ISO vinnustofa um íslenska Barnahúsið

Að frumkvæði mennta- og barnamálaráðuneytisins hafa Staðlaráð Íslands og sænsku staðlasamtökin SIS sent alþjóðlegu staðlasamtökunum ISO umsókn um stofnun vinnustofu þar sem til stendur að staðla uppsetningu, rekstur og virkni hins íslenska Barnahúss. Umsóknin hefur verið samþykkt og fer nú af stað undirbúningur vinnustofunnar.

"Með verkefninu er lagður grunnur að leiðbeiningum og kröfum sem byggja á virkni hins íslenska Barnahúss sem ríki heims geta innleitt og gert að sínum. Þannig búum við til alþjóðlega viðurkennda staðlaða meðferð sem reynst hefur vel og byggir á öllum helstu alþjóðasamningum um réttindi barna," segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Íslenska barnaverndarúrræðið Barnahús hefur verið tekið upp í mörgum löndum undir sama heiti. Markmiðið með stöðlun þess er að skilgreina þær kröfur sem þarf að uppfylla til að bera heitið "Barnahus" á alþjóðavísu og ná tilætluðum árangri. 

Barnahús sinna börnum sem sætt hafa kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Í Barnahúsum fá börn einstaklingsmiðaðan stuðning í barnvænu umhverfi. Tilgangur Barnahúsa er að vernda börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi með því að veita alla þjónustu sem þau þurfa á að halda á einum stað. 

Nú þegar hafa alþjóðlegar stofnanir sem vinna að réttindum barna sýnt verkefninu mikinn áhuga og sumar þegar boðað komu sína á vinnustofuna. 

Vinnustofan, sem ætluð er sérfræðingum innan stofnana sem starfa að málefnum barna og barnaverndar verður þrískipt.

5. september 2024  Vinnustofa 1- fjarfundur 

23.-24. október 2024  Vinnustofa 2- staðfundur í Reykjavík 

10. desember 2024   Vinnustofa 3 fjarfundur 

Stefnt er að þvi að ISO gefi vinnustofusamþykktina út í febrúar 2025.

 

Kynningarfundur verður haldinn fyrir áhugasama þann 20. júní n.k.

 

Allar nánari upplýsingar um verkefnið auk skráningarsíðu má finna á vef sænsku staðlasamtakanna 

 

Menu
Top