Evrópska neytendaverndin

EES samningurinn er gríðarlega mikils virði fyrir íslenska neytendur. Með honum tökum við m.a. upp kröfur og viðmið ESB um framleiðslu og virkni alls kyns neytendavara. Ákvörðun ESB um að innleiða reglugerð sem tryggir að við almenningur getum notað sömu tegund snúru til að hlaða símana, spjaldtölvurnar, hátalarana og öll hin snjalltækin er nýjasta dæmið um slíka vernd. Nú þegar hafa verið innleiddar hér rúmlega 20 reglugerðir og tilskipanir um ýmsar vörur en í þeim er vísað til á fimmta þúsund samhæfðra staðla sem segja til um hinar sértæku kröfur um framleiðslu, efnisnotkun, prófanir, virkni og merkingar á alls kyns vörum, allt frá smokkum til skemmtibáta.

En hvernig er þessi neytendavernd tryggð hérlendis með reglum sem ESB setur?

Með EES samningnum höfum við undirgengist skyldu til að innleiða lagaramma sem m.a. tekur til ýmissa neytendavara. Staðlaráð Íslands staðfestir sem íslenska staðla, þá staðla sem tilheyra vörutilskipunum og – reglugerðum á sviðinu. Staðfestir hafa verið um 30.000 evrópskir staðlar, þ.a. á fimmta þúsund samhæfðir staðlar sem eru eiginlegur hluti regluverksins þar sem vísað er til þeirra í tilskipununum. Með því er tryggt að ýmsar neytendavörur sem markaðssettar eru á evrópska efnahagssvæðinu uppfylla tilteknar kröfur sem varða öryggi, heilsu- og neytendavernd. Um það er fjallað í ESB reglugerð nr 1025/2012 sem innleidd var hér á landi með reglugerð 798/2014 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins um evrópska stöðlun.

Í EES samningnum er svo tryggt að ákvæði staðla séu hluti af regluverkinu sem hér er tekið upp með a-lið 23. gr. samningsins þar sem vísað er til bókunar 12 og II viðauka varðandi tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottanir.

Hvað eru staðlar?

Staðlar eru búnir til af hagaðilum sem geta verið fulltrúar fyrirtækja og opinberra aðila. Þeir eru því sammælt bestu viðmið þar sem raddir allra hlutaðeigandi eru tryggðar við gerð þeirra, líka neytenda. Staðlar geta t.a.m. innihaldið kröfur um framleiðsluferla, efnisval, prófanir, virkni og merkingar eða staðlaðar stærðir og aðferðir. Staðlar verða ekki til nema allir hagaðilar séu sammála um viðmiðin. Frumvörp staðla eru auglýst í öllum ríkjunum þar sem öllum gefst kostur á að gera athugasemdir við innihald þeirra áður en þeir eru staðfestir. Evrópustaðlar eru fyrst staðfestir af evrópusamtökunum CEN og CENELEC og svo staðfestir sem landsstaðlar í öllum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins. Það er beinlínis skylda þeirra sem eiga aðild að því. Þannig verða þeir hluti af landsrétti hér á landi, með staðfestingu þeirra sem íslenskra staðla að undangenginni auglýsingu og mótttöku athugasemda og með innleiðingu vörutilskipana ESB.

Til hvers?

Tilgangurinn með að nota staðla sem hluta af regluverkinu er am.k. fjórþættur.

Tryggja góða löggjöf. Í fyrsta lagi er það staðföst stefna Evrópusambandsins að nýta staðla sem hluta af sínu regluverki og framkvæmdastjórn sambandsins óskar stöðlunar á tilteknum sviðum. Staðlar innihalda sértækar og tæknilegar kröfur og þannig er inntak staðlanna byggt á bestu þekkingu sérfræðinga og þeir verða þannig mikilvægur farvegur fyrir nýsköpun og bestu mögulegu lausnir. Reyndar nota stjórnvöld víða um heim staðla til að segja til um sértækar kröfur og nýta þannig bestu fáanlegu þekkingu á hverjum tíma til að tryggja að löggjöfin sé góð.

Brjóta niður viðskiptahindranir. Samræmdar reglur á öllrum innri markaði ESB sem gerir Evrópu alla að einum markaði sem sömu reglum. Með því eru brotnar niður viðskiptahindranir og frjálst flæði vöru tryggt innan Evrópu. Vara sem búið er að markaðssetja í einu ríki sem á aðild að evrópska efnahagssvæðinu á þannig greiða leið inn á markaði í öllum öðrum ríkjum svæðisins.

Neytendavernd. Öryggi og heilsa okkar er falin í þeim kröfum sem gerðar eru í stöðlum. Til að nefna dæmi er bannað að markaðssetja rafmagnsvörur nema þær séu CE merktar. Óheimilt er að markaðssetja rafmagnsvörur nema þær uppfylli ströng skilyrði, sem eru forsenda CE merkingarinnar. Þolhönnun mannvirkja, s.s. varðandi jarðskjálftaálag er líka hluti af evrópska regluverkinu sem við innleiðum hér. Reyndar skrifum við sérstaka íslenska þjóðarviðauka við þá til að tryggja að íslensk mannvirki standist íslenskar aðstæður. Svo má halda áfram að telja upp; gasgrill, gleraugu og gluggar, leiktæki, lyftur og leikföng, byggingarvörur, skemmtibátar, hjartagangráðar, vogir og flugeldar. Það eru ómetanleg verðmæti fólgin í heilsu okkar og öryggi og einfaldleikanum sem felst í því að geta treyst því að vörur á neytendamarkaði séu ekki banvænar.

Hagkvæmni. Stjórnvöld sem vísa til staðla í sinni löggjöf skilja að þannig eru notuð bestu fáanlegu viðmið og að sértækur hluti löggjafarinnar er byggður á bestu fáanlegu þekkingu hverju sinni. Þá greiða stjórnvöld ekki fyrir sérfræðiþekkingu og vinnu sérfræðinga í tækninefndum staðlasamtaka. Framlag atvinnulífsins er nefnilega lagt fram í stöðlunarstarfi án kröfu um endurgjald.  Það er því beinlínis fjárhagslega hagkvæmt fyrir stjórnvöld að nýta staðla með þessum hætti.

Stöðlun á tilteknum sviðum hefur haft gríðarlegan sparnað í för með sér fyrir neytendur. Samræming kerfa og samræmd virkni kemur í veg fyrir sóun og þörf fyrir samhliða innviðauppbyggingu fyrir mörg kerfi. Fjarskiptakerfi, bankakerfi og þjónusta af ýmsu tagi verður fyrir vikið ódýrari á sama tíma og hægt er að búa til margar mismunandi lausnir innan sama virkniramma þannig að öll kerfi virki saman. Dæmi um þetta er samræming kerfis til gámaflutninga í heiminum öllum sem leiddi til lægri flutningskostnaðar vara á milli landa. Nýlegt dæmi um ákvörðun Evrópusambandsins um stöðlun á hleðslutækjum fyrir snjalltæki eru annað dæmi um það hvernig við neytendur högnumst á stöðlun.

Staðlar eru þannig lögbundið hryggjarstykki í neytendavernd á Íslandi sem á rætur að rekja í aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu. Ofan á hana bætast svo alþjóðlegar lausnir sem stuðla að öryggi, virkni og vernd en það er efni í annan og lengri pistil.

Menu
Top