ESG skýrslugjöf og ISO staðlar

Vitund um loftslagsbreytingar og sjálfbærni hefur vaxið gríðarlega á alþjóðavísu undanfarinn áratug, og hugtök eins og ábyrgð fyrirtækja, kolefnisspor og gagnsæi eru orðin hluti af orðræðu okkar tíma. Þessi mikli drifkraftur í átt að sjálfbærari framtíð hefur fært sjónarmið umhverfis-, félags- og stjórnunarhátta (ESG) í forgrunn í stjórnun fyrirtækja og staðfest stöðu þeirra sem mikilvægra málefna í nútíma viðskiptalífi.

Kostnaðarlækkun, aukin markaðshlutdeild og væntingar hagsmunaaðila eru aðeins nokkrir af þeim lykilþáttum sem liggja að baki stefnu um sjálfbærni. Samhliða þessu herða stjórnvöld á landsvísu löggjöf og reglugerðir á sviði umhverfismála, skattamála og atvinnulífs almennt og krefjast þess að fyrirtæki birti umtalsvert magn gagna í gegnum ESG skýrslugjöf.

Þetta þýðir að fyrirtæki þurfa traust og endurskoðanleg ESG gögn. ESG gögn eru oft eitt helsta viðfangsefni fyrirtækja í öllum atvinnugreinum, og auðvelt er að leysa það með því að fylgja alþjóðlegum stöðlum og bestu starfsvenjum. Í þessari grein er farið yfir flókna þætti ESG skýrslugerðar og hvernig ISO staðlar geta hjálpað fyrirtækjum að innleiða ESG í stefnu sína.

Hvað er ESG skýrslugerð?

ESG er safn ófjárhagslegra aðgerða sem hafa bein áhrif á áhættustýringu, sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. ESG skýrslur eru nánar tiltekið birting upplýsinga um skuldbindingu, viðleitni og framfarir fyrirtækis í umhverfis-, félags- og stjórnarmálum. Tilgangur þeirra er að varpa ljósi á ESG frammistöðu fyrirtækis til að auka gagnsæi til fjárfesta. Þær aðgerðir eru meðal annars loftslagsbreytingar, mannréttindi og launagreiðslur stjórnenda.

Afhverju skiptir ESG skýrslugerð máli?

Ábyrgur rekstur, loftslagsvitund og stefna að „nettónúlli“ hefur bein áhrif á tekjur, kostnað og markaðshlutdeild. Það getur einnig styrkt orðspor fyrirtækis og skapað traust og langvarandi tengsl við hagsmunaaðila. En þetta byggir á því að fyrirtæki tileinki sér stranga stjórnarhætti, gagnsæi í rekstri og vinni innan marka innlendra og alþjóðlegra laga og reglna.

ESG skýrslugerð er mikilvæg af mörgum ástæðum sem gera hana að meginstoð fyrirtækja á öllum sviðum atvinnulífsins:

  • Gagnsæi: Út af vaxandi áhyggjum af sjálfbærni og loftslagsbreytingum eru fyrirtæki farin að vera krafin um að vera gagnsæ í sinni starfsemi. ESG skýrslugjöf gerir fyrirtækjum það kleift að greina frá öllum sínum aðgerðum og árangri.

  • Áhættustýring: Ýmsir áhættuþættir sem tengjast ESG geta sett fyrirtæki í ákveðna hættu varðandi röskun á starfsemi eða jafnvel stuðlað að fjárhagslegu tapi. ESG skýrslugerð getur hjálpað fyrirtækjum að ná utan um slíka áhættuþætti og forðast þá með því að upplýsa um starfsemi sína og greina áhættu.

  • Fjárfestar: Fjárfestar styðjast við alls konar mælikvarða til að meta árangur og vaxtarmöguleika fyrirtækja. Traust ESG starfsemi og gagnsæ skýrslugjöf eru líklegri til að laða að fjárfesta sem leiðir til innspýtingar fjármagns í starfsemina.

  • Orðspor: Neytendur velja að eiga viðskipti við fyrirtæki sem eru í samræmi við þeirra gildi varðandi sjálfbærni. Þeir eru líklegri til að vera tryggari fyrirtækjum sem segja frá ESG starfsemi sinni og framvindu.

  • Samræmi: ESG skýrsla er leið fyrir fyrirtæki til að tryggja rétta upplýsingagjöf og að farið sé að settum reglum. Eftir því sem reglugerðir þróast eru fyrirtæki með sterka ESG skýrslugerð betur í stakk búin til að fylgja þessum breytingum og komast hjá viðurlögum og lagalegum flækjum.

  • Skilvirkni: ESG skýrslugerð felur oft í sér ítarlega endurskoðun á rekstrarferlum. Það getur verið sá drifkraftur sem ýtir fyrirtæki áfram í að auka skilvirkni og finna svið þar sem hægt er að bæta sig.

  • Etirfylgni: ESG skýrslugerð er leið fyrir fyrirtæki til þess að taka ábyrgð á eigin kröfum um frammistöðu á þessu sviði. Hún er jafnframt leið til þess að fylgjast með framvindu til lengri framtíðar.

Eru gerðar kröfur til fyrirtækja um ESG skýrslugerð?

Í skýrslu frá G&A Institute (Governance and Accountability Institute Inc.) frá nóvember 2022 kom fram að 96% fyrirtækja í S&P 500 vísitölunni höfðu birt ESG skýrslu. Hvað þýðir það? Er ESG skýrslugjöf skyldubundin? Eftir því hvar fyrirtæki hafa höfuðstöðvar sínar geta verið til innlendar eða sértækar reglur um ESG skýrslugerð. Einnig eru sífellt fleiri reglugerðir í ákveðnum atvinnugreinum sem kveða á um að fyrirtæki skuli gefa skýrslu í einhverri mynd um ESG starfsemi sína og áhrif.

Þetta hefur hækkað ránna varðandi ESG skýrslugerð og frekari kröfur um ESG skýrslugerð hafa komið til sögunnar. Í Evrópusambandinu hafa til að mynda ýmsar sjálfbærnireglugerðir tekið gildi. Má þar helst nefna reglugerð um upplýsingagjöf um sjálfbær fjármál (e. Sustainable Finance Disclosure Regulation), sem tók gildi í mars 2021. Til viðbótar við þessa reglugerð var innleidd tilskipun um skýrslugjöf um sjálfbærni fyrirtækja (e. Corporate Sustainable Reporting Directive), sem tók gildi í janúar 2023 og kallast í daglegu tali CSRD.

Bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC) hefur fyrir sitt leyti sett reglur um upplýsingagjöf til fjárfesta um loftslagsmál, en þær fela í sér að tiltekin fyrirtæki þurfa að veita upplýsingar um áhættu og losun gróðurhúsalofttegunda.

Þrátt fyrir að ESG skýrslugerð sé ekki orðin skylda alls staðar, er þó sífellt meiri tilhneiging til reglusetningar.

Hvað á ESG skýrsla að innihalda?

ESG skýrslugjöf gegnir lykilhlutverki í að leiðbeina um fjárfestingar- og viðskiptaákvarðanir. Á grundvelli þessarar upplýsingagjafar geta hagsmunaaðilar tekið upplýstari ákvarðanir sem samræmast gildum þeirra og langtímamarkmiðum.

Í skýrslunum eru bæði eigindlegar og megindlegar upplýsingar sem tengjast eftirfarandi sviðum:

  • Umhverfisþátturinn nær yfir allt sem stuðlar að kolefnislosun og loftslagsbreytingum, svo sem orku-, vatns- og úrgangsstjórnun, loftræstingu og loftgæði, efnisöflun og stjórnun aðfangakeðju.

  • Félagslegi þátturinn fjallar um þau tengsl og orðspor sem fyrirtæki hafa við hagsmunaaðila sína, s.s. skuldbindingu við starfsfólk, fjölbreytni og inngildingu, heilbrigði og öryggi, mannréttindi og vinnubrögð.

  • Stjórnunarvíddin er innra kerfi starfshátta, eftirlits og verklags sem fyrirtæki beita til að stjórna sér sjálft, s.s. þanþol viðskiptalíkans, áhættustýringu, laga- og reglufylgni, áreiðanleikakönnun og að mæta þörfum ytri hagsmunaaðila.

Alþjóðleg vinnustofusamþykkt ISO

ISO getur hjálpað til við að styrkja metnaðarfullar stefnur um ESG, og með víðtæku safni staðla getur ISO aðstoðað þau fyrirtæki sem keppast við að vera skrefi á undan lagasetningu, reglusetningu og samfélagslegum breytingum.

Þessu til viðbótar er nú á vettvangi ISO unnið að útgáfu alþjóðlegrar vinnustofusamþykktar (e. International Workshop Agreement, IWA) sem ætlað er að aðstoða við innleiðingu ESG í menningu tiltekinnar skipulagsheildar. Þessi alþjóðlega vinnustofusamþykkt mun hjálpa til við að ná árangri og bæta frammistöðu gagnvart ESG, ásamt því að mæla og skýra frá innan gildandi upplýsingaramma til að tryggja samræmi, samanburðarhæfni og áreiðanleika ESG skýrslugjafar og starfshátta á heimsvísu.

ESG leiðbeiningar ISO eru ætlaðar til stuðnings og samhæfingar við gildandi skýrslugjafarramma, bæði þá sem eru reglubundnir og valkvæðir, til þess að auðvelda samræmingu og samhæfingu á ESG meginreglum og aðferðum. Þær munu veita leiðbeiningar til notenda sem starfa innan ESG kerfisins til að styðja samræmi við aðra ESG ramma, þ.m.t. landslög og alþjóðleg lög. ESG leiðbeiningar ISO geta nýst fyrirtækjum, stórum sem smáum, þvert á atvinnugreinar og lönd.

ESG skýrslugjöf og ISO staðlar stuðla að árangri í sjálfbærni

Fyrirtæki þurfa að taka upp samstarf til að minnka kolefnisspor sitt, ná núllmörkum og verða sjálfbær að fullu. Þetta samstarf næst ekki með stefnumótun einni saman; ESG skýrslugerð er að ryðja sér til rúms sem kjarnaþáttur í ábyrgð fyrirtækja.

Öflug stefnumótun krefst traustra ferla, áhætturamma, hagræðingar og samhæfingar í rekstri. Allt þetta er hægt að ná með innleiðingu ESG ramma og ISO staðla.

Með því að samþætta ISO staðla í umræðuna um ESG geta stjórnendur fyrirtækja betur skipulagt vegferð sína til sjálfbærari og samkeppnishæfari framtíðar. Í uppbyggingu þeirrar framtíðar getur traust safn ISO staðla hjálpað þeim að greina mögulega áhættu, úrbætur og tækifæri.

Menu
Top