Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.
Frétt Heimildarinnar um mat fyrrum forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, Jóns Gunnars Ottóssonar á s.k. "heimatilbúnum stöðlum" vakti athygli okkar. Staðall er nefnilega ekki það sama og staðall.
Af því tilefni vill Staðlaráð Íslands koma á framfæri upplýsingum um að nýleg tækniforskrift Staðlaráðs ÍST 92:2022 Kolefnisjöfnun: Kröfur með leiðbeiningum er einmitt það sem Jón Gunnar kallar eftir, þar sem hún inniheldur leiðbeiningar um það hvernig alþjóðlegir ISO staðlar eru nýttir til að ná fram eiginlegri, mælanlegri og raunverulegri kolefnisjöfnun. Þessi tækniforskrift miðar að því að gefnar verði út vottaðar kolefniseiningar hér á landi, sem fyrirtæki geta keypt til kolefnisjöfnunar, að undangengnum aðgerðum sem tækniforskriftin og hinir alþjóðlegu staðlar segja til um. Þannig skilur allur heimurinn hvað um ræðir, sannreynt hefur verið að kolefniseiningar hafi raunverulega orðið til, notaðar eru samræmdar mælingar á útblæstri fyrirtækja og mat lagt á aðgerðir þeirra til að draga úr losun. Aðferðafræðin sem byggt er á er því ekki "heimatilbúin". Þvert á móti er um að ræða alþjóðlega viðurkenndar aðferðir sem gefnar hafa verið út sem slíkar. Hér má lesa um inntak tækniforskriftarinnar.
Mynd: Arngrímur Blöndahl, ritari Byggingarstaðlaráðs