Þetta tengist allt saman

Það eru fá málefni sem öll lönd geta verið sammála um en nánast öll ríki Sameinuðu þjóðanna hafa skuldbundið sig til þátttöku í Parísarsamningnum um loftslagsbreytingar.

Óumdeilt er að stemma þarf stigu við umhverfishnignun, allt frá eyðingu náttúruauðlinda til útrýmingar heilla vistkerfa. Umhverfishnignun er alvarlegt vandamál sem snertir okkur öll. Mannkynið er hluti af náttúrunni og því er hnignun umhverfisins nátengd öðrum hnattrænum áskorunum eins og fæðuöryggi. Allir þessir þættir mynda vítahringi sem getur verið mjög erfitt að rjúfa.

Að sama skapi getur öll viðleitni til að leysa hnignun umhverfisins verið skref í átt að dyggðarhring með ávinningi fyrir svið á borð við lýðheilsu, orkuöryggi og atvinnu.

Skortur á náttúruauðlindum

Áframhaldandi hnignun náttúrunnar mun ógna stöðugleika samfélaga þar sem eftirspurn eftir auðlindum á borð við vatn og matvæli heldur áfram að aukast.

Vatnsnotkun hefur aukist tvöfalt hraðar en fólksfjölgun síðastliðna öld. Sameinuðu þjóðirnar áætla að 1,8 milljarðar manna muni líða vatnskort árið 2025 og tveir þriðju hlutar allra þjóða heims munu standa frammi fyrir vatnsstreitu. Álag á ferskvatnsauðlindir sem þegar eru takmarkaðar felur í sér hækkandi hitastig, sem eykur uppgufun, en aukin eftirspurn gæti aukið kostnað vegna vatns og ágreiningur um meðferð þessarar dýrmætu auðlindar getur stuðlað að alþjóðlegri spennu. 

Loftslagsbreytingar, fólksfjölgun og efnahagsþróun stuðla að auknum vatnsskort og munu einnig setja þrýsting á aðgengi að ræktanlegu landi til landbúnaðar. Á sama tíma eru minna þekktar náttúruauðlindir, s.s. sjaldgæfir jarðmálmar, þegar undir þrýstingi vegna átaks við að minnka kolefnismengun, sem eykur eftirspurn eftir sjaldgæfum auðlindum, s.s. liþíum fyrir rafgeyma rafknúinna ökutækja.

Skortur sem þessi getur jafnvel valdið átökum, einkum þegar efnahagslegar og pólitískar aðstæður skapa aðgangshindranir.

Ógn við vistkerfin

Náttúruleg vistkerfi á landi, í vötnunum og á sjó verða einnig fyrir áhrifum af þessum sömu þáttum. Hnattræn hlýnun, mengun, eyðing skóga, námuvinnsla á hafsbotni og súrnun sjávar truflar náttúrulega starfsemi þessara vistkerfa og enn er unnið að því að vísindamenn skilji til fulls umfang og afleiðingar röskunar þeirra.

Vistkerfi eru samtengt net lífs og út frá náttúrunnar hendi, eru menn ekki ónæmir fyrir ógnum af röskun þeirra. Aftakaveður geta verið banvæn, beint og óbeint, á meðan aukning loftmengunar veldur nú þegar verulegri áhættu fyrir lýðheilsu í þéttbýli. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að 99% jarðarbúa andi að sér lofti sem er yfir leiðbeinandi viðmiðunarmörkum fyrir mengunarefni.

Vernd fyrir viðkvæma plánetu

Sú áskorun að spyrna fæti gegn hnignun umhverfis getur virst yfirþyrmandi, það er nóg að gera og margt sem hefur verið gert til að draga úr og bæta skaða, sem þegar hefur átt sér stað. Flest lönd stefna að því að ná nettólosun gróðurhúsalofttegunda á næstu áratugum og röð sáttmála, reglugerða og staðla hjálpar til við að berjast gegn nýtingu og misnotkun náttúrunnar.

Alþjóðlegu staðlasamtökin (ISO) hafa alltaf í huga að fylgjast með því hvernig stöðlun gæti gagnast stjórnun og verndun náttúruauðlinda. Sem stendur eru ráðgjafarhópar sem vinna að því að kortleggja núverandi vinnu og þarfir markaðarins sem tengjast mikilvægum jarðefnum og skynsamlegum búskap. Eftir því sem markaðurinn fyrir kolefnisföngunartækni stækkar er einnig verulegt svigrúm til að efla starf sérstakrar tækninefndar í þeirri grein. ISO telur að þörf sé á nýjum stöðlum til að styðja við þróun og prófanir á nýrri tækni og aðferðum við að minnka kolefnislosun, svo sem endurræktun skóga.

Staðlar eru kannski aðeins einn hluti af lausninni en þeir setja grunn að samvinnu og trausti milli fyrirtækja, landa og neytenda.

Menu
Top