Ánægja með Staðlaráð eykst

Í nýlegri þjónustukönnun sem gerð var fyrir Staðlaráð kom í ljós að ánægja með Staðlaráð eykst talsvert á milli ára. Hluta ástæðunnar má finna í þeirri staðreynd að fyrir rúmu ári síðan fórum við að afhenda alla staðla á pdf sniði og að faglegt starf fagstaðlaráða og tækninefnda hefur aukist verulega á undanförnum árum. Í opnum svörum fengum við gríðarlega góðar athugasemdir um atriði sem betur mega fara og við erum þakklát fyrir að viðskiptavinir okkar gefi sér tíma til að koma á framfæri tækifærum fyrir okkur að gera betur. Sumum úrbótatækifærum getum við brugðist við strax. Önnur eru flóknari. Einhverjir viðskiptavina okkar vilja t.d. ekki greiða fyrir staðla. Sala staðla er grundvöllur að rekstri Staðlaráðs og án staðlasölu væru engir staðlar. Með kaupum á stöðlum öflum við tekna til að halda áfram að skrifa viðmið sem bæta öryggi og gæði. 

Okkar stærstu viðskiptavinir eru nú meira en helmingi líklegri til að mæla með okkur við aðra og traust til Staðlaráðs eykst um 21 prósentustig á milli ára. Það stendur nú í 96%. Fyrir það erum við þakklát.

 

Þjónustukönnunin var gerð í nóvember meðal 850 viðskiptavina sem átt höfðu viðskipti við Staðlaráð á undanförnu ári og 299 svöruðu könnuninni, eða 35,1%. 

Á heildina litið eykst ánægja með Staðlaráð úr 61% í 67%, traust til okkar eykst úr 73% í 78% og 80% viðskiptavina finnst nú auðvelt að kaupa staðla en það hlutfall var 71% áður. 

Þegar eingöngu er horft til 20 stærstu viðskiptavina okkar eru ofangreindar tölur  mun hærri. 87% eru ánægð með okkur, 96% bera traust til okkar og 96% finnst auðvelt að kaupa staðla. 

NPS skorið stendur í 15%

Á sama tíma og við erum þakklát fyrir að hafa hlotið góða og bætta einkunn erum við staðráðin í að gera enn betur og munum taka ábendingar ykkar og athugasemdir til alvarlegrar skoðunar til að mæta þörfum viðskiptavina og samfélagsins alls. 

 

Staðlaráð innleiddi  gæðastjórnunarkerfi skv. ÍST EN ISO 9001 og hlaut vottun á það 2019. Kerfið er hryggjarstykkið í bættum árangri enda krefst það stöðugra umbóta, mælinga á árangri og gerir það að verkum að við erum á tánum. Fyrir þig. Og samfélagið allt.

Staðlar tryggja virkni, árangur, öryggi og gæði. Þeir eru frábær stjórntæki sem auðvelda framúrskarandi frammistöðu, áhættustjórnun og umhverfisstjórnun svo eitthvað sé nefnt. Ert þú ekki örugglega að nota staðla til að gera betur?

Menu
Top