Vinnustofusamþykkt um sjálfbæra skógrækt

Á dögunum stóð Land og Skógur í samstarfi við Staðlaráð Íslands fyrir vinnustofu um sjálfbæra skógrækt á Íslandi. Fulltrúar frá öllum helstu hagsmunaaðilum var boðin þátttaka og voru þátttakendur 25 talsins frá 20 fyrirtækjum og stofnunum sem hafa einhverja hagsmuna að gæta eða hlutverki að gegna þegar kemur að landnýtingu eins og skógrækt á Íslandi. 

Tilgangur vinnustofunnar var að draga upp skýrari heildarmynd af stöðu skógræktar eins og hún er í dag með skoðanaskiptum og út frá sjónarhorni fagaðila sem taka þarf tillit til við gerð sérstaks skógræktarstaðals, fá dæmi frá öðrum löndum um bestu starfsvenjur þegar kemur að skógrækt, ræða um stöðu mismunandi þátta sjálfbærrar skógræktar, hver framtíðarsýnin er og hvað gera þarf til að ná markmiðum um sjálfbæra skógrækt.

Af vinnustofunni að dæma og þeim fulltrúum sem hana sóttu er niðurstaðan sú að það sé að ýmsu að huga þegar kemur að skógrækt á Íslandi og hvernig við stundum hana með sjálfbærum hætti. Öllum þeim þáttum sem lágu til grundvallar í vinnustofunni þarf að huga vel að og tryggja að skógrækt taki fullt tillit til þeirra þegar skógræktarverkefni eru skipulögð. Næstu skref eru að stofna tækninefnd á vettvangi Fagstaðlaráðs í umhverfis- og loftslagsmálum sem starfar undir hatti Staðlaráðs Íslands. Verkefni tækninefndar og vinnuhópa sem munu vinna undir þeirri tækninefnd verður að skrifa staðal fyrir sjálfbæra skógrækt á Íslandi og nýta til þess upplýsingar sem gefnar eru í þessari vinnustofusamþykkt ásamt öðrum rannsóknum og efni sem tengist viðfangsefninu.

Vinnustofusamþykktina má nálgast HÉR í staðlabúðinni okkar. 

Menu
Top