Það er óraunverulegt að fylgjast með Grindvíkingum um þessar mundir þar sem þeir yfirgefa heimili sín, kannski í síðasta sinn vegna ógnarinnar sem vofir yfir vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Margir komu að húsum sínum krosssprungnum í gær og innviðir eru verulega laskaðir eða ónýtir. Þau eru því þung sporin sem margir eiga fyrir höndum í óvissu sem enginn veit hvar eða hvernig endar. Jörðin er enn á hreyfingu og sigdalurinn sem nú gengur þvert niður í gegnum bæinn gæti enn breyst og valdið frekara tjóni.
Grindavík hefur fengið sinn skerf af jarðskjálftum á undanförnum árum í sögulegum jarðhræringum þar sem aftur og aftur, árum saman, allt hefur leikið á reiðiskjálfi. Þar til nú hafa mannvirki að mestu staðið af sér skjálftana, þökk sé miklum kröfum sem gerðar eru til þolhönnunar íslenskra mannvirkja í viðeigandi löggjöf. Í henni má finna 58 þolhönnunarstaðla (s.k. Eurocodes) sem innleiddir hafa verið frá Evrópu en við þá hafa verið skrifaðir íslenskir þjóðarviðaukar sem herða á grunnkröfum sem gera þarf hér á landi vegna ógnarkrafta náttúruaflanna. Er þá ekki bara átt við jarðskjálfta heldur einnig snjóa, vind o.fl. Saman mynda staðlarnir og viðaukarnir svo kröfur sem byggja á bestu fáanlegu þekkingu og rannsóknum hér á landi. En staðlarnir þurfa alltaf að endurspegla bestu þekkingu og byggja á nýjustu rannsóknum. Þess vegna eru þeir endurskoðaðir reglulega.
Ísland innleiddi árið 2005, tilmæli framkvæmdastjórnar ESB um að þolhönnunarstaðlarnir yrðu hluti af íslensku regluverki. Þar segir að aðildarríkin skuli mæla fyrir um „færibreyturnar sem nothæfar eru á þeirra landsvæði...“ Með öðrum orðum, hvert ríki tekur upp grunnviðmið, sameiginleg fyrir alla Evrópu en setur svo viðbótarkröfur sem hæfa aðstæðum á hverjum stað.
Stöðlun er alla jafna samvinnuverkefni allra hagaðila. Þegar um er að ræða staðla sem vísað er til með bindandi hætti í löggjöf hafa stjórnvöld tekið virkan þátt í staðlagerðinni og fjármagnað a.m.k. að einhverju leyti. Þegar íslensku þjóðarviðaukarnir voru upphaflega skrifaðir 2010 hafði umhverfisráðuneytið, sem þá fór með ábyrgð á mannvirkjamálum, frumkvæði að því að óska þess við Staðlaráð að kalla saman bestu sérfræðinga til að þolhönnun mannvirkja mætti byggja á bestu þekkingu og nýjustu rannsóknum. Um það snýst staðlavinna alla jafna. Ráðuneytið greiddi þá fyrir verkefnastjórn en aðrir hagaðilar lögðu til sérfræðiþekkingu og vinnu.
Þegar endurskoðun þolhönnnunarstaðlanna hófst í Evrópu 2019 lá frumkvæðið hér á landi hins vegar hjá sérfræðingum og einkaaðilum, ekki stjórnvöldum sem bera ábyrgð á mannvirkjalöggjöfinni. Einkarekin fyrirtæki lögðu strax til þekkingu og vinnu sinna bestu sérfræðinga sem unnið hafa sleitulaust undir verkstjórn Byggingarstaðlaráðs. Þeir sérfræðingar telja á þriðja tug. Verkefnið er gríðarlega viðamikið þar sem fylgjast þarf með vinnu fjölda vinnuhópa sem nú eru að störfum í Evrópu og taka þátt í Norrænu samstarfi vegna ákvörðunar Norrænu ráðherranefndarinnar (sem í sat þáverandi ráðherra mannvirkjamála) um að samræma kröfur á Norðurlöndunum eins og hægt er. Eins og sakir standa er unnið í 174 mislöngum og misflóknum stöðlunarskjölum. Þá eru fimm vinnuhópar að störfum á Íslandi með samtals 23 þátttakendum. Þátttaka 18 þeirra er kostuð af einkareknum fyrirtækjum en 5 koma frá fjórum ríkisstofnunum; HMS, Vegagerðinni, Háskóla Íslands og Landsvirkjun. Þá eru 8 manns til viðbótar í tækninefnd og stýrihópum. Samtals um 30 manns. Hlutverk verkefnastjóra Byggingarstaðlaráðs er að halda utan um alla þessa vinnu og skila af sér endurskoðuðum þjóðarviðaukum sem byggja á bestu fáanlegu þekkingu og nýjustu rannsóknum.
Strax við upphaf endurskoðunar 2019 voru hafnar viðræður við ráðuneytið sem bar ábyrgð á mannvirkjamálum á þeim tíma, félags-og barnamálaráðuneytið. Tveimur árum síðar fluttist málaflokkurinn yfir í innviðaráðuneytið. Nú fjórum árum eftir að vinnan hófst hafa þær viðræður litlu skilað og bæði ráðuneyti skilað auðu, ef frá eru taldar málamyndagreiðslur sem nema innan við fjórðungi af beinum kostnaði við verkefnastjórn. Er þá ekki meðtalið virði þekkingar og vinnu tuga sérfræðinga.
Nú er svo komið að einkafyrirtækin munu ekki halda áfram að fjármagna vinnu við skrif á skyldubundnum stöðlum (öðrum orðum löggjöf), umfram það sem þau þegar leggja til og vinnu við verkefnið verður hætt um áramót.
Það hefur þær afleiðingar að á næstu misserum verða til ný viðmið, sem þegar er vísað til í mannvirkjalöggjöf með bindandi hætti, sem innihalda ENGAR KRÖFUR TIL ÞOLHÖNNUNAR MANNVIRKJA Á ÍSLANDI. Íslensk stjórnvöld munu þannig eftirláta byggingaraðilum og hönnuðum þeirra ákvörðun um styrkleika og þol mannvirkja hér á landi. Með því hundsa þau einnig kröfur sem þau sjálf hafa undirgengist. Byggingaraðilar munu þá geta byggt og selt íslenskum fjölskyldum húsnæði sem t.d. þarf ekki að þola jarðskjálfta, án nokkkurra einustu afleiðinga enda hvorki hægt að hafa eftirlit með lögum sem ekki eru til og engin lög eru til að brjóta.
Staðlaráð Íslands skorar hér með á innviðaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, að viðurkenna ábyrgð sína á því að uppfylla skuldbindingar sem íslenskra ríkið undirgekkst með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 80/2005 um innleiðingu á tilmælum framkvæmdastjórnar ESB um framkvæmd og notkun evrópskra þolhönnunarstaðla fyrir byggingarmannvirki og byggingarvörur í burðarvirki. Með því verður unnt að tryggja öryggi mannvirkja sem byggð verða á Íslandi á komandi árum og þar með tryggja öryggi og líf fólks, m.a. á jarðskjálftasvæðum. Stjórnvöld hafa nú þegar endurgjaldslausan aðgang að bestu fáanlegu sérfræðiþekkingu og rannsóknum til að ljúka þessari vinnu sem áætlað er að ljúki 2027 en það tilboð rennur út 31. desember 2023.