Stöðlunarstarf: Samvinna sem mótar samfélagið

Stöðlunarstarf er ferli sem miðar að því að semja staðla um sameiginlegar viðmiðunarreglur sem auðvelda samstarf, tryggir gæði og eykur öryggi í samfélaginu. Staðlar eru alls staðar í kringum okkur og snerta allt frá öryggi rafmagnstækja og bygginga til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda. En hvernig fer stöðlunarstarfið fram og hverjir koma að því?

Samstarf sérfræðinga – staðall verður til

Staðlar eru unnir af fólki með mismunandi sérfræðiþekkingu. Fyrirtæki, stofnanir, háskólar, stjórnvöld og hagsmunasamtök koma saman í tækninefndum hjá Staðlaráði Íslands til að vinna að stöðlum sem gagnast samfélaginu. Þessi samvinna byggir á breiðri þekkingu og reynslu, sem á að tryggja að staðlarnir séu bæði raunhæfir og gagnlegir.

Ferlið byrjar oftast á því að tiltekið svið eða málaflokkur er skilgreindur sem hagaðilar telja að eigi að staðla. Því næst er skipuð tækninefnd sem tekur að sér verkefnið. Sérfræðingarnir í nefndinni vinna í sátt og samlyndi að því að þróa staðla sem uppfylla þarfir bæði atvinnulífs og samfélags. Þetta ferli felur í sér samráð, rannsóknir og ítarlega yfirferð þar sem sjónarmið allra hagsmunaaðila eru tekin með í reikninginn.

Hverjir koma að stöðlunarstarfi?

Að stöðlunarstarfi koma margir ólíkir hagsmunaaðilar. Fyrirtæki og atvinnulífið hafa oftast ríka þörf fyrir staðla sem tryggja samkeppnishæfni og gæði vöru og þjónustu. Einnig gegna stjórnvöld, háskólar, stofnanir og neytendasamtök mikilvægu hlutverki við að tryggja að staðlar stuðli að öryggi og sjálfbærni.

Þetta samspil á að tryggja að staðlar verði til í samráði þar sem allir geta lagt sitt af mörkum. Fyrir vikið endurspegla staðlarnir bæði þarfir markaðarins og samfélagsins í heild.

Hagur samfélagsins – öryggi, samræmi og nýsköpun

Staðlar þjóna mikilvægu hlutverki í samfélaginu okkar. Þeir auka öryggi með því að tryggja að vörur og þjónusta standist ákveðin gæðaviðmið. Til dæmis tryggja byggingarstaðlar að hús séu örugg til búsetu, rafmagnsstaðlar að rafmagnstæki séu örugg í notkun og umhverfisstaðlar að við göngum vel um náttúruna.

Staðlar þjóna líka nýsköpun. Með því að skapa sameiginleg viðmið auðvelda þeir að nýjar lausnir verði aðgengilegar á markaðnum og að ólíkar lausnir virki saman. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að tækniframförum og alþjóðaviðskiptum þar sem samræmi og samhæfing gegna lykilhlutverki.

Ávinningur fyrir alla

Stöðlunarstarf skapar öryggi og samkeppnishæfni og stuðlar að sjálfbærri þróun samfélagsins. Með þátttöku í stöðlunarvinnu fær atvinnulífið tækifæri til að hafa áhrif á þau viðmið sem móta rekstrarumhverfi þess. Fyrir almenning þýðir þetta öryggi um að vörur og þjónusta uppfylli ströngustu kröfur og fyrir stjórnvöld er þetta tæki til að stuðla að betri heilsu, öryggi og velferð landsmanna.

Hjá Staðlaráði Íslands vinnum við í samstarfi við hagaðila að því að þróa staðla sem gagnast öllu samfélaginu, staðla sem bæta lífsgæði, auka nýsköpun og tryggja öryggi okkar allra.

Menu
Top