Væntanlegur stjórnunarkerfisstaðall fyrir heimsmarkmiðin

Áskoranir í sjálfbærni- og umhverfismálum eru af ýmsum toga. Hér á landi,eins og annarsstaðar í heiminum hafa stjórnvöld og atvinnulíf sett sér háleit markmið þegar kemur að því að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það getur á hinn bóginn reynst afar flókið verkefni að uppfylla allt regluverk, en fjölmörg verkefni er nauðsynlegt að vinna til að tryggja framtíðarkynslóðum lífvænlega plánetu. Afar mikilvægt er því fyrir skipulagsheildir að hafa góðar leiðbeiningar og viðmið um hvernig best sé að nálgast þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Í þessu ljósi er vert að minnast á nýjan staðal sem er í bígerð og nefnist ISO/WDS 53001 sem verður stjórnunarkerfisstaðall fyrir sjálfbærni og ESG (Environment, social and governance) og styður við heimsmarkmiðin.

Staðallinn getur orðið mikilvægt verkfæri í kistu stjórnenda og fjárfesta sem stefna að því að aðlagast nútímalegum starfsháttum sem styðja við heimsmarkmiðin. Í staðlinum er lögð áhersla á að skilgreina, mæla, bæta og skýra frá stöðu og árangri skipulagsheilda með tilliti til sjálfbærni og ESG aðgerða.

Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á sviði umhverfis- og samfélagsmála knýja á um sterk stjórnkerfi sem stuðla að sjálfbærni og hagkvæmum áhrifum á umhverfi og samfélag. Notkun þessa nýi ISO staðals mun tryggja framgang á þessu sviði.

Með því að koma sér upp stjórnkerfi sem byggir á ISO/WDS 53001 geta skipulagsheildir náð fram meiri skilvirkni, haft minni umhverfisáhrif og aukið samfélagsábyrgð sína. Staðallinn mun veita kröfur og leiðsögn um hvernig sjálfbærni- og ESG markmið eru skilgreind og þeim fylgt til að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Einn af lykilþáttum staðalsins eru kröfur um mælanleg og árangursmiðuð markmið. Þær einar og sér geta leitt af sér meiri áhuga og ábyrgð starfsfólks á málaflokknum ásamt því að bæta orðspor.

Það er staðföst trú þeirra sem standa að gerð staðalsins að hann muni stuðla að miklum framförum á þessu sviði ásamt því að einfalda og skýra kerfi sem hefur þótt ruglingslegt og flókið. Þessi staðall verður því mikilvægt verkfæri fyrir þá sem leita eftir að leiða stofnanir sínar á nýjar slóðir sem styðja við sjálfbærni og heimsmarkmiðin.


Menu
Top