Náttúran er lausnin við loftslagsvandanum

Það verður ekki hægt að komast hjá loftslagsbreytingum, það eitt er alveg víst. Áhrifa þeirra gætir nú þegar víða um heim á margvíslegan hátt, allt frá aftakaveðrum til ógna við vatns- og matvælaöryggi. Þótt sumar breytingar megi rekja til náttúrulegra fyrirbæra (eldgosa, geislunar sólar, jarðskorpuhreyfinga o.s.frv.) er það að mestu mannanna verk um að kenna að náttúruhamfarir verða tíðari og alvarlegri. En slæm veðurskilyrði verða ekki bara tíðari heldur verður einnig mun erfiðara að spá fyrir um þau.

Breytt loftslag getur, beint eða óbeint, haft áhrif á marga þætti samfélagsins með mögulega mjög truflandi hætti. Flóð og þurrkar skaða landbúnað okkar, hækkandi sjávarstaða rýrir strandlengjur okkar og ofsaveður eyðileggja heimili okkar og samfélög. Í stuttu máli eru loftslagsbreytingar að trufla öll svið mannlífsins, þar á meðal nauðsynlega þjónustu eins og samgöngur, fjarskipti, orku og vatnsveitur. Með tímanum búast vísindamenn við auknum sjúkdómsfaröldrum, manntjóni og fólksflótta, sérstaklega á meðal viðkvæmustu samfélaga heims.

Til að snúa ferlinu við þarf að grípa til skjótra og afgerandi aðgerða. Náttúrumiðaðar lausnir eru mikilvægur hluti af púslinu, bæði til að geyma kolefni og byggja upp loftslagsþol. Það að nýta náttúruauðlindir til að takast á við umhverfis- og loftslagsvandamál hefur gríðarlega möguleika til að draga úr neikvæðum áhrifum og um leið varðveita jörðina og fólkið á henni. Skoðum nánar hvernig náttúran getur hjálpað okkur að takast á við loftslagskreppuna.

Hvaða lausnir eru til við loftslagsbreytingum?

Kjarninn í lausnum við loftslagsbreytingum er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er hægt að gera á tvo vegu: Við getum hætt að bæta þeim út í andrúmsloftið og við getum stutt við getu jarðarinnar til að fjarlægja þær úr andrúmsloftinu. Þetta kallast að draga úr loftslagsbreytingum og markmiðið með því er að draga úr losuninni þannig að jörðin ráði við hana án þess að hlýna enn frekar.

Þótt þessar aðgerðir séu nauðsynlegar eru þær ekki nægjanlegar. Jafnvel þótt við hefðum náð jafnvægi í losun gróðurhúsalofttegunda í dag spá vísindamenn því að hlýnun jarðar yrði áfram langt yfir 2°C, sem það var fyrir iðnvæðingu. Að sjá fyrir og stjórna neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga er nauðsynlegt til að takast á við þau áhrif sem eru þegar að eiga sér stað og sem enn er búist við að muni eiga sér stað á næstu áratugum. Þetta er kallað aðlögun að loftslagsbreytingum og felur í sér allar þær leiðir sem við getum farið til að breytast eða aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga svo við getum haldið okkur nærðum, heilbrigðum og öruggum.

Náttúrumiðaðar lausnir við loftslagsvánni

Til að loftslagsaðgerðir verði sjálfbærar þurfa heilbrigðar loftslagslausnir að nýta kraft náttúrunnar. Náttúrumiðaðar loftslagslausnir, ásamt því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, bjóða upp á tafarlausar og hagkvæmar leiðir til að takast á við loftslagskreppuna og styðja við blómleg vistkerfi og þrautseig samfélög.

Náttúrumiðaðar lausnir við loftslagsbreytingum eru samansafn aðferða sem geta bæði dregið úr og eytt losun gróðurhúsalofttegunda. Það gera þær með því að auka getu vistkerfa til að taka við koltvísýringi eða með því að endurheimta skemmd búsvæði svo þau losi ekki lengur skaðlegar gróðurhúsalofttegundir. Með því að virkja getu náttúrunnar til að jafna vistkerfi sín hjálpa náttúrumiðaðar loftslagslausnir til við að vernda, stjórna betur og endurheimta umhverfið og tryggja að það geti áfram veitt nauðsynlega þjónustu við vistkerfi.

Þrjár aðgerðir til að vernda jörðina gegn loftslagsbreytingum

Vernda, stjórna, endurheimta – það er grunnformúlan. Aðgerðir til að endurnýja land og vistkerfi gegna mikilvægu hlutverki í að fjarlægja aukið kolefni úr andrúmsloftinu og bæta heilbrigði jarðvegs, vatnsgæði og líffræðilega fjölbreytni. Einnig getur það hjálpað til við að afstýra verstu áhrifum loftslagsbreytinga.

  • Verndun: Heilbrigð vistkerfi geta verið náttúruleg vörn gegn óvenjulegum atburðum eins og skógareldum, flóðum og þurrkum. Dæmi um slíkt eru rif og eyjar sem hlífa strandlengjum fyrir óveðri, votlendisvistkerfi sem taka við flóðvatni og „stýrðir“ eldar sem hreinsar umfram skógarleifar og minnkar hættuna á eyðileggjandi skógareldum.
  • Stjórnun: Með því að beita náttúrulegum lausnum á árangursríkan hátt er hægt að stuðla að því að draga úr loftslagsbreytingum. Með því að bæta stjórnun skóga er t.d. hægt að halda jarðveginum í góðu ástandi svo hann geti áfram virkað sem skilvirkur kolefnisgeymir. Á sama hátt stuðlar aðlögun búskaparhátta að breyttum loftslagsskilyrðum, t.d. með því að rækta meiri hita-/þurrkþolnar nytjaplöntur, til að styðja við fæðuþol.
  • Endurheimt: Endurheimt búsvæða í hnignun með því að færa vistfræðilega fjölbreytni inn í landslag styrkir getu náttúrunnar til að takast á við loftslagsbreytingar og leiðir til aukins stöðugleika vistkerfa. Við þurfum að helga meira land náttúrunni. Til dæmis mun gróðursetning trjáa í borgum, endurheimt skóglendis og endurheimt náttúrulegs rennslis í strandvotlendi og mólendi stuðla að aukinni kolefnisbindingu.

Náttúruleg vistkerfi draga úr losun með því að taka við og geyma mikið magn gróðurhúsalofttegunda þegar þau eru varðveitt, endurheimt og stjórnað á skynsamlegan hátt. Auk þess að fjarlægja losun úr andrúmsloftinu hafa þessar heilsusamlegu loftslagslausnir í för með sér margvíslegan ávinning: hreinna loft og vatn, stjórnun á flóðum og jarðvegseyðingu, aukna líffræðilega fjölbreytni og getu til að aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga.

Náttúrumiðaðar lausnir í verki

Á meðan við erum mörg hver enn að tala um mögulegar lausnir á loftslagsbreytingum eru þúsundir manna nú þegar að vinna að aðgerðum. Mörg verkefni sem unnin hafa verið á undanförnum árum gefa vonir um bjarta framtíð í loftslagsmálum. Þessi verkefni ná yfir alla þrjá þætti náttúrulegra lausna á loftslagsmálum, verndun, stjórnun og endurheimt, og miða að því að endurlífga vistkerfi sem áður voru í hættu vegna ofnýtingar, landbreytinga og mengunar.

Einn þeirra sem hefur verið hvað mest áberandi er „Græni múrinn mikli“ sem er framtak í Afríku og miðar að því að rækta 8 000 km mósaík af trjám, graslendi og gróðri á allri breidd álfunnar og umbreyta lífi milljóna manna sem búa við loftslagsbreytingar. Markmið þess er að endurheimta 100 milljónir hektara af hnignuðu landi, binda 250 milljónir tonna af kolefni og skapa 10 milljónir grænna starfa í dreifbýlinu á Sahel-svæðinu fyrir árið 2030.

Hvernig styðja ISO staðlar við lausnir í loftslagsmálum?

ISO leggur ríka áherslu á að styðja við verndun loftslags. Alþjóðlegir staðlar gegna lykilhlutverki í að stuðla að aukinni notkun náttúrumiðaðra lausna á loftslagsbreytingum í þéttbýli og dreifbýli. Það gera þeir með því að veita lykilaðilum tæki til að ná fram árangursríkum grænum umskiptum og styðja við stefnumótun stjórnvalda um sjálfbærara og kolefnishlutlaust hagkerfi.

Í þessu samhengi hefur ISO þróað umhverfisstaðla víða um heim. Þar má nefna ISO 14000 staðla um umhverfisstjórnunarkerfi, sem lýsa hagnýtum tækjum fyrir fyrirtæki til að stjórna áhrifum starfsemi sinnar á umhverfið. Dæmi um slíka staðla eru staðlar um „jákvæða“ sjálfbæran landbúnað, skógrækt, líffræðilega fjölbreytni og aðrar náttúrutengdar lausnir.

Að flýta fyrir umskiptum

Náttúrumiðaðar lausnir eru óðum að verða meginþáttur í stefnumótun sveitarfélaga í umhverfis- og loftslagsmálum. Loftslagslausnir sem eru innblásnar og studdar af náttúrunni bjóða upp á heildræna og hagkvæma leið til að vernda, stjórna og endurheimta umhverfið og skila um leið áþreifanlegum ávinningi fyrir samfélagið. Náttúrutengdar lausnir geta skapað tekjur fyrir sveitarfélög og komið sveitarfélögum sem reiða sig á þessar auðlindir til góða fyrir heilsu og velferð íbúa sinna.

Til að ná fram náttúrumiðuðum loftslagslausnum í stórum stíl þarf samstillt átak og hjálp frá ISO-stöðlum. Loftslagsbreytingar eru mikil og vaxandi ógn á heimsvísu við náttúruna, líffræðilega fjölbreytni og fólk. En náttúran býður einnig upp á lykillausnir ef alþjóðasamfélagið tekur skref til að vernda, endurheimta og stjórna betur náttúruauðlindum sínum. Allar lausnir til að ná tökum á loftslagsbreytingum eru í hendi, það sem við þurfum núna er sameiginlegt átak til að framkvæma þær á árangursríkan hátt.

Menu
Top