Í dag, 14. október, fögnum við Alþjóðlega staðladeginum með yfirskriftinni "Sameiginleg framtíðarsýn fyrir betri heim: Staðlar fyrir heimsmarkmiðin". Í ár er sérstök áhersla lögð á heimsmarkmið 9 um iðnað, nýsköpun og innviði. Staðlar stuðla að sjálfbærri þróun með því að styðja nýsköpun, byggja trausta innviði og ýta undir sjálfbæra iðnvæðingu. Þeir gegna lykilhlutverki við að skapa tæknilegar lausnir og jafna leikvöllinn á heimsvísu, sem er mikilvægur þáttur í uppfyllingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Staðlar gera okkur kleift að starfa saman á skilvirkan hátt, tryggja gæði og öryggi, bæta framleiðni og styðja við sjálfbærni. Hjá Staðlaráði Íslands vinnum við náið með hagsmunaaðilum til að stuðla að þróun staðla sem styðja við íslenskt atvinnulíf og samfélag. Með því að fylgja viðurkenndum stöðlum tryggjum við að vörur, þjónusta og ferlar uppfylli kröfur um gæði, öryggi og áreiðanleika. Í heimi þar sem áskoranir á sviði loftslagsmála og sjálfbærni verða sífellt stærri, skipta staðlar meira máli en nokkru sinni fyrr.
Við hvetjum alla til að kynna sér starf okkar og þau tækifæri sem staðlar bjóða til að skapa betri framtíð.