Alþjóðleg ISO vinnustofa um stöðlun íslenska Barnahússins

Dagana 23. og 24. október verður haldin alþjóðleg vinnustofa í Reykjavík þar sem ætlunin er að staðla stjórnunarkerfi hins íslenska Barnahúss.

Mennta- og barnamálaráðuneytið leiðir verkefnið og formaður vinnustofunnar er Páll Magnússon, sérfræðingur hjá fastenefnd Íslands í Genf. 

Von er á tugum sérfræðinga til landsins, sem ásamt íslenskum sérfræðingum munu vinna að þessu mikilvæga málefni í þeim tilgangi að módelið sem Barnahús byggir á verði aðgengilegt um allan heim. Verkefnið er unnið á vettvangi alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO  í samstarfi Íslenskra staðla og sænsku staðlasamtakanna SIS. Þátttakendur eru m.a. frá Sameinuðu þjóðunum, UNICEF, Europol, Eurojust, Evrópuráðinu og BRAVE movement, samtökum þolenda kynferðisofbeldis. Þá hafa fjölmargir islenskir þátttakendur frá löggæslunni, úr heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu boðað komu sína og er þess vænst að vinnustofusamþykktin, sem áætlað er að verði gefin út hjá ISO í febrúar 2025, geti orðið leiðarljós ríkja og samtaka um allan heim, börnum og fjölskyldum þeirra til heilla. 

Íslenska Barnahúsið var sett á fót árið 1998 og er langelsta Barnahúsið í Evrópu. Það hefur þótt bera af en það mat kemur m.a. fram í skýrslu Evrópuráðsins sem finna má hér. Það er því sérstaklega ánægjulegt fyrir Staðlaráð Íslands að vera þátttakandi í útrás framúrskarandi íslenskra hugmynda á sviði barnamannréttinda um leið og ráðið tekst nú í fyrsta sinn á við að leiða slíkt verkefni á vettvangi ISO. Verkefnið er unnið í samstarfi Staðlaráðs Íslands og sænsku staðlasamtakanna SIS. 

 

Menu
Top