IEC Young professionals í San Francisco

Breyting á innskráningu

Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.

Í lok október fór fram Aðalfundur IEC staðlasamtakanna í San Francisco. Um árlegan viðburð er að ræða þar sem helstu sérfræðingar á sviði rafmagnstækni koma saman. Staðlaráð Íslands er fulltrúi Íslands í IEC sem og öðrum alþjóðlegum staðlasamtökum. Á aðalfundinum fór einnig fram svokölluð Young professionals vinnustofa þar sem ungt fagfólk víðsvegar að kemur saman og leysir allskonar verkefni ásamt því að kynnast IEC samtökunum og starfi þeirra betur. Í fyrsta sinn sendi Staðlaráð Íslands fulltrúa héðan sem styrkt var af Rafstaðlaráði. Fulltrúar okkar voru þær Júlíanna Lind Guðlaugsdóttir, verkfræðingur hjá Mannvit og Björgheiður Helgadóttir, verkfræðingur og sjálfbærniráðgjafi hjá EY. Þær voru valdar út frá þátttakendum úr Nordic Young professionals vinnustofunni sem fór fram fyrr á árinu og er haldin af norrænu staðlasamtökunum. 

Við fengum þær Júlíönnu og Björgheiði til að segja okkur aðeins frá ferðalagi þeirra, upplifun og lærdómi af þeirra þátttöku á Young professionals vinnustofunni. 

Júlíanna Lind Guðlaugsdóttir

Vikan í San Francisco var sannarlega óhefðbundin og skemmtileg. Staðlaráð Íslands lagði land undir fót og fór til San Francisco á ráðstefnu á vegum IEC. Ég ásamt einni annarri var valin til að fara og taka þátt í verkefninu Young Professional sem er haldið árlega á þessari ráðstefnu og miðar að því að kynna staðla heiminn fyrir ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref í stöðlum. Heimurinn er svo sannarlega óreiðukenndur en manneskjum sem heild hefur tekist að koma reglu á óreiðuna með verkfærinu sem staðlar eru. Þetta er eitt af því sem ég lærði í þessu áhugaverða og skemmtileg verkefni. Staðlar móta heiminn og sýna okkur að saman vinnum við skilvirkar og betur en í sundur. Þetta hljómar kannski klisjukennt en mér fannst merkilegt að sjá samstöðuna sem einkenndi þessa vinnustofu sem ég tók þátt í. Ungt fólk alstaðar að úr heiminum mætti saman í eina viku og þarna myndaðist skemmtileg stemming við að kynnast svona mörgu nýju fólki með það markmið að leysa af hendi verkefni sem hring snerust um staðla og umfram allt samvinnu. Staðlar eru ekkert annað en samvinna. Samvinna til að gera kerfi og ferla straumlínulagaða og skilvirka heild af verðmætasköpun.

Það sem mér fannst ég læra mest af í þessari vinnustofu var þegar við fengum að herma eftir ferlinu við að búa til staðal og síðan í framhaldinu af því að prófa staðalinn til að sjá að hann sé að skila tilætluðum árangri. Einnig var ótrúlega gaman að fá að tala við reynslubolta úr þessum heimi og heyra sögur af því hvað aðrir sjá mikil tækifæri í stöðlum og hvernig staðla vinna laðar að sér betri verkferla og tækifæri. Þetta heyrði ég sérstaklega frá Stinu Wallström. Heimsóknin í University of Berkley var mjög áhugasöm og fróðleg. Þar fengum við leiðsögn um skólann og heimsóttum verkstæði og hönnunarstofurnar. San Francisco er þekkt fyrir mikla jarðskjálfta og í þessum skóla var mikið lagt upp úr hönnun jarðskjálftavarna við byggingafræðideildina. Þetta er með elstu skólum bandaríkjanna og byggingarnar bera þess merki enda hver annarri glæsilegri.

Allir tóku vel á móti okkur og voru tilbúnir að hlusta á það sem við vorum að hugsa og meira að segja hæst setta fólkið þarna gaf sér tíma í spjall til að hlusta á hugmyndir. Staðlar eru partur af mínu daglega lífi sem hönnuður og í framhaldi af þessu verkefni verða þeir þunga meiri í mínum verkefnum. Einnig lærði ég að í stöðlum finnur maður oft svör við spurningum sem maður hélt að þyrfti að finna upp hjólið til að leysa. Það sem mér fannst merkilegt að komast að var hvað staðla nefndir út um allan heim reyna að vinna á undan markaðinum og vera fyrirbyggjandi þegar kemur að nýrri tækni sem hafa tilhneigingu til að vaxa. Eitt af mínum verkefnum með hópnum mínum var að finna upp verkfæri handa IEC til að reyna að bera kennsl á rísandi tækninýjungar og markaði svo að IEC geti komið út með staðla til að gera brautina auðveldari fyrir fyrirtæki sem ætla sér inn á viðkomandi markað.

Björgheiður Helgadóttir

Ég var svo lánsöm að vera valin ásamt Júlíönu til þess að fara á IEC General meeting í San Francisco fyrir hönd Rafstaðlaráðs Íslands 31. október til 6. nóvember og taka þátt í Young Professionals Program. Við byrjuðum ferðina aðeins í hrakföllum þar sem töskurnar okkur urðu eftir í millilendingu í Seattle og við stóðum því eftir farangurslausar á hótelinu okkar að nálgast miðnætti. Það blessaðist svosem á endanum og við fengum töskurnar á hádegi daginn eftir. Það þýddi þó að við byrjuðum fyrsta daginn í ferðafötunum á meðan öll hin í hópnum voru ægilega fín, en engum varð nú meint af. Næstu dagar einkenndust svo af stífri dagskrá af fyrirlestrum og vinnustofum sem og virkilega einstakt tækifæri til þess að fylgjast með starfsemi aðalfundarins með því að vera áheyrendur á nefndafundum og fá marga af fremstu sérfræðingum IEC til okkar í YP prógrammið. Hópurinn samanstóð af 85 ungum upprennandi þátttakendum atvinnulífsins frá öllum heimshornum, eða 43 þjóðum. Það var alveg mögnuð upplifun að hitta fólk frá löndum sem maður hefur varla heyrt af og gaf virkilega dýpt í fjölbreytileika hópsins. Einnig var gaman að sjá hversu margar konur voru hluti af hópnum, greinilegt að IEC er að standa sig vel varðandi kynjahlutfall í vali á þessum hóp. Það sem mér fannst skemmtilegast voru break-out herbergin þar sem við vorum að vinna í hópum að ákveðnum verkefnum. Ég var hluti af diversity hópnum en við áttum að koma með tillögur að því hvernig IEC gæti aukið fjölbreytni, ekki einungis m.t.t. kyns heldur einnig bakgrunns, menntunar, aldurs, o.s.frv. Þar er ég með sterkan bakgrunn og því verðmætt að geta miðlað þeirri þekkingu í vinnuna. Það var einnig mjög skemmtilegt að kíkja í heimsókn til Berkeley í University of California, fallegt campus og áhugavert 3D printing og robotics lab þar sem var gaman að skoða. Í heildina var þetta prógramm virkilega góð innsýn í heim staðlaráða og vinnuna sem liggur þar á bak við.

Fólkið á aðalfundinum tók virkilega vel á móti okkur og það var augljóst að það hafði virkilegan áhuga á að heyra hvað við hefðum að segja. Það mátti skynja áhyggjur af skort á nýliðun í IEC og raunverulegan áhuga á því að bæta úr því, nútímavæða ferla og ná til yngra fólks með víðan bakgrunn. Það hefði þó mátt skilja eftir aðeins meira rými í dagskránni fyrir tengslamyndun innan hópsins en þrátt fyrir stífa dagskrá gátum við þó aðeins farið út fyrir veggi hótelsins og upplifað borgina. Við náðum aðeins að kíkja í miðbæinn og dást að Golden Gate brúnni úr fjarlægð. Svo voru Uber ferðir aftur heim að hóteli nýttar til þess að upplifa brekkur San Francisco í öllu sínu veldi. Hópspjallið hjá hópnum var mjög virkt og oft sem fólk tók sig saman til að kíkja á ákveðna túristastaði eða veitingastaði, sem hjálpaði til við að hrista hópinn saman. Vikan endaði svo á stóru lokapartí með þriggja rétta máltíð og hljómsveit spilaði fyrir dansi þar sem fólk var vel hresst. Hópurinn endaði svo á karókíbar sem var frábær endir á vikunni. Við enduðum svo ferðina með hvelli þegar við stóðum töskulausar í Keflavík en þá hafði flugvöllurinn í Seattle aftur gleymt töskunum okkar þar. 

Ef ég ætti að breyta einhverju þá væri það að lengja ekki ferðina í annan endann. Það fór meiri tími í ferðalag en við höfðum gert okkur grein fyrir og svo var dagskrá frá morgni til kvölds mánudag til föstudags. Hefðum vel getað fundið okkur ódýrari gistingu nálægt hótelin

u og notað 2-3 daga til að upplifa San Francisco í dagsbirtu, en oft var kapphlaup við tímann að bruna út í borgina eftir að dagskrá lauk til þess að sjá sem mest fyrir myrkur um 18. Ég missti líka af heilum dag vegna veikinda og nokkrir dagar voru erfiðir þegar ég var að jafna mig, þannig ég væri til í að taka með mér nýtt ónæmiskerfi ef ég færi aftur. 

 

Menu
Top