Skýrt ákall hefur komið fram í alþjóðasamfélaginu um aðgerðir til að stjórna gervigreind. Nýverið svöruðu alþjóðlegu staðlasamtökin IEC, ISO og ITU kallinu með því að leiða saman krafta sína og hyggjast tryggja gerð staðla sem ætlað er að útfæra ramma Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlegt átak um stjórnun gervigreindar (nefndur Global Digital Compact ). Ramminn var samþykktur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þann 22. september 2024) en hann byggir á skýrslu Sþ um stjórnun gervigreindar í þágu mannkyns.
Með stöðlun er búinn til vettvangur þar sem fram fer greiningarvinna og forgangsröðun. Þar er einnig tryggt að bestu sérfræðingar sviðsins koma að gerð staðlanna, bæði frá opinberum stofnunum, stjórnvöldum, staðlasamtökum, tæknifyrirtækjum og öðrum sem starfa á sviðinu og hafa hag af þátttöku. Stöðlunum er ætlað m.a. að segja til um kröfur til þess að efni sem búið er til með gervigreind sé sérstaklega auðkennt, að gerðar séu kröfur um áreiðanleika margmiðlunar og aðferðir til að auðkenna djúpfölsun (e. deepfake). Tilgangurinn er að vernda neytendur, verja hugverkarétt og auka gagnsæi og hlítni við löggjöf. Stöðlunarstarf hefur alla jafna í för með sér mikla þekkingarmiðlun meðal þátttakenda og aukinn skilning á heildarmyndinni.