Hátíð í bæ

Í dag, á þrítugasta aldursári Íslenskra staðla, verður fimmta fagstaðlaráðið stofnað, fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum. Nýtt fagstaðlaráð hefur ekki verið stofnað síðan það herrans ár 2007. 

Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir eru stofnaðilar að ráðinu og leggja þar með sitt af mörkum til þess að ná meiri og betri árangri á sviði umhverfismála í víðum skilningi.

Ráðsins bíða fjölmörg verkefni sem öll varða áríðandi erindi við samfélagið, þátttöku í starfi með bestu sérfræðingum á sviðinu, greiningu á forgangsverkefnum hér heima og aðgerðum sem miða að því að gera betur. Stofnaðilarnir okkar tóku margir þátt í að gefa út tækniforskrift um kolefnisjöfnun, ÍST 92, sem gefur fyrirtækjum sem vilja kolefnisjafna sig og fyrirtækjum og samtökum sem vilja gefa út vottaðar kolefniseiningar, alþjóðlega viðurkennd verkfæri til að vinna með og traustan ramma til að vinna innan, í þeim tilgangi að uppfylla kröfur þegar kemur að kolefnisjöfnun. Tækniforskriftin varð til eftir að stór hópur fólks víða að úr atvinnulífinu og stjórnsýslunni komst að sameiginlegri niðurstöðu um að grænþvottur á sviði umhverfismála væri víðtækt og alvarlegt vandamál á Íslandi. 

Við fögnum í dag og hlökkum til að vinna með öflugum fyrirtækjum og sérfræðingum þeirra að því að gera heiminn betri og öruggari. 

Menu
Top