Framúrkeyrsla opinberra verkefna er ekki óbreytanlegur fasti!

Hún var áhugaverð IMAR ráðstefnan sem haldin var seint í október í samstarfi verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík og Verkfræðingafélags Íslands. Þar voru m.a. skoðaðar ástæður framúrkeyrslu við opinberar framkvæmdir og nokkrar slíkar nefndar sem dæmi, bæði íslenskar og erlendar.

Mistök eru helst gerð á fyrstu metrunum við áætlanagerð og útboð en það er raunar margt sem getur farið úrskeiðis við framkvæmd opinberra verkefna. Dæmi um það er eftirfarandi:

  1. Fjármögnun
  2. Val á staðsetningu
  3. „Réttur eigandi“ verkefnis
  4. Ákvarðanir stjórnmálamanna og (ó)fyrirséðar breytingar á framkvæmdatíma
  5. Skortur á tryggri breytingastjórnun
  6. Byggingarleyfi og önnur leyfi
  7. Heilsu og öryggismat
  8. Hönnunarkrítería ófullnægjandi
  9. Verktakar sem uppfylla ekki væntingar
  10. Verkefnastjórn
  11. Viðskiptamódelið
  12. Skortur á áhættumati
  13. Ákvarðanir um framkvæmdir byggja ekki á öllum fyrirliggjandi gögnum eða að gögn vantar

Almennt séð er dómgreind fólks ekki nógu nákvæm, og raunar oft bjöguð, til að unnt sé að byggja mat verkefna á henni einni saman. Með huglægu mati hættir okkur til að vanmeta kostnað og ofmeta ávinning. Þess vegna eru gerðar rannsóknir, áhættumat og staðlar jafnvel notaðir á öllum stigum framkvæmdarinnar, alveg frá því áður en ákvörðun er tekin og þar til verklegum framkvæmdum lýkur, til að tryggja að teknar séu réttar ákvarðanir og þannig vel farið með almannafé.

Í rannsókn sem gerð var hér á landi kom í ljós að of oft er byggt á huglægu mati á áhrifum framkvæmda, þær byggja oft á tilviljanakenndum hugmyndum frá almenningi, þarfagreiningar eru í einhverjum tilvikum gerðar eftir á og dæmi eru um að meiri áhersla sé lögð á að ljúka verkefnum en leiðrétta kúrsinn, jafnvel þó menn viti að þau séu á rangri leið.  Ítrekaðar fréttir af framúrkeyrslu upp á milljarða, milljarðatugi og hundruðir milljarða eru verulegt áhyggjuefni og ljóst að við getum gert betur. Sennilega miklu betur. Þar koma staðlar að góðum notum. Staðlar um góða stjórnarhætti, áhættumat og áhættustjórnun, gæðastjórnunarkerfi, verkefnastjórnun, samfélagsábyrgð, eignastjórnunarkerfi, staðlar um virkni og getu kerfa og vara, um stjórnun öryggis og heilsu á vinnustöðum, staðlar um útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir og um hönnun og ráðgjöf, innra eftirlit o.s.frv.

Norðmenn gerðu gæðastjórnun skyldubunda skv. lögum um opinberar framkvæmdir og hafa síðan skilað 80% framkvæmda innan tíma- og fjárhagsáætlunar. Við getum gert það líka en þurfum að vilja það. 

Staðlar eru verkfæri sem búin eru til með samansafnaðri þekkingu bestu sérfræðinga á hverju sviði, sem jafnframt hafa sammælst um niðurstöðuna. Það er varla hægt að sjá fyrir sér traustari verkfæri en svo.

Vefverslun Staðlaráðs er opin allan sólarhringinn. Fjölbreytt úrvalsverkfæri fyrir allar tegundir verka (70.000 talsins) til að verða framúrskarandi og jafnvel alveg, eða í það minnsta að mestu, án framúrkeyrslu. 

Menu
Top