Staðlar og vöfflur - Fullkomin blanda!

Á hverju ári þann 25. mars er haldið upp á alþjóðlega vöffludaginn og við hjá Staðlaráði getum auðvitað ekki látið þann dag fram hjá okkur fara, enda er fátt sem sameinar fólk betur en góð vaffla… nema kannski góðir staðlar!

Það kann að hljóma undarlega við fyrstu sýn, að tengja vöfflur við staðla, en þegar betur er að gáð eru vöfflur og staðlar nánir bandamenn í eldhúsinu.

Hvað gerir góða vöfflu?

Ertu fyrir klassískar, stökkar vöfflur með rjóma og sultu? Eða kýst þú belgískar, mjúkar og dúnmjúkar með dökku súkkulaði og jarðarberjum? Hvernig sem þú vilt hafa þær, þá þarf vöffluupplifunin að vera stöðug og traust, og þar koma staðlar við sögu.

Staðlar eru í hverjum bita sem þú tekur þegar þú snæðir góða vöfflu. Hér eru nokkur góð dæmi um það hvernig staðlar setja sitt mark á góða vöfflu.

  1. Rafmagn og öryggi – Vöfflujárnið sem þú notar þarf að uppfylla strangar öryggiskröfur samkvæmt evrópskum rafmagnsstöðlum (t.d. ÍST EN 60335-2-9). Þú vilt nefnilega fá gullbrúna vöfflu – ekki brunarúst á borðið.

  2. Matur og hreinlæti – Ef þú kaupir tilbúna vöfflublöndu, þá eru matvælastaðlar eins og ÍST EN ISO 22000 sem að tryggja öryggi og rekjanleika í framleiðsluferlinu. Þannig getur þú borðað í sátt við maga og samvisku.

  3. Mælingar og skammtar – Hver veit nema þú sért með ISO staðlaðan mælibolla í eldhúsinu? Mælingar skipta öllu máli þegar kemur að réttum hlutföllunum í deiginu, því jafnvel besta uppskriftin mistekst ef þú setur of mikið hveiti eða of lítið smjör.

  4. Gæði hráefna – Þegar við notum t.d. egg, mjólk eða hveiti, þá hafa margir framleiðendur innleitt staðla fyrir gæðastjórnun, eins og ÍST EN ISO 9001, sem tryggja að varan sé áreiðanleg og uppfylli væntingar.

  5. Umhverfismál – Já, það er líka hægt að hugsa um plánetuna meðan maður borðar vöfflur. Framleiðendur sem fylgja staðli eins og ÍST EN ISO 14001 geta sýnt að þeir huga að umhverfinu í framleiðsluferlinu, hvort sem það er við ræktun hráefna eða pökkun vöru.

Að baki góðri vöru, þjónustu og jafnvel góðri vöfflu, liggur oft samvinna, samræming og skýrleiki. Því eru staðlar eins og leynileg uppskrift að traustri upplifun hvort sem við erum að byggja hús, framleiða lyf eða baka vöfflur.

Við hvetjum alla til að fagna alþjóðlega vöffludeginum með gómsætum bita og meðvituð um allt það sem þarf til að gera vöffluna ekki bara bragðgóða, heldur örugga og sjálfbæra.

Gleðilegan vöffludag og njótið með staðli 

Menu
Top