Húsasmiðjan hefur síðustu ár lagt mikla áherslu á sjálfbærni í rekstri sínum og hefur meðal annars tekið upp alþjóðlegar vottanir, eins og FSC-merkingar fyrir viðarvörur. Í samtali við Staðlaráð Íslands útskýrir Emilía Borgþórsdóttir, verkefnastjóri sjálfbærnimála hjá Húsasmiðjunni, hvernig fyrirtækið sér sjálfbærni sem ómissandi hluta af framtíð byggingariðnaðarins.
„Við hjá Húsasmiðjunni viljum vera ábyrgur söluaðili sem styðjumst við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna,“ útskýrir Emilía þegar hún er spurð hvað hafi hvatt fyrirtækið til að innleiða sjálfbærnivottanir á borð við FSC. „Við sjáum að neytendur eru sífellt upplýstari og krefjast þess að vörur sem þeir kaupa séu framleiddar með ábyrgum hætti. Fyrir okkur er þetta því ekki bara spurning um aðlaganir – það er aðhald sem knýr okkur til að uppfæra starfsemi okkar og innkaupastefnu í takt við nýja tíma.“
Húsasmiðjan, sem er aðili að Staðlaráði Íslands, hefur unnið ötullega að því að innleiða staðla og vottanir til að styrkja sjálfbærnistefnu sína. Þar gegnir FSC-vottunin, sem er ein helsta umhverfisvottun fyrir sjálfbæra nýtingu skóga, lykilhlutverki. Vottunin tryggir að timbur sem fyrirtækið selur sé rekjanlegt frá sjálfbærum skógum til endanlegs viðskiptavinar.
„FSC-vottunin hefur í raun gjörbreytt vöruframboði okkar,“ segir Emilía. „Við getum nú boðið viðskiptavinum okkar timbur sem uppfyllir kröfur vottunarverkefna, til dæmis í byggingaframkvæmdum sem krefjast vottaðra efna. Þetta gerir okkur einnig auðveldara að tryggja rétt ferli og rekjanleika í gegnum alla keðjuna, sem er grundvallaratriði þegar kemur að því að bjóða upp á sjálfbærar lausnir.“
Að auki segir hún að vottunin hafi áhrif á stjórnun innkaupa og samskipti við birgja. „Við leggjum ríka áherslu á að birgjar okkar uppfylli kröfur um gæði, samfélagsábyrgð og umhverfisáhrif. Þetta þýðir að við vinnum með traustum birgjum sem framleiða vörur á ábyrgum og sjálfbærum grundvelli. Að auki er sérstök áhersla lögð á rekjanleika vörunnar frá uppruna til handa viðskiptavina okkar.“
Þegar kemur að því að tryggja að viðskiptavinir fái traustar og vottaðar vörur, útskýrir Emilía að ferlið hefjist hjá birgjunum sjálfum. „Við vinnum aðeins með birgjum sem uppfylla kröfur um vottanir eins og FSC,“ segir hún. „Þeir þurfa að sanna að vörurnar þeirra fylgi alþjóðlegum stöðlum um sjálfbærni. Þetta felur í sér strangt gæðaeftirlit með framleiðsluferlum þeirra, og í okkar tilfelli fer Húsasmiðjan í úttekt á þriggja ára fresti af óháðum aðila, DNV, sem staðfestir að allt ferlið frá framleiðslu til sölu sé samkvæmt stöðlum.“
„Rekjanleiki er lykilatriði í þessu ferli,“ bætir hún við. „Vörur sem hafa umhverfisvottun, eins og FSC, eru skráðar með sérstökum rekjanleikaupplýsingum í birgðakerfi okkar. Þetta tryggir að við getum fylgt uppruna vörunnar alla leið til ábyrgra og sjálfbærra birgja, sem gefur viðskiptavinum okkar traust á því að þeir séu að kaupa vörur með staðfestan uppruna og framleiðsluhætti.“
Spurð um kosti þess að bjóða umhverfisvottaðar vörur, bæði fyrir Húsasmiðjuna og viðskiptavini, segir Emilía að þeir séu margir. „Fyrir Húsasmiðjuna eykur þetta trúverðugleika okkar á markaðnum, sérstaklega í ljósi þess að umhverfismál skipta sífellt meira máli fyrir neytendur. Fyrir viðskiptavinina tryggir þetta að þeir fái gæðavörur sem eru framleiddar á umhverfisvænan hátt og í samræmi við strangar kröfur um samfélagslega ábyrgð,“ segir hún. „Þetta stuðlar einnig að því að viðskiptavinir taki upplýstar ákvarðanir og velji vörur sem draga úr umhverfisáhrifum.“
Íslenskir neytendur, bæði einstaklingar og fyrirtæki, eru sífellt að verða meðvitaðri um sjálfbærni og áhrif vottana. Emilía útskýrir að kröfur um sjálfbærar vörur hafi aukist verulega undanfarin ár. „Það er mikil aukning á vottuðum byggingaverkefnum á Íslandi, og það hefur áhrif á hvernig við nálgumst vöruframboð okkar,“ segir hún. „Við erum nú í þeirri stöðu að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á vörur sem þeir geta treyst á að séu sjálfbærar og framleiddar á ábyrgum forsendum. Þetta styrkir ekki aðeins sjálfbærnistefnu okkar, heldur tryggir að viðskiptavinir okkar fái vörur sem standast alþjóðlegar kröfur.“
Það getur þó verið áskorun að halda úti slíku vottunarferli, sérstaklega þegar um er að ræða margar mismunandi vörur. Emilía viðurkennir að það krefjist stöðugs eftirlits og eftirfylgni að tryggja að allar vörur uppfylli skilyrði vottunar. „Vottanir eru yfirleitt í gildi í 2-4 ár, svo við verðum sífellt að vera með stöðutékk á vörum okkar,“ segir hún. „Þetta er krefjandi, en það er nauðsynlegt til að viðhalda gæðum og tryggja rekjanleika.“
Framtíðin er björt hjá Húsasmiðjunni þegar kemur að umhverfisvottunum og sjálfbærni. Emilía segir að fyrirtækið sé sífellt að leita að fleiri vottuðum vörum og þrýsta á birgja til að bæta við sjálfbærnivottunum þegar það á við. „Við erum stór birgir á íslenskum markaði og getum haft áhrif á framleiðendur okkar,“ segir hún. „Við viljum tryggja að fleiri vörur séu umhverfisvottaðar og þannig stuðla að aukinni sjálfbærni í byggingariðnaðinum.“
Að lokum segir Emilía að áhersla Húsasmiðjunnar á staðla og vottanir sé lykill að því að auka sjálfbærni á íslenskum markaði. „Með því að bjóða vottaðar vörur stuðlum við að því að draga úr umhverfisáhrifum og tryggjum aukin gæði byggingarefna. Þetta skapar bæði umhverfislegan og efnahagslegan ávinning, og tryggir að Húsasmiðjan haldi áfram að vera leiðandi í sjálfbærum vörulausnum,“ segir hún að lokum.
Staðlaráð Íslands þakkar Emilíu Borgþórsdóttur kærlega fyrir að gefa sér tíma til að deila með okkur sýn Húsasmiðjunnar á sjálfbærni og umhverfisvottanir.