Snjall landbúnaður

Landbúnaður er í sífelldri þróun og miklar framfarir átt sér stað undanfarna áratugi sem valdið hafa straumhvörfum í matvælaframleiðslu. Næst á dagskrá er gagnabylting í landbúnaði með snjallari búskap sem hægt og rólega er að ryðja sér til rúms. Ekki misskilja, bændur hafa verið og eru enn mjög snjallir, því er engum blöðum að fletta. Það sem ég á við er auðvitað meiri tæknin. Tækni sem getur nýst bændum hér á landi sem og víða annarsstaðar við að ná betri árangri í framleiðslu en að sama skapi draga úr allri auðlindanotkun og vera loftslagsvænni. Snjallbúskapur er það sem styðst við margvíslega tækni sem veitir betri nákvæmni í því sem við gerum og má þá nefna búnað eins og dróna, þjarka, IoT nema, GPS tæki og upplýsingakerfi margskonar sem auka skilvirkni í búskapnum.

Aðeins nánar um snjallbúskap

Með snjallbúskap er átt við það að nota nútíma upplýsingatækni og gögn til að taka upplýstari ákvarðanir eins og ég kem inná. Ef rétt er að málum staðið mun það hámarka og auka hagkvæmni í matvælaframleiðslu. Það er þó ekki allur ábatinn sem fæst af því þar sem bætt auðlindanýting stuðlar að aukinni náttúruvernd, náttúra sem bændur einna helst reiða sig á að sé heilbrigð og hrein. Einnig er hægt að vinna gegn matarsóun sem er eitt og sér ákveðið vandamál í okkar samfélagi. Við hendum alltof miklum mat.

Í nýlegri skýrslu frá Alþjóða staðlasamtökunum (ISO) er snjall landbúnaður skilgreindur sem „gagnadrifnar ákvarðanir byggðar á meginreglum í landbúnaði og fæðuvirðiskeðjum sem koma fram sem fjölmarkmiða hámörkun í samhengi alþjóðlegs óstöðugleika, óvissu, flækjustigs og tvíræðni“. Í kringum háþróaða tækni eins og dróna, þjarka og IoT-nema í landbúnaði býður snjallbúskapur upp á heildarsýn yfir nútíma landbúnað. Hann tengir saman fæðuverðmætakeðjuna í heild sinni og tengir saman kerfi með stöðluðum gagnasniðum. Snjallbúskapur er gagnadrifinn, skilvirkur og sjálfbær stafrænn landbúnaður.

Aukin tengjanleiki opnar á þann möguleika að nýta nákvæmari aðferðir við eins og áburðargjöf, jarðvegseftirliti, kortlagningu og búfjáreftirliti. Snjalltækni í búskap safnar upplýsingum um uppskeru, jarðvegsskilyrði, veðurfar og fleira. Gögnin eru síðan greind til að ákvarðanir verði teknar sem leiða til hagkvæmari nýtingar vatns, áburðar eða annarra efnanotkunar. Þessi nýtni hámarkar afköst og lágmarkar um leið sóun.

Gagnadrifin innsýn

Með snjallbúskap virkjar þú stöðluð gagnasnið. Þannig geta mismunandi kerfi „talað“ hvert við annað og deilt upplýsingum. Þannig flæða gögn á milli frá nemum til annarra tækja, frá aðföngum til framleiðslu og alla leið til neytenda og smásala. Til að svo megi vera þarf að draga úr hindrunum og gögn þurfa að vera aðgengileg, samhæfð og nothæf. Alþjóðlegir staðlar gegna mikilvægu hlutverki við þróun ramma og aðferðarlýsinga fyrir altæka gagnamiðlun og geta bændur stuðst við það. Með þessum hætti geta bændur miðlað upplýsingum og mælingum af vettvangi, samþætt varnir gegn skaðvöldum, fengið stuðning við ákvarðanatöku byggðar á mismunandi gögnum og auðveldlega flutt gögn út eftir aðfangakeðjunni.

Snjallbúskapur sem byggir á stöðlun breytir hefðbundnum búskaparháttum í gagnadrifin, skilvirkan og sjálfbæran búskap sem tekst á við áskoranir nútímans en er um leið undarstaðan að öruggari og hagkvæmari landbúnaði til framtíðar.

Þessi nýja tækni er þýðingarmikil þar sem okkur fjölgar mikið og því þörfin fyrir aukna framleiðslu rík. En um leið og við náum fram meiri skilvirkni erum við að sama skapi að vernda náttúruauðlindir okkar og vistkerfi með aðstoð snjallari lausna. Tæknin stuðlar að því að gera bændur betur í stakk búna til að taka upplýstar ákvarðanir, hámarka nýtingu auðlinda og auka framleiðni. Sem er vissulega jákvætt fyrir alla.

Með stöðluðum snjallbúskap getum við betur lagað okkur að óvissuþáttum loftslagsbreytinga, dregið úr umhverfisáhrifum og stuðlað að seiglu í landbúnaðarframleiðslu. Þannig getum við framleitt meira með minni orku. Það tryggir fæðuöryggi og stuðlar að heilbrigðari jörð.

Menu
Top