Alþjóðlegi umhverfisdagurinn er haldinn hátíðlegur 5. júní ár hvert til að vekja athygli á og hvetja til aðgerða til verndar umhverfinu. Milljónir manna taka þátt í skráðum aðgerðum um allan heim þennan dag.
Alþjóðlegir staðlar IEC, sérstaklega í tengslum við samræmismat, hjálpa löndum og atvinnugreinum að vernda umhverfið. IEC starfar á sviðum eins og endurnýjanlegri orku, LED lýsingu, snjallnetum og hringrásarhagkerfinu.
Staðlar og samræmismat Alþjóðarafstaðlasambandsins (IEC) stuðla bæði beint og óbeint að því að mælikvarðar séu settir fyrir öll 17 Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það sem öll 17 Heimsmarkmiðin eiga sameiginlegt er að þau eru háð orku, sérstaklega rafmagni.
Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna að heimurinn þurfi aðgang að hreinni orku á viðráðanlegu verði til að stuðla að efnahagsþróun, bæta heilbrigðisþjónustu og efla menntun. Vinna IEC getur auðveldað framboð á viðráðanlegri og áreiðanlegri orkuþjónustu, bæði utan og innan kerfisins, og stuðlað að endurnýjun og stækkun áreiðanlegra orkugrunnvirkja.
IEC-vinnan leggur grunninn að prófunum og vottun, auk mælinga á orkunýtni. Yfir 160 IEC tækninefndir og öll fjögur samræmismatskerfin leggja sitt af mörkum til heimsmarkmiðs 7, sem kallar á hreina og viðráðanlega orku.
IEC hefur þróað alþjóðlegan staðal sem veitir hreina orku í gegnum jafnstraumsnet. Staðallinn fyrir lágspennustraum, LVDC, hefur þegar umbylt lífi dreifbýlissamfélaga á Indlandi og annars staðar í þróunarheiminum.
Með samræmismati IEC er verið að finna einstaka lausnir á viðfangsefnum sjálfbærrar þróunar. Þegar ekki er til samræmd, stöðluð leið til að mæla kolefnislosun, getur það valdið því að fyrirtæki setji fram villandi fullyrðingar um áhrif vöru og þjónustu á umhverfið.
IEC kolefnissporskerfi veitir óháða sannprófun á því að fyrirtæki noti rétt ferli, aðferðafræði og skrár til að reikna kolefnisspor tiltekinnar vöru. Þessi þjónusta metur og sannprófar að rétt hafi verið farið að ferlum til að komast að kolefnisspori, í samræmi við þekktan ISO staðal.
Önnur dæmi eru störf tengd hringrásarhagkerfinu og visthönnun. Heimsmarkmið 12 kallar á ábyrga neyslu og framleiðslu. Aðferðir hringrásarhagkerfisins við að draga úr og eyða úrgangi með skynsamlegri hönnun, ásamt því að halda vörum og efnum í notkun eins lengi og mögulegt er, stuðla að því að ná þessu markmiði.
IEC veitir leiðbeiningar og ráðgjöf um atriði eins og rafúrgang, úreldingu og endurvinnanleika vara, visthönnun vara, áreiðanleika vara sem innihalda notaða varahluti og tryggingu afkasta og öryggis endurnýjaðs læknisfræðilegs myndgreiningarbúnaðar. Annar staðall setur kröfur og veitir leiðbeiningar um framkvæmd vistvænnar hönnunar, bæði fyrir vörur og þjónustu.
IEC Global Impact Fund veitir styrki til verkefna sem takast á við sértækar áskoranir í umhverfis-, félags- og stjórnunarmálum með því að nota alþjóðlega staðla og samræmismat IEC. Fyrsta verkefnið er að virkja sérfræðiþekkingu IEC til að bæta líf fólks í dreifbýli Kenía með því að breyta rafúrgangi í rafrænar auðlindir.
Staðlaráð Íslands er aðili að IEC staðlasamtökunum og tengiliður Íslands á þessum vettvangi.