Stjórnendur og sérfræðingar meira en 40 aðila; fyrirtækja, stofnana og samtaka hafa nú skorað á stjórnvöld að tryggja fjármögnun staðlastarfs.
Nú er staðan sú að:
-ríkið tekur til sín sífellt stærri hluta fjármögnunar sem staðlastarfi er ætlað með hlutdeild í tryggingagjaldi sem atvinnulífið greiðir skv. samkomulagi sem ríkið rifti einhliða fyrir 10 árum síðan,
-opinberum stofnunum eru ekki úthlutaðir fjármunir til að kaupa þá staðla sem opinbert markaðseftirlit byggir á og þar sem finna má kröfur til byggingavara, mannvirkja og annarra mikilvægra innviða,
-verkefnastjórn við lögbundin stöðlunarverkefni sem eru hluti af evrópsku regluverki sem hér er innleitt, t.d. staðlar sem mynda íslenska hluta þolhönnunar mannvirkja er ekki fjármögnuð
-upplýsingar um staðla sem mynda kröfuhluta neytendalöggjafar eru ekki birtar, þó lög kveði á um það.
Hætta er á að afleiðingar þessa geti orðið eftirfarandi:
Innleidd verður evrópsk löggjöf um þolhönnun sem inniheldur engin séríslensk ákvæði s.s. varðandi jarðskjálftaálag, vind- og snjóálag o.þ.h.
Staðlaráði verður ekki gert kleift að vinna þau verkefni sem ráðinu er falið með lögum og segja þarf upp starfsfólki. Starfsfólki sem hefur þekkingu sem ekki er til annars staðar í atvinnulífinu.
Staðlaráð verður að rifta samningum opinberra stofnana um aðgengi að stöðlum sem ekki er greitt fullt verð fyrir.
Staðlaráð hættir að veita þjónustu og upplýsingar um staðla sem ekki er hirt um að birta.
Staðlaráð mun ekki geta átt í nauðsynlegu samráði við innlenda hagaðila um staðla sem vísað er til í lögum og nýttir eru sem nauðsynlegur hluti löggjafar.
Staðlaráð mun ekki taka þátt í vinnu evrópusamtakanna CEN og CENELEC um þróun námsefnis, aðgengis að stöðlum og þróun nýrra aðferða við staðlaskrif þar sem markmiðið er að flýta stöðlunarferli.
Staðlaráð mun ekki viðhalda vottuðu gæðastjórnunarkerfi og þar með tapa aðild að CEN og CENELEC eða að þiggja jafningjamat sem kostar ekki minna.
Staðlaráð mun heldur ekki þróa fræðsluefni fyrir innlendan markað um stöðlun sem ekki er kennd neins staðar í íslensku skólakerfi.
Staðlaráð mun ekki þýða neina staðla eða heiti staðla, sem þó er krafist af löggjafanum.
Það er löngu orðið tímabært að fagráðuneyti sem bera ábyrgð á því að staðlar eru hluti af íslenskri löggjöf, opinberar stofnanir og Staðlaráð ráðist í sameiginlega vinnu um úrlausnir á ofangreindu og eftir því kallar Staðlaráð nú.
Grunninnviðir samfélagsins, kröfur til mannvirkja, öryggi, heilsu- og neytendavernd er í húfi, sem og þátttaka Íslands í stöðlunarstarfi um allan heim, þar sem sérfræðiþekking og reynsla þúsunda erlendra sérfræðinga ratar inn í íslenskt atvinnulíf með stöðlum.