Í gær, 5. mars 2024, kvað Evrópudómstóllinn upp dóm sinn í máli C-588/21 P varðandi aðgang almennings að fjórum samhæfðum stöðlum samkvæmt reglugerð 1049/2001.
Dómurinn dregur ekki í efa að samhæfðir staðlar séu háðir höfundaréttarvernd.
ECJ telur brýna almannahagsmuni felast í birtingu samhæfðra staðla samkvæmt reglugerð 1049/2001 og ógildir því ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að synja um aðgang að umbeðnum fjórum stöðlum.
CEN og CENELEC, sem eru tvær opinberar evrópskar staðlastofnanir (ESO), og aðilar að þeim, þ.e. staðlasamtök í 34 Evrópulöndum, fagna því að dómstóllinn viðurkennir ekki kröfur umsækjenda og aðallögmanns (e. Advocate General), sem höfðu lagt til að höfundaréttur væri ekki til staðar á samhæfðum stöðlum almennt. Dómurinn dregur heldur ekki í efa að aðgangur að skjölum samkvæmt reglugerð 1049/2001 sé með fyrirvara um gildandi reglur um höfundarétt sem takmarka rétt þriðja aðila til að afrita eða nota útgefin skjöl.
Árangur evrópskrar staðlagerðar byggir á sérfræðiþekkingu og frjálsum framlögum frá hagsmunaaðilum með ólíkan bakgrunn, svo sem viðskiptalífinu, stjórnvöldum, neytendum, stéttarfélögum, háskólum og rannsóknastofum.
Þetta kerfi, sem viðhaft hefur verið um áratuga skeið á Íslandi og mun lengur í Evrópu, tryggir að auðvelt sé að innleiða staðla, þeir eru stöðugt aðlagaðir að nýjustu tækni og eru að mestu leyti eins og alþjóðlegir staðlar. Sem slíkir veita þeir evrópskum fyrirtækjum nákvæma lausn á því hvernig þau geta nálgast innri og alþjóðlegan markað, tryggt samræmi við evrópska löggjöf og aukið samkeppnishæfni sína.
Á grundvelli þessarar niðurstöðu mun allt CEN og CENELEC samfélagið halda áfram að vinna náið með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og öllum viðeigandi hagsmunaaðilum sem koma að evrópskri stöðlun til að gera kerfið okkar hæft til framtíðar, innri markaðnum, fyrirtækjum og borgurum Evrópu til hagsbóta.
Evrópudómstóllinn hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að samhæfðir staðlar eru hluti löggjafarinnar sem myndar neytendavernd og öryggi almennings.