprunavottun voru og tryggja vottun á alla aðfangakeðju vöru, áskoranir sem blasa við vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóða, staðla sem tryggja góða stjórnarhætti fyrirtækja og opinberra aðila, staðla sem styðja við hringrásarhagkerfið og umræðuefni sem borið hefur hátt hérlendis sem og annars staðar; ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum.

Samvinna ríkja í gegnum traust net staðlasamtaka um allan heim þar sem atvinnugreinar, opinberir aðilar, neytendur og fræðasamfélagið hafa hlutlausan vettvang til að draga saman þekkingu og hæfni, sammælast um bestu mögulegu lausnir og tryggja samvirkni er ómetanleg. Með aðild að slíku samstarfi eigum við möguleika á að bregðast við og móta lausnir sem verða okkur öllum til góðs. Það eru ekki síst lítil ríki eins og Ísland sem hagnast á slíku samstarfi því þar verða til lausnir og viðmið sem við höfum ekki burði til að búa til sjálf. Án staðla væri svo ótal margt í upplausn, öryggi okkar minna og vernd okkar fyrir ýmis konar vá sem að okkur steðjar mun minni. Við gætum ekki treyst því að matvæli, raftæki, samgöngutæki og netviðskipti væru örugg. Stafræn þróun og árangur í loftslagmálum er óhugsandi án staðla.

Það er þakkarvert að lítið land eins og Ísland hafi aðgang að svo víðtæku neti sérfræðinga sem geta varðað leið að bjartari framtíð og hafi aðgang að ómetanlegu safni viðmiða og leiðbeininga sem við getum reitt okkur á því við höfum ekki burði til að finna upp öll þau nýju hjól sem blasir við að þurfi að búa til. Þess eru þó dæmi að alþjóðlegir staðlar byggi á íslensku hugviti og íslenskri sérfræðiþekkingu.  Þess vegna er mikilvægt að ríkið skili þeim fjármunum sem innheimtir eru af atvinnulífinu í gegnum tryggingagjald. Vanhöld hafa verið á því undanfarin 10 ár og viðbrögð viðskiptaráðherra við ítrekuðum beiðnum Staðlaráðs Íslands um samráð til að leysa úr þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við starfsemi ráðsins hafa enn ekki borist og ekkert sem bendir til þess að verið sé að vinna að lausn á þeim vanda. Verði ráðið ekki fjármagnað með eðlilegum hætti verður ekki unnt að halda opnu aðgengi að mörkuðum, tryggja íslenskum sérfræðingum í ýmsum greinum aðgengi að tengslaneti kollega og þátttöku í þróun lausna sem blasa við, hvað þá að gæta íslenskra viðskiptahagsmuna. Þá uppfyllum við heldur ekki kröfur EES samningsins um að staðlar séu hluti þess regluverks sem innleitt er hér, m.a. til að tryggja vernd mannslífa og kröfur til öryggis ýmissa neytendavara. Útilokun okkar frá þátttöku á vettvangi evrópusamtakanna CEN, CENELEC og ETSI og alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO og IEC hefur í för með sér einangrun, stöðnun og að lokum lokun alþjóðlegra markaða með vörur og nýjar afurðir , einkum þeirra sem þarfnast samræmismats og vottunar. Sú ábyrgð, að tryggja og treysta samkeppnishæfni Íslands og viðhalda neytendavernd hvílir nú á viðskipta- og neytendamálaráðherra.

Menu
Top