Staðlar eru líka mannlegir

Dagana 23. og 24. október halda Íslenskir staðlar alþjóðlega vinnustofu á Hilton Reykjavík Nordica. Þar munu ríflega 60 sérfræðingar frá 22 ríkjum vinna að því að formfesta stjórnunarkerfi, virkni og kröfur til þjónustumiðstöðva við börn, sem byggir á módeli íslenska Barnahússins. Verkefnið er unnið undir merkjum alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO, sem áætla útgáfu þess í febrúar 2025. Með því verður íslenska Barnahúsið fyrirmynd um allan heim.

Meðal þátttakenda eru fulltrúar frá Evrópuráðinu, Sameinuðu þjóðunum, barnaréttarnefnd Sþ, Europol, Eurojust, UNICEF, ISO, BRAVE movement (samtökum þolenda kynferðisofbeldis) auk fjölda annarra sérfræðinga, innlendra og erlendra, sem starfað hafa á þessum vettvangi og veitt börnum sem orðið hafa fyrir ofbeldi, þ.m.t. kynferðisofbeldi, þjónustu og meðferð, ásamt fjölskyldum þeirra.

Framtakið, sem unnið er að frumkvæði Mennta-og barnamálaráðuneytisins, hefur hlotið mikla athygli og lof og er einstakt að því leytinu að aldrei áður hefur farið fram svo víðtæk stöðlun, með aðkomu jafn margra þátttakenda, á barnarétti. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem Íslenskir staðlar leiða verkefni á vettvangi ISO.

Formaður vinnustofunnar er Páll Magnússon, sérfræðingur hjá fastanefnd Íslands í Genf. Ritari hennar er Joakim Falk, verkefnastjóri hjá sænsku staðlasamtökunum SIS og skipuleggjandi Helga Sigrún Harðardóttir, framkvæmdastjóri Íslenskra staðla.

Í tengslum við þennan viðburð munu fjórir þátttakendur vinnustofunnar taka þátt í málþingi til að varpa ljósi á það hvernig gervigreind er nú notuð til að brjóta kynferðislega á börnum. Málþingið, sem haldið er í samstarfi Háskóla Íslands og Mennta- og barnamálaráðuneytisins fer fram í Veröld, húsi Vígdísar, föstudaginn 25. október kl 13:30.

Dagskrá málþingsins má finna hér.

Menu
Top