Undanfarin ár hafa orðið ýmsar framfarir í tengslum við markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Tímabært er að virkja alþjóðlega staðla til að bæta þann árangur sem náðst hefur.
Árið 2022 mun ráða úrslitum um það hvort heimurinn geti náð markmiði sínu um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030. Í nýbirtri framvinduskýrslu Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin 17 er lýst blandaðri framvindu, einkum þar sem heimsfaraldurinn og síðan óstöðugleiki á alþjóðlegum vettvangi, hefur beint athyglinni frá heimsmarkmiðunum. Þetta þýðir að samfélagið verður að komast aftur á réttan kjöl. " Markmiðin um sjálfbæra þróun eru mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr. Nú er rétti tíminn til að tryggja velferð fólks, hagkerfa, samfélaga og plánetu okkar, "sagði António Guterres, framkvæmdastjóri SÞ.
Vísitölur eru mikilvæg tæki við vöktun og eftirlit til að fylgjast með framvindu sem á sér stað í heiminum. Í júní setti Atvinnuþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNIDO) á laggirnar mælikvarða fyrir gæðainnviði sjálfbærrar þróunar (QI4SD) sem ætlað er að mæla framlag innlendra gæðainnviða til að uppfylla meginreglur um sjálfbæra þróun.
Vísarnir innan QI4SD eru flokkaðir undir fyrirsögnunum velmegun, fólk og pláneta, sem saman eru nefndir „Ps-vísarnir þrír“, sem ætlað er að styðja við hagvöxt, samfélag og umhverfi. QI4SD endurræsing gæðainnviða er ætlað að sinna þörfum fjórðu iðnbyltingarinnar sem er í örri þróun og til að efla það hlutverk sem þeir hafa til að uppfylla heimsmarkmiðin. ISO var lykilaðili í þróun QI4SD-búnaðarins vegna þess að ISO og aðilar að honum auka virði landsbundinna gæðainnviða með því að þróa staðla og kerfi fyrir samræmismat.Eitt af því sem er hvað mest áberandi í heiminum í dag eru loftslagsbreytingar. Í september 2021 skuldbundu Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO sig til að vinna bug á loftslagsbreytingum, með notkun staðla, fyrir árið 2050 með undirritun á Lundúnayfirlýsingunni.
Stuðningur aðildarstofnana ISO hefur verið einróma við þá aðgerð.“ Staðlaráð Kanada (SCC) styður með stolti Lundúnayfirlýsinguna þegar við byggjum upp sjálfbæra framtíð með stöðlun,“ staðfesti Chantal Guay frá SCC.
„Ástandið er mjög alvarlegt,“ bætti David Fatscher við, hjá British Standards Institution (BSI. „En það skiptir líka sköpum að forðast feigðarflan. Ríkisstjórnir, stofnanir og fyrirtæki af öllum stærðum hafa enn vald til að stöðva og snúa við loftslagsbreytingum og hefur Lundúnayfirlýsingin verið stofnuð til að hjálpa þeim að gera það. Þetta er stórt skref í rétta átt.“
ISO-staðlar hafa þegar lagt sitt lóð á vogarskálarnar til kapphlaupsins að núlli (e. race-to-zero). Þótt fjölmiðlar greini oft frá því hvernig losun gróðurhúsalofttegunda hafi aukist á heimsvísu hafa losunartölur fallið í sumum heimshlutum. ISO á mikilvægan þátt í þessari minnkun, að auka umbreytinguna frá jarðefnaeldsneyti yfir í hreina orku með hjálp staðla fyrir hreina orku og að draga úr loftslagsbreytingum. Varðandi hið síðara eru viðskipti með losunarheimildir dæmi um vel heppnað átak sem varð til með ISO-stöðlum.
Hugmyndin að baki viðskiptum með losunarheimildir er einföld: Losunarheimildir eru kvóti fyrir stóriðnaðinn í upphafi tiltekins árs og hann getur einungis losað gróðurhúsalofttegundir ef hann hefur nægar losunarheimildir. Iðnaður getur keypt, selt eða lagt fram losunarheimildir eftir því hvort hann er með of fáar eða of margar losunarheimildir á einhverju viðskiptaári en heildarfjöldi losunarheimilda minnkar milli ára. Þetta dregur aftur á móti úr losun með tímanum og er þekkt sem kerfi fyrir þak og viðskipti (e. cap-and trade).
Fyrir um 20 árum prófuðu Danmörk og Bretland tilraunakerfi fyrir losun koltvísýrings sem síðan var leyst af hólmi með kerfi innan ESB árið 2005. Öllum þessum kerfum var hrundið af stað með ákvæðum í Kýótóbókuninni um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Viðskiptakerfi ESB fyrir losunarheimildir (EU ETS) er starfrækt í áföngum og nær yfir þúsundir orkufrekra iðnaðargreina og flugsamgangna. Þetta kerfi nær yfir 45% af losun gróðurhúsalofttegunda innan ESB ríkja. Fyrir hvern áfanga eru markmið þar sem markmiðið fyrir árið 2020 er 21%, miðað við grunnviðmið fyrir losun frá árinu 2005. Í fjórða áfanga, sem stendur frá 2021 til 2030, var upphaflega stefnt að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 43% en ESB hefur nú aukið við þetta markmið í 55% til að samræma það markmiðum fyrir árið 2030 og lengur, til þess að tryggja að markmiðið um nettólosun núll verði uppfyllt árið 2050.
Viðskiptakerfi ESB fyrir losunarheimildir hefur staðist í megindráttum, farið fram úr markmiðinu fyrir árið 2020 og lagt mikið af mörkum til skerðingar á losun gróðurhúsalofttegunda frá ríkjum ESB. Til dæmis greindu vísindamenn frá því árið 2020 að viðskiptakerfi ESB fyrir losunarheimildir hefði dregið úr losun koltvísýrings um rúmlega einn milljarð tonna frá 2008 til 2016, sem jafngildir 3,8% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í ESB. Til lengri tíma litið féll losun gróðurhúsalofttegunda innan ESB um 31% frá 1990 til 2020 og var 11% í takt við markmið ESB fyrir árið 2020.
ISO-staðlar gegna veigamiklu hlutverki við að draga úr losun. Til dæmis tryggja staðlar gæði og samkvæmni vöktunar, skýrslugjafar og sannprófunar að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda og eru tilgreindir í reglugerðum ESB fyrir slíkt. Að auki eru í kröfum viðskiptakerfis ESB fyrir losunarheimildir um faggildingu og sannprófun á losun gróðurhúsalofttegunda tilgreindir ISO-staðlar um sannprófun á uppgefinni losun gróðurhúsalofttegunda og faggildingu sannprófenda, en jafnframt er mælt með stöðlum fyrir stjórnunarkerfi.
Lönd um allan heim taka eftir góðum árangri við notkun ISO-staðla og viðskiptum með losunarheimildir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og halda áfram að fylgjast grannt með. Árið 2020 tilkynnti Alþjóðaorkumálastofnunin að í heiminum væru 23 kerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir sem samsvara 9% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Í tengslum við þetta er tilgreint í alþjóðlegu samstarfsverkefni um kolefnisaðgerðir (e. International Carbon Action Partnership), í heimsskýrslu sinni um viðskipti með losunarheimildir - stöðuskýrslu 2020, eru fjölmargar tilvísanir í ISO-staðla, bæði með beinum og óbeinum hætti, sem allir hafa gert það kleift að skera niður losun gróðurhúsalofttegunda.
Aðgerðir ISO á sviði loftslagsmála munu hraða og auka samvirkni milli átaksverkefna í loftslagsmálum og alþjóðlegra staðla.“ Lundúnayfirlýsingin er mikilvæg alþjóðleg skuldbinding sem gerir fyrirtækjum og stofnunum í alþjóðahagkerfinu kleift að hraða aðgerðum sínum í loftslagsmálum með því að nota trausta staðla sem eru í samræmi við traust markmið um nettólosun núll,“ segir Nigel Topping, æðsti talsmaður Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum, að lokum.