Endurskoðun á evrópskum þolhönnunarstöðlum

Nú stendur yfir endurskoðun á 58 evrópskum þolhönnunarstöðlum sem daglega ganga undir nafninu Eurocodes. Staðlarnir hafa að geyma grunnkröfur til þolhönnunar mannvirkja, s.s. vegna vindálags, snjóálags, jarðskjálftaálags, grundunar og brúarsmíði svo eitthvað sé nefnt. Þar sem aðstæður eru ekki hinar sömu í allri Evrópu skrifar hver þjóð sinn eiginn þjóðarviðauka við hvern og einn evrópustaðall. Það segir sig sjálft að kraftur íslenskrar náttúru þarfnast sérstakrar virðingar og því hafa bestu sérfræðingar landsins á sviði þolhönnunar tekið höndum saman um að uppfæra íslensku þjóðarviðaukana, taka þátt í Norðurlandasamstarfi til að samhæfa norræn viðmið eins mikið og unnt er og fylgjast með framvindu endurskoðunar í vinnuhópum evrópsku tækninefndarinnar sem vinnur verkið á þeim vettvangi. Verkið er umfangsmikið. Það hófst með undirbúningi á árinu 2019 og stendur allt til ársins 2026. Við báðum ritara Byggingarstaðlaráðs, Arngrím Blöndahl, sem sér um samhæfingu og verkefnastjórn á vettvangi Staðlaráðs, að segja okkur frá tilgangi með stöðlunum, lagalegri stöðu þeirra innanlands og ávinningi af notkun þeirra.

Tilgangur staðlanna hérlendis er að mynda sameiginlegan regluramma um kröfur til þolhönnunar mannvirkja. Þessa kröfu er að finna í íslenskri byggingarreglugerð þar sem segir m.a. “Um hönnun og útreikning á grundun og burðarvirkjum gilda íslenskir þolhönnunarstaðlar (Eurocodes) ásamt íslenskum þjóðarviðaukum” og teljast þá kröfur byggingarreglugerðar uppfylltar. Staðlarnir sjálfir eru samræmdur grunnu fyrir þolhönnun í allri Evrópu. Staðlarnir eru því unnir af færustu sérfræðingum allra landa í Evrópu og mynda eitt reglusett fyrir hönnuði hvort sem þeir sem dæmi vinna við hönnun mannvirkja á Ítalíu, Spáni, Danmörku eða á Íslandi. Til að slík samræming sé möguleg í allri Evrópu er heimilt að setja kröfur sem varða hvert land þar sem talin er þörf á því. Samhliða endurskoðun staðlanna er hópur sérfræðingar og burðarþolshönnuða hérlendis að leggja grunn að þeim kröfum sem skoða þarf vegna séríslenskra aðstæðna. Nærtækast er að nefna jarðskjálfta, snjólag og vindálag. Í því samhengi má nefna snjóar meira eða minna en gerði, er vindálag að aukast eða minnka. Hvað þurfum við að skoða eftir jarðskjálftahrinuna á Reykjanesi og svo framvegis. Við gerð þjóðarviðaukanna hafa Norðurlöndin bundist bandalagi um að leggja í sameiginlega vinnu til að þjóðarviðaukar landanna verði samhæfðir eins og kostur er og styrka þannig ennfremur einsleitni vinnu við þolhönnun á Norðurlöndunum.

Byggingarstaðlaráð í samvinnu við stjórnvöld annast skipulag og framkvæmd vinnunnar hérlendis. Í því felst að samhæfa og tengja saman sérfræðinga á hverju af sérsviðum þessarar vinnu og eru þessa stundina rétt um 25 sérfræðingar að vinna í verkefninu. Þessir sérfræðingar koma t.d. frá verkfræðistofum, háskólum, Vegagerðinni og víðar. Áhugavert er að segja frá því að engar greiðslur renna til þessara sérfræðing fyrir verkið heldur ber atvinnulífið þann kostnað sem verður til vegna þeirra vinnu.

Arngrímur Blöndahl, ritari Byggingarstaðlaráðs. 

Menu
Top