Framtíðin er hér - Til hamingju Ísland.is

Það var ánægjulegt að fylgjast með ráðstefnunni „Tengjum ríkið“ í gær þar sem forsvarsmenn Ísland.is fóru yfir þróunarferil þann sem átt hefur sér stað á undanförnum misserum, sýnina á það hvernig Ísland.is getur orðið (og er orðið að talsverðu leyti); miðlæg gátt fyrir miðlun gagna, umsóknir og samskipti við opinberar stofnanir. Tilgangurinn með þróun þessarar gáttar er að einfalda hraðvirka þjónustu sem er skýr og gegnsæ. Með því eykst samkeppnishæfni, innviðir verða öruggari og starfsumhverfið tekur mið af nútíma kröfum. Tíma og vinnu fólks er ekki sóað í það að útbúa sömu pappíra ítrekað og keyra þá svo á milli staða. Þar kom líka fram að þróun Íslands.is hefur gengið jafn vel og raun ber vitni vegna þess að allir helstu hagaðilar taka þátt í verkefninu og hafa lagt sitt af mörkum. Og þá komum við að máli málanna. Þetta er nefnilega sama hugmyndafræði og við stöðlun. Allir hagaðilar eiga sæti við borðið, deila þekkingu sinni og reynslu og sammælast svo um útfærsluna. Þá er óhætt að nefna það hér, þó staðlar hafi ekki borið oft á góma í erindum gærdagsins að ekkert af þessu væri unnt að útfæra nema fyrir staðla. Netöryggi, staðlar sem tryggja samvirkni ólíkra kerfa, kröfur um aðgengi, QR kóðar, úttektir á öryggismálum, nettengingar, fjarskipti og möguleikar á að búa til nýjar stafrænar vörur eru allar byggðar á stöðluðum viðmiðum sem tryggja virkni, einfaldleika, öryggi og nýsköpun.

Staðlaráð Íslands hefur notað þjónustu Ísland.is og tengt hana útfærslum í vefverslun sinni. Hún virkar ákaflega vel og hefur einfaldað margt í okkar starfi og gert okkur kleift að verja tíma okkar í annað. Viðskiptavinir okkar stjórna sjálfir aðgengi sinna starfsmanna að úttektum í reikningsviðskiptum með utanumhaldi í umboðsmannakerfi Ísland.is og það virkar ljómandi vel.

Staðlaráð Íslands óskar forsvarsmönnum Ísland.is til hamingju með góðan árangur og hlakkar til að fylgjast með þeim sigla áfram hraðbyri inn í 4. iðnbyltinguna.


Menu
Top