Gæði og samfélagsábyrgð hjá Vínbúðinni

Forysta á sviði samfélagsábyrgðar hefur verið leiðarstef Vínbúðarinnar síðan fyrir síðustu aldamót og metnaðarfull og yfirgripsmikil stefna var strax sett til að vera fyrirmynd annarra og hefur metnaðurinn ekki síst legið á sviði umhverfis- og samfélagsmála. Vinna Vínbúðarinnar hefur því vakið athygli víða og margir sem fylgja góðu fordæmi þeirra. Sá árangur verður ekki til af sjálfu sér.

Sigurpáll Ingibergsson er gæðastjóri Vínbúðarinnar. Hann hefur tekist á við áskoranirnar sem mæta metnaðarfullum fyrirtækjum, meðal annars með staðla að vopni.

Hverjar voru áskoranirnar?

„Með öfluga stefnu um ríka samfélagsábyrgð og áform um að lágmarka skaðsemi sem hlotist getur af starfseminni er aðallega unnið eftir þremur stöðlum; ÍST EN ISO 9001- Gæðastjórnun, ÍST EN ISO 26000 – Samfélagsábyrgð og GRI (e. Global Reporting Initiative). Þannig náum við utan um samfélagslega þætti, árangursstjórnun og mælingar á gæðum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á umhverfismál og var heilmikil áskorun á sínum tíma að koma á kerfi sem tekur á sóun umbúða.“

Sigurpáll segir Höskuld Jónsson, fyrrverandi forstjóra ÁTVR hafa tekið fyrstu skrefin á þessari vegferð enda hafi hann verið mikill náttúru- og umhverfissinni. Höskuldur hafa m.a. stuðlað að því að komið var á skilagjaldskerfi á notuðum umbúðum hér á landi , löngu áður en sú hugmyndafræði varð jafn þekkt og nú er. Sigurpáll segir umhverfismál því samofin sögu Vínbúðarinnar.

Loftslagsmálin hafa svo verið talsverð áskorun en Vínbúðin hefur hannað og innleitt kerfi fyrir mælingar á losun og fylgst er grannt með þróun mála í grænu bókhaldi. Umbúðir um vöruna eru einn stærsti einstaki losunarvaldurinn hjá Vínbúðinni og mikið hefur verið unnið í að hvetja framleiðendum og neytendum á vistvænni lausnir.

Vínbúðin er í góðu samstarfi við áfengiseinkasölur á Norðurlöndunum sem vinna skv. sameiginlegri stefnu að því ná meiri og betri árangri á sviði umhverfismála.

Til að fanga umfangið sýnir þessi mynd hvernig áherslur um gæðastjórnun og samfélagsábyrgð eru útfærðar hjá Vínbúðinni.

Staðlar til að veita framúrskarandi þjónustu

Sigurpáll segir staðla vera máttarstólpa í rekstrinum og þeir auðveldi stjórnendum að ná meiri og betri árangri. Staðlar tryggi að stjórnendur hafi trausta mælikvarða og góðar mælingar sem verða öflug stjórntæki í rekstrinum. Hugmyndafræðin sem stjórnunarkerfisstaðlar byggja á eru einnig frábær stjórntæki en þar er unnið með tiltekið ferli sem hefst á skipulagningu, framkvæmd, gátun og umbótum en með því að endurtaka stöðugt þetta ferli tryggja stjórnendur stöðugar umbætur í rekstrinum.

Hver er ávinningurinn?

Árangursrík vegferð er ekki síst staðlanotkun að þakka auk framsýnna stjórnenda sem leika þar lykilhlutverk, segir Sigurpáll og bætir við að Vínbúðin, í samstarfi við áfengiseinkasölur á Norðurlöndunum hafi sett sér það markmið 2022 að draga úr kolefnislosun um 50% fram til ársins 2030. Þá er einnig stefnt að því að meirihluti vörusafnsins verði með vottun frá þriðja aðila á þeim tíma. Þannig styðjum við best við líffræðilegan fjölbreytileika. Nú þegar hafi 34 vottanir verið viðurkenndar hjá Vínbúðinni sem telur 11% af vörunúmerum og 3,1% miðað við magn. Vínbúðin notar hagnýta viðmiðunargreiningu til að meta einstakar vottanir en með því fæst minni áhætta, betri upplýsingar fyrir viðskiptavini og umhverfisvænni innkaup. Svo er vottun farin að nálgast meira og meira sjálfbærni, mannréttindi og rekstur fyrirtækja því allt tengist þetta saman og staðlarnir eru mjög hagnýt verkfæri til slíkra tenginga.

Smella HÉR fyrir betri upplausn

Hér má sjá yfirlit yfir stöðu mála þegar kemur að vottunum. Dökk græni liturinn táknar að krafa er fullkomlega uppfyllt, milli græni táknar að krafa er að mestu uppfyllt, ljósgræni liturinn táknar að tæpt er á málum og hvíti liturinn táknar að ekkert er fjallað um kröfuna við tiltekna vottun. Flokkarnir fjórir efst á myndinni tákna ræktunarhlutann (grænn), drykkjarframleiðslu (blátt), samfélagshlutann (appelsínugult) og stjórnarhætti og gæði (gult). Hinn áberandi dökkgræni blær myndarinnar gefur vísbendingar um góða frammistöðu.

Undir vottuðum vörum eru fjórir flokkar; lífræn vottun, bíódínamísk vottun, sanngjörn framleiðsla og sjálfbær vottun en mikil aukning hefur sést í síðast talda flokknum. Það er mikil gerjun í lífrænni ræktun og ræktunaraðferð sem kölluð er „regenerative agriculture“ er að taka við af hugtakinu „organic“.

Staðlaráð þakkar Sigurpáli Ingibergssyni fyrir góðar mótttökur og gott yfirlit yfir það hvernig staðlar auðvelda Vínbúðinni að ná metnaðarfullum markmiðum sem ekki síst koma neytendum til góða.

Menu
Top