Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.
Það getur skipt sköpum fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja að hafa raunveruleg áhrif á ráðandi viðmið og reglur. Staðlar eru þessi viðmið og fyrirtæki um allan heim leggja metnað og vinnu í þátttöku í slíku starfi.
Rannsóknir sýna að þátttaka í staðlastarfi gefur þátttakendum gríðarlegt forskot vegna aðgangs að upplýsingum og áhrifa á setningu viðmiða sem notuð verða af markaðnum. Þátttakendur í staðlastarfi hafa líka upplýsingar um þróun á tilteknum sviðum sem getur haft úrslitaáhrif á það hvort þeir ná árangri með ný tækifæri og nýja tækni. Þá treystir slík þátttaka tengslanet viðkomandi sérfræðings eða fyrirtækis sem margir sækjast eftir til að verða virkur þátttakandi í samtali um þróun og tækifæri.
Hjá alþjóðlegu staðlasamtökunum ISO og IEC eru starfræktar tækninefndir og vinnuhópar í þúsundavís og ný verkefni hlaupa á þúsundum einnig. Hlutfallslega eru nú flest verkefni í vinnslu á sviði upplýsingatækni, samgangna og verkfræði en verulegur fjöldi verkefna eru þó einnig í vinnslu á sviði sjálfbærni, orku, heilsutækni, mannvirkjamála og nýrrar sértækrar tækni. ISO og IEC hafa til samans gefið út ríflega 35.000 staðla sem notaðir eru um allan heim til að létta okkur lífið, auka öryggi okkar og tryggja vernd og virkni. Dæmi eru um að alþjóðlegir staðlar byggi á íslenskri sérfræðiþekkingu og má nefna ISO 19898:2019 um virknikröfur sem gera þarf til búnaðar sem ætlaður er til að bjarga fólki úr sjó um borð í skip og prófunarkröfur sem slíkur búnaður þarf að standast til að fást samþykktur. Staðlastarf er því sannanlega farvegur fyrir íslenskt hugvit og íslenska tækni og veita þannig tækifæri til útflutnings og aðgangs að erlendum mörkuðum. ISO hefur gefið út upplýsingarit fyrir sérfræðinga sem taka þátt í staðlastarfi á þeirra vegum
Ríflega 2.500 tækninefndir og vinnuhópar eru starfræktir hjá CEN og CENELEC í Evrópu. Evrópusambandið notar staðla með markvissum hætti sem hluta af sinni löggjöf til að að samræma reglur á innri markaði í Evrópu. Með því hefur Evrópusambandið gert sérfræðingum innan einstakra atvinnugreina kleift að segja sjálfir til um hvaða viðmið og kröfur eðlilegt er að gera og sjálfsreglusetning í gegnum staðlagerð því raunveruleg á fjölmörgum sviðum, einkum þó á sviði neytendaverndar. Það er lýðræðislegt, treystir gæði löggjafarinnar og tryggir einnig hlítni við lög og reglur.
Staðlaráð Íslands starfrækir fjögur fagstaðlaráð; Byggingarstaðlaráð, Fagstaðlaráð í fiskimálum, Fagstaðlaráð í upplýsingatækni og Rafstaðlaráð. Á vettvangi þeirra fer fram stöðlun vegna íslenskra þarf á íslenskum markaði. Tugir séríslenskra staðla og stöðlunarskjala hafa verið gefin út til að treysta viðmið, samskiptareglur, upplýsingaskipti og þannig auka hlítni við lög og reglur, spara fjármuni, tryggja öryggi, virkni og samvirkni auk þess að treysta vernd mannslífa og umhverfis. Dæmi um séríslenska staðla og stöðlunarskjöl eru íslenskir þjóðarviðaukar við tugi evrópskra þolhönnunarstaðla, ÍST 30 - almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir, ÍST HB 200 - Raflagnir bygginga, ÍST 85 - Jafnlaunakerfi og ÍST 51 Byggingarstig húsa.
Staðlar verða þó ekki til nema fyrir sammæli þeirra sérfræðinga sem að starfinu koma. Þess vegna gilda sérstakar reglur um þátttöku í staðlastarfi, hlutverk hvers og eins og það hvenær sammæli telst hafa náðst. Vegna eðlis staðla er óhæði þess vettvangs sem staðlastarf fer fram á hornsteinn þess starfs. Tryggja þarf að allir hagaðilar hafi tækifæri til þátttöku í tækninefndum og vinnuhópum, tryggja þarf gagnsæi, upplýsingagjöf, aðgengi að virkri þátttöku og að kröfur um sammæli séu uppfylltar. Staðlar byggja því á bestu fáanlegu þekkingu, notendurnir sjálfir og hagaðilar leggja línurnar og þess vegna aukast líkur á því að viðmið staðals eða kröfur verði í raun ráðandi á markaði. Staðlaráði ber að tryggja aðgengi allra hagaðila, gagnsæi, óhæði og sammæli. Útgefnar reglur um þátttöku í staðlastarfi má finna hér
Staðlastarf er unnið á kostnað hagaðila. Aðilar að Staðlaráði greiða fyrir það með aðildargjöldum að ráðinu og sérstökum framlögum til að kosta verkefnastjórn og undirbúning útgáfu og leggja að öðru leyti sjálfir fram sérfræðiþekkingu sína og vinnu í tækninefndum. Í stærri ríkjum greiða menn fyrir þátttöku í stöðlunarstarfi vegna ávinningsins sem hún felur í sér.
Staðlar eru raunverulega stefnumótandi fyrir mjög marga markaði. Þátttaka í staðlastarfi gefur ómetanlegan aðgang að upplýsingum og ákvörðunum sem geta ráðið úrslitum um samkeppnishæfni og aðgang að mörkuðum.
Nánari upplýsingar um Staðlaráð Íslands og starfsemi þess á www.stadlar.is