NOREK fundur nóvember 2024

Á aðalfundi IEC er árlega haldinn fundur í NOREK-samstarfinu, þar sem aðildarlöndin deila upplýsingum um vel heppnuð verkefni, áskoranir og málefni tengd IEC og CENELEC. Að þessu sinni sáu Svíar um fundinn.

Forum-samstarf Norðmanna

Norðmenn hjá NEK hafa þróað samstarfsform sem þeir kalla "Forum". Þeir hafa sett upp nokkur slík, meðal annars um landtengingar skipa og rafknúin farartæki. Á þessum vettvangi er meðal annars fjallað um stöðlun hleðslustöðva fyrir þungaflutninga. Þessi mál eru oft ekki tilbúin til staðlagerðar, en samráð getur leitt til stöðlunarverkefna eða annarrar samræmingar sem gagnast hagsmunaaðilum. Þátttaka í þessum Forum er gjaldfrjáls hjá Norðmönnum, en á öðrum Norðurlöndum er gjaldtaka fyrir þátttöku í nefndum. Danir hafa svipað starf og byrja að rukka þegar mikill áhugi er til staðar.

Rafstaðlaráð hefur tekið þetta upp og stofnað vinnustofur um landtengingar, málefni rafbíla, töflustaðalinn og fyrirhugað er að efna til vinnustofu um raflagnir vinnslunotenda.

Vefnámskeið Norðmanna

Norðmenn halda fjölda vefnámskeiða (webinars) um þessar mundir, sum gjaldfrjáls en önnur ekki, og hafa náð talsverðum tekjum í gegnum þau. Ritari Rafstaðlaráðs hefur nýtt sér þessi vefnámskeið NEK með góðum árangri.

Fræðslusamstarf Finna

Finnar hjá SESKO kynntu vel heppnað verkefni þar sem þeir hafa komið inn í háskólana með fjögurra tíma námskeið sem endar með prófi. Aðrir hafa einnig reynt að nálgast skólana með mismiklum árangri. Rafstaðlaráð hyggst á vorönn 2025 halda stutta vinnustofu eða námskeið fyrir nema í rafmagnsgreinum í háskólunum báðum, meistaraskólanum og hugsanlega framhaldsskólum. Þetta er liður í að velja þátttakendur á YP Nordic, eins dags vinnustofu sem verður haldin í Helsinki í júní. Rafstaðlaráð hyggst senda unga sérfræðinga á þá vinnustofu.

Malamud-dómurinn

Á fundinum var rætt um svokallaðan Malamud-dóm, þar sem Evrópudómstóllinn dæmdi bandaríska aðilanum Carl Malamud í vil varðandi gjaldfrjálsan aðgang að fjórum evrópskum samhæfðum stöðlum. Evrópusambandið er nú að leita leiða til að birta alla samhæfða staðla gjaldfrjálst. Flestir þessara staðla byggja á ISO og IEC stöðlum, og höfundarréttur þeirra liggur hjá þeim samtökum. Staðlasamtökin eru misviljug til að vinna með Evrópusambandinu að þessu máli, og sameiginleg skrifstofa CEN og CENELEC (CCMC) hefur átt í vandræðum með að taka afstöðu. Óvissa ríkir um hvernig þetta verður leyst, en sameiginlegt markmið er að tryggja að hægt verði að fjármagna staðlagerð í framtíðinni eins og í fortíðinni.

Áhugi Dana á Quantum-stöðlum

Danir kynntu áhuga stjórnvalda þar í landi á að taka forystu í Quantum-tækni, þar á meðal staðlagerð á því sviði.

Guðmundur Valsson, ritari Rafstaðlaráðs

Menu
Top