Það var hátíðleg stund í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í dag þegar gefinn var út alþjóðleg vinnustofusamþykkt ISO sem inniheldur stjórnunarkerfi sem byggir á hinu íslenska Barnahúsi. Verkefnið var unnið að frumkvæði Mennta- og barnamálaráðuneytisins undir forystu Páls Magnússonar, sérfræðings í fastanefnd Íslands í Genf. Staðlaráð Íslands og sænsku staðlasamtökin SIS framkvæmdu svo verkefnið en bæði samtökin eiga aðild að ISO. Á annað hundrað sérfræðingar frá meira en 20 löndum tóku þátt í verkefninu.
Í útgáfuviðburðinum í dag var átta manna málþing sérfræðinga á sviðinu, Erna Kristín Blöndal, ráðuneytisstjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, Sergio Mujica framkvæmdastjóri ISO, Dr. Najat Maalla M´jid sérstakur fulltrúi á skrifstofu aðalritara Sameinuðu þjóðanna um varnir við ofbeldi gegn börnum, Jürg Lauber forseti mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, Sylvie Bollini Evrópuráðinu, Matthew McVarish frá Brave Movement, samtökum þolenda og Aroon Greenberg frá UNICEF. Einar Gunnarsson sendiherra Íslands í Sviss leiddi málþingið.
Útgáfa hinnar alþjóðlegu vinnustofusamþykktar er talin marka tímamót á sviði barnaréttar. Ekki einungis er um að ræða fyrsta staðalinn á þessu sviði heldur kom þar einnig fram að þrátt fyrir fjölda samninga, laga og reglna sem innihalda fegurstu fyrirheit sem finna má gagnvart börnum, þá hefur framfylgd og árangur ekki verið nægjanlegur. Það er nefnilega ekki nóg að sammælast um fögur fyrirheit heldur þarf að teikna upp leiðirnar að árangrinum og þar leika staðlar lykilhlutverk, á þessum vettvangi sem og við tæknilegar útfærslur flókinna viðfangsefna við framleiðslu alls kyns vara.
Vinnustofusamþykktin tryggir gæði, hún límir saman samstarf helstu lykilaðila á þessu sviði, hún tryggir samræmda og sammælta nálgun á viðfangsefnið. Notkun hennar tryggir það að börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi eignast öruggan stað þar sem þau eru vernduð og þeim gert kleift að takast á við þær hremmingar sem þau hafa orðið fyrir. Barnahúsið er hrein og klár útfærsla á Lanzarote sáttmálanum um vernd barna gegn kynferðisofbeldi eins og fram kom í dag þegar vitnað var í Braga Guðbrandsson, fv. forstjóri Barnaverndarstofu, sem bjó fyrsta Barnahúss módelið til á Íslandi.
Vinnustofusamþykktin breytir nálguninni á vernd barna. Spítalar eru fyrir veika. Yfirheyrsluherbergi á löggustöð fyrir glæpamenn. Barnahús fyrir börn. Staðlaráð Íslands er stolt af þátttöku í verkefninu. Línur hafa þegar verið lagðar að frekari stöðlunarverkefnum á sviði barnaréttar og undirbúningur þeirra þegar hafinn.
Myndir af viðburðinum má skoða hér að neðan.