Hvernig er tryggt að íslensk mannvirki þoli jarðskjálfta?

Hugur okkar í dag er með fórnarlömbum hinna miklu jarðskjálfta sem riðu yfir Tyrkland í nótt og í morgun. Íslendingar þekkja jarðskjálfta af eigin raun og þá ógn sem af þeim stafar. Vegna þess viljum við deila með ykkur upplýsingum um forsendur fyrir hönnun jarðskjálftaálags, sem tekur mið af mismunandi aðstæðum á mismunandi stöðum á landinu. 

Hvaða kröfur eru gerðar til hönnunar og byggingar mannvirkja?

Þegar jörð hefur skolfið hérlendis hafa sérfræðingar fullvissað okkur um að húsin okkar standist það álag sem náttúran býður. Það er gott að treysta því að allt verði í lagi og til allrar hamingju eigum við framúrskarandi sérfræðinga hér á landi sem leggja sitt af mörkum við að tryggja öryggi okkar. Raunar er það svo að grunnkröfur um þolhönnun eru skrifaðar í evrópska þolhönnunarstaðla sem innleiddir eru hér á landi. Okkar sérfræðingar, eins og sérfræðingar annarra landa, sérfróðir um aðstæður í hverju landi skrifa þjóðarviðauka sem bætast við grunnkröfurnar og mynda þannig heildarkröfur sem gera þarf til hönnunar og byggingar mannvirkja þannig að þær standist álag náttúrunnar á hverjum stað. Evrópsku þolhönnunarstaðlarnir eru 58 talsins en um þessar mundir stendur yfir endurskoðun þeirra. Í því felst að endurskoða þjóðarviðaukana um leið og taka þátt í evrópskri og norrænni samvinnu um það verkefni.

Séríslenskar aðstæður kalla á íslenskar kröfur

Hér á landi hefur Staðlaráð Íslands, sem lögbundin landsstaðlasamtök, staðið fyrir gerð þjóðarviðaukanna fyrir hönd ríkisins. Í því felst að kalla til alla bestu sérfræðinga landsins til að skrifa þær viðbætur sem nauðsynlegt er að gera til að tryggja öryggi mannvirkja og þar með öryggi landsmanna. Staðlaráð verkefnastýrir þeirri vinnu og hefur það hlutverk með höndum nú við endurskoðun þessarra mikilvægu gagna. Um 20 bestu þolhönnunarsérfræðingar landsins, á sviði jarðskjálfta, snjóaálags, vindálags o.fl. hafa gefið vinnu sína við verkefnið en flestir þeirra eru fulltrúar einkafyrirtækja í atvinnulífinu.

Fagráðuneyti tekur ekki ábyrgð

Þrátt fyrir að einkafyrirtæki leggi vinnuframlag og sérfræðiþekkingu sína af mörkum, á sinn kostnað, til verkefnisins hefur fagráðuneyti mannvirkjamála, innviðaráðuneytið (áður félagsmálaráðuneytið) ekki séð sér fært að gefa vilyrði fyrir því  greiða nema innan við helming af kostnaði við verkefnastjórn þessa viðmikla verkefnis fyrri þrjú árin og engin vilyrði eru fyrir því að kostnaður sem fellur til við hana seinni þrjú árin fáist greiddur. Raunar hafa starfsmenn Staðlaráðs varið ómældum tíma undanfarin ár í það að eiga í samskiptum við fulltrúa ráðuneytisins til að tryggja fjármögnun til að geta sinnt verkefninu og nú, tæpum þremur árum eftir að það hófst liggur enn ekki fyrir undirritaður samningur um kostun þess. Staðlaráð liggur ekki á digrum sjóðum og hefur á undanförnum árum verið verulega vanfjármagnað. Það er því óljóst hvernig þessu mikilvæga verkefni reiðir af.

Mismunandi kröfur gerðar á mismunandi stöðum á landinu

Fyrir áhugasama er fróðlegt að skoða hvernig álagskort vegna jarðskjálfta lítur út og við birtum það hér til upplýsingar. Kortið er hluti af íslenskum þjóðarviðaukum við evrópska þolhönnunarstaðla, sett fram af okkar bestu sérfræðingum á sviðinu. Á því má sjá að grunngildi kortsins byggja á s.k Mercator vörpun (lárétt viðmiðunarhröðun) sem mæld er í mælieiningunni g þar sem aukið álag (sem orsakast af meiri hröðun jarðhreyfinga) kallar á auknar kröfur til styrkingar mannvirkja s.s. með járnabindingu. Til mikillar einföldunar þá er gert ráð fyrir að sú hámarksstærð skjálfta sem kortið sýnir sé 100% líkleg til að endurtaka sig á tæplega 500 ára fresti eða 10% líkur á að svo stórir skjálftar endurtaki sig á u.þ.b. 50 ára tímabili og þá þurfa mannvirkin að standast það álag.  Mestu álagssvæðin eru á Suðurlandi og Norðurlandi á meðan Vestfirðir og Austfirðir og austasti hluti Suðurlandsins eru mun rólegri svæði.

Sérstakt kort var gefið út fyrir höfuðborgarsvæðið í íslensku þjóðarviðaukunum sem nú sæta endurskoðun. Má þar sjá að jarðskjálftaálag á Seltjanarnarnesi er helmingi minna en álagið í Hafnarfirði og stórum hluta Kópavogs og stærstur hluti Reykjavíkur og Mosfellsbæjar er þar mitt á milli.

Það er mikilvægt að við stöndum í lappirnar hvað varðar gerð íslenskra þjóðarviðauka við grunnkröfur evrópskra þolhönnunarstaðla. Öðruvísi tryggjum við ekki að hamfarir á íslenskan mælikvarða valdi ekki ónauðsynlegu tjóni eða ógni öryggi okkar með ónauðsynlegum hætti.

Menu
Top