YP Staðlaráð - Vel heppnuð vinnustofa fyrir unga sérfræðinga í tækni og raunvísindum

Þann 5. mars síðast liðinn hélt Staðlaráð Íslands vinnustofu fyrir unga sérfræðinga í tækni og raunvísindum, sem fór fram með miklum ágætum. Yfir 30 metnaðarfullir sérfræðingar tóku þátt og fengu dýrmæta innsýn í heim staðla og staðlastarfs.

Vinnustofan var haldin með það að markmiði að kynna fyrir ungum sérfræðingum mikilvægi staðla og hvernig þeir nýtast í atvinnulífinu. Þátttakendur fengu fræðslu um hvernig staðlar eru þróaðir, hvernig þeir stuðla að gæðum, öryggi og samræmingu á alþjóðavísu, auk þess sem farið var yfir hvernig við notum staðla og hvernig er hægt er að taka þátt í staðlastarfi.

Gagnleg fræðsla og virkar umræður

Á vinnustofunni var boðið upp á fjölbreytta kynningu frá sérfræðingi á sviði staðlastarfs, sem deildi reynslu sinni og þekkingu. Þátttakendur fengu einnig tækifæri til að taka þátt í umræðum, svara spurningum og vinna með notkun á staðli sem hjálpuðu þeim að öðlast dýpri skilning á hlutverki staðla í mismunandi atvinnugreinum.

Framtíðin er björt í staðlastarfi

Að sögn þátttakenda var vinnustofan afar gagnleg og fræðandi. Margir lýstu yfir áhuga á að taka frekari þátt í staðlastarfi, bæði innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Staðlaráð Íslands mun halda áfram að styðja unga sérfræðinga í að tileinka sér þekkingu á þessu sviði og veita þeim tækifæri til að hafa áhrif á þróun staðla.

Við þökkum öllum sem tóku þátt fyrir frábæra vinnustofu og hlökkum til að sjá fleiri ungt fólk taka þátt í staðlastarfi í framtíðinni!

Menu
Top