Nettólosun núll - Mikilvægt skref í átt að sjálfbærri framtíð

Nettólosun núll er mikilvæg leið í baráttunni við loftslagsvána. Umbreytingin fyrir nettólosun núll er lausn sem býður ekki einungis upp á umhverfislegan ávinning heldur einnig efnahagslegan, félagslegan og heilsufarslegan ávinning. Ef ekki verður brugðist skjótt við og af festu er hætta á að loftslagsbreytingar verði stórfelldar. Má þá nefna fjölgun á aftaka veðuratburðum, hækkun sjávarborðs, tap á líffræðilegri fjölbreytni og röskun á fæðu- og vatnsöflun.

Helstu ástæður fyrir því að nauðsynlegt er fyrir velferð okkar allra að taka upp nettólosun núll:

  • Að takast á við loftslagsvandann
  • Vernda heilsu fólks
  • Nýsköpun og hagvöxtur í brennidepli
  • Efling raforkuöryggis
  • Verndun vistkerfa og líffræðilegs fjölbreytileika

Hvað er nettólosun núll?

Ýmsar skilgreiningar er að finna um þetta hugtak en nýlega gaf ISO út leiðbeiningar (e. ISO Net Zero Guidelines) (IWA 42: 2022) en þar er hugtakið skilgreint sem „ástand þar sem losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum er jafnað með því að fjarlægja þær á tilteknu tímabili og innan tiltekinna marka“. Að ná þessu jafnvægi er flókið ferli sem felur í sér samdrátt í losun, jöfnun og nýja tækni.

Hægt er að umbreyta yfir í nettólosun núll með samdrætti í losun við upptök hennar og síðan er eftirstandandi losun jöfnuð út með mótvægisaðgerðum eins og kolefnisföngun. Það sem felst í samdrætti í losun er að draga beint úr losun allra gróðurhúsalofttegunda (koltvísýringur (CO2) og annarra gróðurhúsalofttegunda, þar á meðal metan (CH4), nituroxíðs (N2O) og vetnisflúorskolefna sem hafa tilhneigingu til að geyma meiri varma en koltvísýringur). Kolefnisföngun felur í sér að fjárfesta í svokölluðum kolefnisgeymi (e. carbon sinks) en dæmi um slíkt er skógrækt, votlendi, kolefnisföngun og förgun ásamt ýmsum öðrum aðgerðum sem draga kolefni úr andrúmsloftinu og geyma það varanlega. Kolefnisjöfnun er sú aðgerð að draga úr losun koltvísýrings eins og frekast er kostur og jafna eftirstöðvar með kaupum á vottuðum kolefniseiningum sem eru framleiddar af óháðum aðila annaðhvort með bindingu kolefnis eða stöðvun kolefnislosunar til að hlutleysa eftirstöðvar losunar.

Kolefnishlutleysi eða nettólosun núll - Hvað felst í því fyrir atvinnulífið?

Er nettólosun núll það sama og kolefnishlutleysi? Þegar fyrirtæki segjast vera kolefnishlutlaus er átt við að þau hafi metið kolefnisspor sitt, gert ráðstafanir til að minnka það með samdrætti í losun, fjarlægt kolefni úr andrúmsloftinu og að endingu jafnað út það sem eftir stendur. Þegar fyrirtæki tala um nettólosun núll er átt við takmark þeirra í framtíðinni að draga úr losun eins og unnt er, en á sama tíma að auka aðgerðir við að fjarlæga koltvísýring úr andrúmsloftinu og að endingu kaup á vottuðum kolefniseiningum frá óháðu kolefnisverkefni.

Aðgerðir til að ná markmiðum um nettólosun núll samanstanda af metnaðarfullri minnkun á losun í virðiskeðjunni, kerfisbreytingum þvert á atvinnugreinar og virkum mótvægisaðgerðum eins og bindingu kolefnis. Fyrirtæki geta orðið kolefnishlutlaus á vegferð sinni að nettólosun núll sem stuðlar einnig að víðtækari hnattrænum aðgerðum til að uppfylla markmiðin um nettólosun núll.

Með því að setja markmiðið um nettólosun núll og að verða kolefnishlutlaus í dag, getum við hraðað umskiptum yfir í sjálfbæra framtíð, tryggt loftslagsþol og skapað tækifæri fyrir nýsköpun, græn störf og efnahagslega velmegun.

Af hverju þurfum við þennan núllpunkt?

Manngerð losun er að taka sinn toll á jörðina og ýtir okkur enn frekar í átt að óafturkræfri loftslagskreppu. Umbreytandi markmið um nettólosun núll, sérstaklega þegar stjórnvöld víðsvegar um heim eru leiðandi, geta stuðlað að því að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráður fyrir árið 2100. Til þess að það takist, þarf að ná takmarkinu um nettólosun núll fyrir árið 2050 á allri losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er ekki bara umhverfisleg nauðsyn að ná fram kolefnislosun sem er á núlli, það felur einnig í sér umtalsverð tækifæri fyrir fyrirtæki af öllum stærðum. Þar má nefna sparnað vegna orkunýtingar, bætt orðspor vörumerkis og samræmingu við auknar kröfur neytenda og fjárfesta um sjálfbæra starfshætti.

Hvernig hagnast fyrirtæki á nettólosun núll

Mörg fyrirtæki eru að taka upp markmið um nettólosun núll og stefna að því að losun gróðurhúsalofttegunda verði engin í rekstri sínum. Þetta felur í sér sambland af beinni losunarskerðingu, til dæmis með orkunýtni, notkun endurnýjanlegrar orku og óbeinni skerðingu með kolefnisverkefnum. Með því að öðlast skilning á nettólosun núll og beita því á rekstur sinn geta fyrirtæki gegnt veigamiklu hlutverki í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og það er einnig gott fyrir hagnað þeirra.

Byggingar sem falla undir skilgreininguna um nettólosun núll eru dæmi um hvernig fyrirtæki geta unnið að þessum markmiðum. Leiðandi fyrirtæki draga úr losun á öllum vistferli bygginga sem þau eiga og reka. Það er hægt að gera með tvennum hætti: Með því að endurnýja núverandi mannvirki og tryggja að ný mannvirki hafi lítið kolefnisspor. Slíkar byggingar eru hannaðar til að framleiða jafn mikla orku og þær nota yfir árið og ná þannig fram nettó núll orkunotkun og í mörgum tilfellum nettólosun núll kolefnis.

Á hinu stafræna sviði er einnig að ryðja sér til rúms hugtakið „net-zero internet“. Með því er átt við að ná fram kolefnishlutleysi eða nettólosun núll í rekstri og notkun internetsins og stafrænnar tækni. Markmiðið er að draga úr umhverfisáhrifum sem tengjast hinum ört vaxandi stafrænu innviðum, gagnaverum, fjarskiptanetum og heildarorkunotkun internetsins.

ISO leiðbeiningar um nettólosun núll

ISO setti fram leiðbeinandi reglur um nettólosun núll á COP27 ráðstefnunni í Sharm-El Sheikh í Egyptalandi í nóvember 2022. Reglurnar veita skipulagsheildum vegvísi á vegferð þeirra í átt að nettólosun núll. Leiðbeiningarnar um nettólosun núll veita sameiginlegar skilgreiningar og aðgerðahæfar leiðbeiningar í átt að nettólosun núll fyrir árið 2050. Þær hjálpa einnig fyrirtækjum að setja fram trúverðugar fullyrðingar og þróa samræmdar skýrslur um losun, minnkun og fjarlægingu.

Lykilþættir eru meðal annars:

  1. Samdráttur í losun: Samdráttur í losun við upptök hennar er árangursríkasta leiðin að nettólosun núll. Dæmi um aðgerðir til að draga úr losun er að bæta orkunýtni, kaupa endurnýjanlega orku og vörur sem hafa lítið kolefnisspor og sinna nýsköpun varðandi úrgang og flokkun hans.
  2. Kolefnisjöfnun: Kolefnisjöfnun er góð leið fyrir losun sem ekki er unnt að koma í veg fyrir. Það felur í sér að fjárfesta í kolefnisverkefnum sem fjarlæga eða draga úr losun gróðurhúsalofttegunda úr andrúmsloftinu.
  3. Gagnsæi og ábyrgð: Regluleg vöktun og skýrslugjöf um losun gróðurhúsalofttegunda skiptir sköpum fyrir gagnsæi og ábyrgð. Þetta hjálpar fyrirtækjum að greina svið til úrbóta og fylgjast með framvindu í átt að markmiðum um nettólosun núll.
  4. Þátttaka hagsmunaaðila: Að virkja hagsmunaaðila, s.s. starfsmenn, viðskiptavini, fjárfesta og samfélagið í heild, er lykillinn að árangursríkri innleiðingu að nettólosun núll. Þetta ýtir undir sjálfbærnimenningu og knýr á um sameiginlegar aðgerðir til að draga úr losun.
  5. Jafnrétti og réttlæti: Leiðbeiningar um nettólosun núll samræmast markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Aðgerðir í loftslagsmálum taka mið af byrði loftslagsbreytinga og tryggja að kostnaði og tækfærum sé deilt á sanngjarnan hátt og standa vörð um réttindi þeirra sem verst eru settir.

Af hverju ISO staðlar fyrir loftslagsbreytingar?

Leiðbeiningarnar um nettólosun núll hjálpa til við að skýra og benda á aðra staðla sem styðja magngreiningu og sannprófun á gróðurhúsalofttegundum. Leiðbeiningarnar eru gagnleg viðbót við ISO 14000 umhverfisstaðlaröðina. Auk þess eru þær til viðmiðunar fyrir fyrirtæki til að setja sér markmið um nettólosun núll með því að hjálpa til við að samræma það sem þar er að finna. Leiðbeiningarnar gera einnig kleift að samræma nálgun við þróun framtíðarverkefna og afhendingarmöguleika, þar með talið staðla.

ISO 14090:2019 Aðlögun að loftslagsbreytingum

ISO 14064-1:2018 Gróðurhúsalofttegundir

ISO 14068-1: 2023 Stjórnun loftslagsbreytinga

Fyrir loftslagið og framtíðina

Það er óumdeilanlegt að við þurfum að færa okkur yfir í nettólosun núll. Það er ómetanlegt tækifæri til að standa vörð um jörðina, vernda heilsu manna, knýja áfram efnahagslega velmegun og tryggja komandi kynslóðum sjálfbæra framtíð. Við verðum að taka þátt í þessu brýna verkefni og taka djarfar og afgerandi ákvarðanir um að færa okkur yfir í nettólosun núll.
Með því að taka upp leiðbeiningar ISO um nettólosun núll uppfyllum við siðferðilegar skyldur okkar og setjum markmið fyrir heim sem er hreinni, heilbrigðari og þrautseigari. Tökum þetta augnablik og sameinumst um að byggja upp sjálfbæra framtíð fyrir alla.

Menu
Top