Staðlar virkja ábyrga gervigreind á heimsvísu

Gervigreind tekur sífellt meira pláss í lífi okkar en þó eru sérfræðingar sammála um að við séum aðeins byrjuð að klóra í spóninn hvað varðar nýsköpunarmátt hennar. Heilbrigðisþjónusta, landbúnaður og smásöluverslun eru aðeins nokkrar atvinnugreinar sem njóta góðs af gervigreind og notkun hennar og getan fer ört vaxandi.

Það er því ekki að undra að stjórnvöld um allan heim séu að ræða og innleiða reglur og reglugerðir til að tryggja öryggi hennar. Ábyrg þróun og útbreiðsla gervigreindar gerir okkur kleift að uppskera ávinninginn en lágmarka áhættuna.

ISO/IEC 42001 var útgefin árið 2023 en staðlinum er ætlað að hjálpa fyrirtækjum að þróa, bjóða eða nota gervigreind á ábyrgan hátt með því að veita leiðbeiningar um uppsetningu, innleiðingu, viðhald og stöðugar umbætur á stjórnunarkerfi fyrir gervigreind. Þar sem staðallinn er stjórnunarkerfisstaðall er hægt að votta hann og veita þannig stjórnvöldum og hagsmunaaðilum fullvissu um að kröfurnar hafi verið innleiddar á réttan hátt.

Nýi staðallinn er einn af mörgum stöðlum sem tækninefndin SC 42 hefur þróað til að gera vottun og gæðaeftirlit mögulegt.

Staðallinn var þróaður af alþjóðlegum sérfræðingum úr atvinnulífinu, frá stjórnvöldum, háskólum og úr stöðlunargeira og nú þegar eru áhrif hans að koma fram í mörgum mismunandi löndum.

Í Ástralíu er vinna tækninefndar SC 42 við gervigreind mikils metin, að sögn Aurelie Jacquet, fulltrúa SC 42 frá Ástralíu.

„Innan SC42 erum við að þróa yfir 40 staðla um gervigreind sem ná yfir gögn, líkön og einnig stjórnunarhætti skipulagsheilda svo þetta er mjög spennandi vinna. Og í Ástralíu erum við þegar farin að nota þessa vinnu. Ríkisstjórnin vísar nú þegar í ISO/IEC staðlana okkar í leiðbeiningum um notkun gervigreindar sem hún gaf út í júlí 2023,“ er haft eftir Aurelie.

Sérstök "Gervigreindarmiðstöð í Ástralíu" hefur búið til svokallað „Responsible AI Network“ sem byggir á 6 stoðum og ein af þessum stoðum eru staðlar, bætti hún við, en Standards Australia er aðili að því.

Japönsk fyrirtæki geta einnig haft mikinn ávinning af SC 42 stöðlunum um gervigreind þar sem þeir munu veita þeim sameiginlegan skilning sem auðveldar framfarir, sagði Dr. Ryoichi Sugimura, yfirmaður spegilnefndar Japans um SC 42.

„Þessi grunnviðmið gera japanska iðnaðinum kleift að halda hraðar og á skilvirkari hátt áfram,“ sagði hann.

IEC ræddi við aðila að SC 42 á nýlegum allsherjarfundi í fjölmörgum löndum til að heyra hvernig SC 42 staðlar um gervigreind geta hjálpað.

Þar á meðal eru Ástralía, Þýskaland, Indland, Japan, Kórea, Tyrkland, Bretland og Bandaríkin.

Nánari upplýsingar um SC 42 fást hjá Wael William Diab formanni.

Fréttin er þýdd af vef IEC

Menu
Top