Umsögn Staðlaráðs um fjárlagafrumvarpið 2023

Staðlaráð Íslands hefur um langt árabil staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að ríkið heldur eftir verulegum hluta fjármuna sem atvinnulífið greiðir til staðlastarfs, með hlutdeild í tryggingagjaldi. 

Í umsögn Staðlaráðs um fjárlagafrumvarpið 2023 er að finna yfirlit yfir vanefndir ríkisins í tíu stafliðum, yfirlit yfir 11 ára langa baráttu Staðlaráðs við fagráðuneyti staðlamála sem ekki hefur skilað neinum árangri, kostnaðarmat sem krefst tvöföldunar á rekstrarfé til að ráðinu sé gert kleift að reka verkefni og auknar skyldur á sviði stöðlunar sem ríkið hefur skuldbundið sig til að tryggja skv. EES samningi. Þar er einnig að finna áskorun til fjárlaganefndar um að tryggja fjármögnun þeirra grunninnviða sem í staðlastarfi felst, þar sem atvinnulífið borgar megnið af kostnaðinum nú þegar og ætlar ekki að borga fyrir þjónustu við ríkið tvisvar. Áskorunin er tilkomin vegna yfirlýsingar viðskiptaráðuneytisins um að fara ekki með forræði yfir fjármögnun staðlamála heldur sé það fjárlaganefnd þingsins sem það geri. 

Verði ekki breyting á verður rústaður sá góði vettvangur sem Staðlaráð er til þekkingarmiðlunar, sammælis um úrlausn flókinna verkefna, farvegar fyrir íslenska viðskiptahagsmuni inn í alþjóðlegt regluverk og tryggingar á því að hryggjarstykki neytendaverndar sé tekið upp í íslenskan rétt. Í því felst einangrun, stöðnun og hætta fyrir allan almenning. Við vitum kannski ekkert rosalega mikið um staðla en við vildum ekki vera án þeirra því þannig ríkti villtavestursástand á mörkuðum og heimilt væri að selja hættulegt drasl sem virkaði ekki. Markmiðsákvæða laga um öryggi vöru o.fl. sem segir til um eingöngu megi markssetja örugga vöru er einskis virði án þeirra viðmiða sem í stöðlum felst. 

Staðlar eru nefnilega grjótharðir grunninnviðir sem skv. ákvörðun Alþingis, ESB og annarra stjórnvalda í heiminum verða grundvöllur lagalegra krafna og segja til um tæknilegar útfærslur þeirra. Hvergi er aðgengi jafn gott að jafn traustri gerð löggjafar um flókin sérfræðimálefni, sem kostar jafn lítið fé og á vettvangi Staðlaráðs. 

Boltinn er hjá fjárlaganefndinni.

Umsögnina er að finna hér

 

Menu
Top