Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja árið 2015. Markmiðin eru 17 að tölu og gilda á tímabilinu 2016-2030. Undirmarkmiðin eru 169 og hafa aðildarrríki Sþ skuldbundið sig til að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna út gildistíma þeirra.
Heimsmarkmiðin byggja á þremur stoðum sjálfbærrar þróunar; efnahagslegri, félagslegri og umhverfislegri. Auk þess fela þau í sér fimm meginþemu; mannkynið, jörðina, hagsæld, frið og samstarf. Í þeim felst megininntakið að enginn verði skilinn eftir, hvorki einstaklingar eða hópar.
Heimsmarkmiðin krefjast mikillar skipulagningar af hálfu stjórnvalda enda eru þau bæði margþætt og metnaðarfull. Þau krefjast einnig virkrar þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Íslensk stjórnvöld hafa skrifað áætlun til ársins 2030. Mörg þeirra má nálgast með notkun viðurkenndra og þekktra alþjóðlegra viðmiða sem finna má í stöðlum.
ISO (e. International Organization for Standardization), sem Staðlaráð á aðild að, hefur kortlagt vel á fjórða þúsund alþjóðlega staðla sem varða leiðina að sjálfbærnimarkmiðunum með einum eða öðrum hætti einhvers staðar í heiminum. Þær upplýsingar má nálgast á heimasíðu ISO.
Hér heima er nærtækt að nefna nokkra vinsæla staðla sem markvisst eru notaðir til að auka sjálfbærni, samfélagslega ábyrgð, umhverfisstjórnun og áhættustjórnun svo eitthvað sé nefnt og bæta líf allra hlutaðeigandi um leið og notkun þeirra bætir rekstur fyrirtækja.
Mikilvægasta markmiðið er líklega nr. 17 - Samvinna um markmiðin. Enginn getur eða á að vera eyland við þessa vinnu. Saman getum við hins vegar gert stórkostlega hluti. Staðlar eru í sjálfu sér gott innlegg inn í öll markmiðin en aðferðin við gerð þeirra, þar sem samvinna og sammæli bestu sérfræðinga á hverju sviði ráða ferðinni er frábær birtingarmynd þess hvernig samvinna, samheldni og þétt samstarf býr til viðmið sem gagnast öðrum hagsmunaaðilum um allan heim.