Viðvörunarkerfi Veðurstofunnar byggist á alþjóðlegum staðli sem kallast CAP (Common Alerting Protocol) og er stafrænt snið fyrir miðlun neyðartilkynninga og viðvarana um náttúruvá. Útgefin skeyti eru á stöðluðu formi sem samræmir alla miðlun viðvarana yfir mismundandi samskiptaleiðir og miðla. Hvert CAP skeyti inniheldur upplýsingar um þá náttúruvá sem varað er við, landshlutann sem viðvörunin nær til, gildistíma og mat á því hversu mikil áhrif umrædd vá getur haft á samfélagið.
Áhrif óveruleg á daglegar athafnir. Grænar viðvaranir eru ekki gefnar út sem upphafsviðvörun, eingöngu til að gefa til kynna að veður hefur gengið niður eða spá hefur breyst svo mikið að útgefnar viðvaranir eru afturkallaðar með grænni viðvörun.
Veðrið getur haft nokkur eða staðbundin áhrif og valdið töfum, slysum eða tjóni ef aðgát er ekki höfð. Slík veður eru ekki óalgeng en krefjast árvekni við skipulagningu atburða og í ferðum á milli landshluta eða á hálendinu. Óveruleg áhrif á samgöngur á landi, innviði og þjónustu. Gul viðvörun 3-5 daga fram í tímann gefur til kynna að litlar eða miðlungs líkur séu á mjög áhrifamiklu veðri 3-5 daga fram í tímann. Gangi spár eftir eru miklar líkur á að viðvörunargildi hækki þegar nær dregur.
Miðlungs eða miklar líkur eru á veðri sem valdið getur miklum samfélagslegum áhrifum. Veðrið getur valdið miklum samfélagslegum áhrifum. Veðrið getu valdið tjóni og/eða slysum og ógnar mögulega lífi ef aðgát er ekki höfð. Skerðing á samgöngum og innviðum/þjónustu tímabundin/staðbundin. Veður sem þessi verða nokkrum sinnum á ári.
Miklar líkur eru á veðri sem hefur mjög mikil samfélagsleg áhrif, eða slíkt veður er yfirstandandi. Einstaklega áköfum og hættulegum veðurskilyrðum er spáð. Búast má við miklum skemmdum, líkur á slysum eru miklar og veðrið ógnar lífi. Viðbúið að samgöngur lokist og aðgengi að innviðum/þjónustu skerðist.
Tökum gott dæmi um þetta. Gefin var út gul viðvörun fyrir allt landið sem taka átti gildi aðfaranótt föstudagsins 14. febrúar 2020 fram til kl. 21 á föstudagskvöld. Þetta var sérlega djúp og áköf lægð sem nálgaðist landið úr suðvestri. Líkur voru á að áhrif veðursins yrðu umtalsverð. En hvers vegna er viðvörunin „bara“ gul? Veðurfræðingar nota gula litinn einnig til að vara við veðri lengra fram í tímann, 3-5 daga. Í skýringartextanum fyrir gula viðvörun segir: „Gul viðvörun getur einnig gefið til kynna að litlar eða miðlungs líkur séu á mjög áhrifamiklu veðri 3-5 daga fram í tímann.“ Þetta átti einmitt við veðrið sem var í vændum. Þegar nær dró og líkurnar á því spáin gengi eftir aukast, var viðvörunarstigið hækkað upp á appelsínugult. Þetta er útskýrt í því sem við köllum „Áhrifafylkið“. Þar er horft á „líkur“ og „áhrif“. Viðvörunarlitur ákvarðast þannig af mati sérfræðinga á áhrifum væntanlegs veðurs og líkum á því að spáin gangi eftir.
Þetta dæmi sýnir að það er mikilvægt að átta sig á því að gul viðvörun 3-5 daga fram í tímann táknar ekki endilega hversu slæmt veður er í vændum.
Miðað við hvernig spárnar fyrir föstudaginn 14. febrúar 2020 litu út þriðjudaginn 11. 2020, var staðsetning viðvörunar í áhrifafylkinu í þeim kassa sem hakað er við á myndinni að ofan. Segjum sem svo að spárnar breytist ekki hvað varðar ákefðina í veðrinu. Líkurnar á því að spáin gangi eftir aukast hins vegar eftir því sem nær dregur föstudeginum og því myndi viðvörunin færast lóðrétt upp líkindaásinn og fá þannig appelsínugulan lit.
Þegar mikið gengur á eins og í fárviðrinu sem geisaði um miðjan febrúar 2020, þá geta margar viðvaranir verið í gildi fyrir sama spásvæðið. Eins er mögulegt að gefin sé út viðvörun fyrir fleiri en eina veðurvá í einu innan sama spásvæðis.
Tölurnar í litlu yfirlitsmyndinni hér að ofan fyrir viðvaranir sem er efst í hægra horninu á vedur.is tákna þann fjölda viðvarana sem gefinn hefur verið út fyrir hvert svæði. Þegar þetta skjáskot var gert stendur talan 7 yfir einum fjórðungi landsins. Það þýðir að á þessum tímapunkti var búið að gefa út 2 viðvaranir fyrir höfuðborgarsvæðið, tvær fyrir Faxaflóasvæðið og 3 fyrir Suðurland, samtals 7 viðvaranir fyrir þann fjórðung landsins.
Gott dæmi eru viðvaranir fyrir Suðausturland. Rauð viðvörun vegna ofsaveðurs og stórhríðar er í gildi frá kl. 6-11. Gul eldingaviðvörun gildir frá kl. 10-14. Appelsínugul viðvörun vegna stórhríðar frá kl. 11-13 og svo að lokum gul viðvörun vegna sunnan hvassviðris og slyddu frá kl. 13-22.
Táknin yfir spásvæðinu í myndinni hér að neðan sýna þannig rauða viðvörun vegna vinds og stórhríðar, gula eldingaviðvörun og svo gula viðvörun vegna vinds.
Höfundur: Haukur Hauksson, samskiptastjóri Veðurstofu Íslands.