IEC aðalfundur 2025 í Edinborg

Aðalfundur IEC var haldinn í Edinborg dagana 2.–8. nóvember síðastliðinn. Ritari Rafstaðlaráðs sótti fundinn, sem var afar glæsilegur. Á fundinum var farið yfir stjórnskipun samtakanna og haldnir stjórnsýslufundir, auk þess sem bæði opnar og lokaðar vinnustofur og vinnufundir voru á dagskrá.

Ritarinn tók þátt í fundi IEC Forum, sem er tiltölulega nýr vettvangur fyrir ritara þjóðarnefnda IEC, sem og í President Forum fyrir formenn staðlasamtakanna sem standa að þjóðarnefndunum. Unnið er að stjórnsýslubreytingum innan samtakanna, byggðum á ítarlegri greiningarvinnu. Einnig var mikil umræða um sjálfbærni og hlutverk staðla í að stuðla að henni. Sérstakar leiðbeiningar hafa verið gefnar út í Guide 109 um sjálfbærni, og fjölmörg vefnámskeið verið haldin á vegum samtakanna um efnið. Þrátt fyrir þetta benti Wimal, varaforseti IEC, á að enn skorti staðla um sjálfbærni hjá IEC.

Ljóst er að fjarfundir hafa að miklu leyti leyst staðfundi af hólmi, en flestar nefndir kjósa þó að hittast að minnsta kosti einu sinni á ári til að viðhalda tengslum þátttakenda í nefndarstörfum og vinnuhópum.

Tvö verkefni stóðu upp úr á fundinum: OSD – Online Standards Development – og SMART. Bæði verkefnin eru unnin sameiginlega af IEC og ISO. OSD snýr að staðlagerðinni sjálfri og felur í sér notkun sameiginlegs verkfæris sem styður við staðlagerð, meðal annars hvernig unnið er úr athugasemdum á mismunandi stigum í þróun staðals, tengsl þeirra við staðlaðar atkvæðagreiðslur og uppsetningu staðlanna. Í framtíðinni verða staðlarnir á XML-formi með vandlega flokkuðum upplýsingum, sem á að auðvelda alla vinnu við notkun staðla, þar sem hægt verður að „spyrja“ staðla spurninga og fá skýr svör. Öll ný verkefni við staðlagerð eiga að vera unnin í OSD frá og með næstu áramótum.

SMART-verkefnið snýr að notkun staðla, þar sem hægt verður að vinna með einstaka staðla eða staðlaraðir og jafnvel staðlasöfn á svipaðan hátt og með gervigreind. SMART-verkefnið er framtíðin og mjög spennandi, en enn á eftir að finna viðskiptamódel sem tryggir að staðlasala í framtíðinni geti fjármagnað staðlagerð á sama hátt og áður. IEC hefur ekki haft það hlutverk að sjá um staðlasölu aðildarsamtakanna, heldur hafa þau hvert um sig sinnt því, enda aðstæður þeirra mjög mismunandi eftir stærð. Fyrirhugað er að setja upp svokallað „white label“ kerfi sem minni staðlasamtökin geta notað sem sitt eigið, sem ætti að tryggja að Staðlaráð geti boðið SMART-þjónustu fyrir staðlanotendur á Íslandi. OSD og SMART eru liður í að tryggja „long time sustainability“ hjá IEC, sem hefur gert sér grein fyrir að sala staðla á PDF-formi sé ekki fullnægjandi þjónusta til framtíðar. Sumir fundarmenn töldu þó að óvarlega væri farið þar sem ekki væri hægt að ræða „return on investment“, því það hefði hreinlega ekki verið skoðað. Stundum er það þannig með tækniþróunarverkefni að menn eru tilbúnir að leggja út í kostnað með opnum huga til að tryggja nútímalega vinnslu og notkun á stöðlum í framtíðinni.

Á aðalfundi IEC er eini snertiflötur íslensku þjóðarnefndarinnar við þann arm IEC sem snýr ekki að staðlaútgáfu, en það er samræmismat (e. Conformity assessment). Stór armur IEC sinnir þessu, þar sem aðilar sem veita samræmisyfirlýsingar fá vottun á starfsemi sína frá IEC. Þessi starfsemi á meira við í ríkjum sem framleiða raftæki og rafbúnað af ýmsu tagi, en í prógramminu IECRE – þ.e. renewable energy – þar sem tekin eru út sjálfbærni verkefni við vinnslu endurnýjanlegrar orku. Þetta er nokkuð sem kæmi til álita að íslensk vindorkuverkefni færu í.

Glöggir lesendur taka eftir því að fátt var rætt um áhrif Malamud-dómsins, enda eru IEC alþjóðleg samtök og þó eitt landssvæði sé að biðja um sérmeðhöndlun á staðlasölu, var því einfaldlega svarað þannig. IEC mun leita allra leiða til að tryggja höfundarvarinn rétt sinn á stöðlum í því máli. Sem sagt, enginn er að fara að gefa neitt þar.

Á fundinum var haldin fimm daga vinnustofa fyrir unga sérfræðinga, IEC YP 2024, og má sjá grein tveggja þátttakenda sem fóru á vegum Rafstaðlaráðs í sérstakri frétt.

Fundurinn var skemmtilegur og fræðandi, með fullt af nýjum tengslum.

Guðmundur Valsson, ritari þjóðarnefndar IEC/Rafstaðlaráðs á Íslandi

Menu
Top