Námskeiðahald Staðlaráðs flyst til Endurmenntunar Háskóla Íslands

Breyting á innskráningu

Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.

Endurmenntun HÍ og Staðlaráð Íslands gerðu með sér samning á dögunum sem felur í sér að Endurmenntun yfirtekur nú námskeiðahald sem Staðlaráð hefur boðið upp á um langt árabil. Fjöldi gildra íslenskra staðla er nú um 30.000 en tilgangur þeirra er að tryggja öryggi og neytendavernd, auka umhverfisvernd og samhæfa kröfur og virkni og gæði á einsleitum innri markaði í Evrópu. Þá hefur vefverslun Staðlaráðs að geyma á þriðja tug þúsunda alþjóðlegra staðla til viðbótar sem gagnast skipulagsheildum um allt samfélagið við að bæta rekstur, skilvirkni og afköst og einfalda og samræma alls kyns hluti, okkur öllum til góðs. 


Námskeið sem tengjast stöðlum varða oftast notkun og beitingu einstakra staðla eða staðlaraða þar sem færustu sérfræðingar veita mikilvæga leiðsögn um notkun þeirra. Endurmenntun hefur að markmiði að vera ávallt eftirsóknarverðasti valkostur fyrirtækja, stofnana og einstaklinga til símenntunar á Íslandi og er það því mikill fengur fyrir stofnunina að geta sett þessi sérhæfðu námskeið á dagskrá. 


Staðlaráð mun vinna náið með Endurmenntun til að tryggja upplýsingaflæði og góðan undirbúning fyrir námskeiðahaldið og þróun fleiri námskeiða eftir því sem þarfir vinnumarkaðarins kalla.

Stefnt er á að fyrstu námskeiðin verði haldin í janúar 2022 en nú þegar eru kennd helstu grunnnámskeið sem áður voru á hendi Staðlaráðs.

Á myndinni eru Sæunn Stefánsdóttir, starfandi endurmenntunarstjóri, Helga Sigrún Harðardóttir, framkvæmdastjóri Staðlaráðs og Jóhanna Rútsdóttir, náms- og þróunarstjóri Endurmenntunar.
Menu
Top