Nýr þjónustusamningur menningar- og viðskiptaráðuneytis og Staðlaráðs Íslands

Skömmu fyrir jól undirrituðu Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og Helga Sigrún Harðardóttir, framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands nýjan þjónustusamning um áframhaldandi framlag hins opinbera til staðla og stöðlunarstarfs. Með því svaraði ráðherra ákalli ráðsins um aukin framlög til þeirra lögbundnu verkefna sem ráðið sinnir sem þjónustuaðili við hið opinbera en einnig voru handsöluð áform um aukið samstarf og samræmingu hjá hinu opinbera um ýmis mál tengd stöðlum sem hluta af lagarammanum og til að svara ýmsum samfélagslegum áskorunum sem unnt er að styðja við með stöðlum.

Ráðherra sagði af þessu tilefni: "Staðlar eru mikilvægir fyrir íslenskt atvinnulíf og brýnt er að staðinn sé vörður um mikilvægi staðlastarfs í landinu og alþjóðlegra skuldbindinga okkar á því sviði. Í því skyni er ánægjulegt að okkur hefur tekist að auka verulega á milli ára, framlag ríkisins til Staðlaráðs Íslands, þannig að við getum með myndarlegum hætti uppfyllt lögbundin verkefni og gert Staðlaráði kleift að eflast og takast á við vaxandi fjölbreytt verkefni."

Staðlaráð Íslands tekur undir orð ráðherra og hlakkar til samstarfsins á nýju ári með það að markmiði að hámarka þann árangur sem stöðlun og staðlar geta haft á íslenskt atvinnulíf, árangur í umhverfismálum, netöryggi, neytendavernd og til að styrkja gæðainnviði mannvirkjamála. Staðlar eru hluti af grunninnviðum samfélagsins, órjúfanlegur hluti af keðju sem tryggir öryggi, virkni, gæði og vernd fólks. Ráðherra menningar og viðskipta hefur nú tryggt þann hlekk fjárhagslega  til næsta árs og mun með auknu samstarfi treysta árangur af staðlastarfi til framtíðar, okkur öllum til heilla.   

Menu
Top