Er öryggi okkar sjálfsagt?

Finnst þér sjálfsagt að leikföng sem markaðssett eru hér á landi séu hvorki skaðleg eða hættuleg og að rafmagnstækin úr ELKO virki vel og valdi ekki hættu eða óþægindum? Viltu geta stundað bankaviðskipti í símanum þínum, að gluggarnir í húsinu þínu haldi vatni og vindum, að það hrynji ekki í jarðskjálftum? Finnst þér sjálfsagt að hafa aðgang að fjarskiptaþjónustu sem nær um allan heim, nýta þér snjalltækni og búa við netöryggi? Viltu kannski líka ná betri árangri í umhverfismálum og hafa greiðan aðgang að nýjustu tækni og taka þátt í stafrænni þróun? Og er sjálfsagt að gervigreind sé ekki skaðleg, t.d. börnum?

Öryggi okkar á mjög margt undir í EES samningnum. Hann tryggir aðild Íslands að staðlasamtökum, bæði alþjóðlegum, sem ná til allrar heimsbyggðarinnar og evrópskum, en öll vinna þau svo saman. Aðild Íslands að EES samningnum tryggir svo að margt sem varðar öryggi okkar og varðað er með stöðlum, annað hvort ratar inn í íslenska löggjöf eða er til reiðu sem bestu viðmið á tilteknum vettvangi. Þannig má nefna að ein setning í Byggingarreglugerð virkjar 9.000 bls. af kröfum til hönnunar mannvirkja sem eru bara að mjög litlu leyti skrifaðar á Íslandi (kannski rúm 2% sem þó telja á þrettánda hundrað ákvæði). Aðgengi að 30.000 evrópskum stöðlum, sem staðfestir eru sem íslenskir, hefur ekki bara í för með sér tryggingu fyrir öryggi okkar og neytendavernd, heldur líka ýmis konar annan ávinning, samkeppnishæfni, virkni, hagkvæmni og samlegðaráhrif.

EES samningurinn færir okkur því lífsgæði sem okkur þykja sjálfsögð og við tökum sem gefin. Ef við stæðum utan innri markaðarins, væri markaðsaðgengi íslenskra vara mun erfiðara, við værum ekki hluti af markaði sem tryggir öryggi fólks og heilsu og ættum aldrei möguleika á að þróa allar þær varnir sem við njótum á hverjum degi og þykja sjálfsagðar.

Farvegur fyrir nýsköpun

Á vettvangi staðlasamtaka höfum við líka frábæran farveg fyrir góðar íslenskar hugmyndir út í hinn stóra heim. Í lok október er von á tugum erlendra sérfræðinga til Íslands, frá Europol, Eurojust, Sameinuðu þjóðunum, UNICEF, Evrópuráðinu og BRAVE movement, samtökum þolenda kynferðisafbrota. Þeir ásamt ásamt fjölda annarra innlendra og erlendra sérfræðinga úr löggæslunni, heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu mun hittast á tveggja daga vinnustofu hérlendis. Tilgangurinn er að búa til alþjóðlega vinnustofusamþykkt um hið rammíslenska og vel virkandi Barnahús þar sem tekið er á móti þolendum kynferðisofbeldis sem enn eru á barnsaldri og aðstandendum þeirra þar sem hlúð er að þeim eftir rannsókn mála. Þannig verður hið góða starf allra þeirra sem á undan hafa komið og mótað módelið sem Barnahúsið byggir á, aðgengilegt öllum þeim sem vilja nýta sér það til góðs. Staðlaráð Íslands er í fyrsta sinn bæði eigandi tillögu og stjórnandi slíkrar vinnustofu á vettvangi ISO, alþjóðlegu staðlasamtakanna og markar verkefnið því tímamót í starfi ráðsins.

Til viðbótar því að vera þjónustumiðstöð vegna þátttöku Íslands í því evrópska kerfi sem komið var á með EES samningnum, og inniheldur regluramma utan um stöðlun, faggildingu, vottanir, prófanir, skoðanir og markaðseftirlit er talsvert unnið af íslenskum stöðlunarverkefnum á vettvangi ráðsins. Ber þar helst að nefna stöðlun á sviði upplýsingatækni, mannvirkjamála, rafmagns, umhverfismála og fiskimála. Allar nánari upplýsingar um verkefnin er að finna á vef Staðlaráðs Íslands

Pistill eftir Helgu Sigrúnu Harðardóttir, framkvæmdastjóra Staðlaráðs Íslands. 

Menu
Top