Virði og mikilvægi staðla og stöðlunarstarfs fyrir samfélagið er ómetanlegt. Í þeim eru kröfur og viðmið samhæfð og flókin viðfangsefni gerð aðgengileg til að leysa samfélagslega flókin úrlausnarefni.
Virði staðla felst ekki síst í aðferðarfræðinni við gerð þeirra. Þannig sitja allir sérfróðir hagaðilar um tiltekið viðfangsefni við sama borð og sammælast um bestu mögulegu útkomu til að tryggja þjónustu, heilsu, öryggi og virkni samfélagslega mikilvægra innviða.
Í staðlastarfi felst lýðræðisleg og gagnsæ samvinna þar sem hagðaðilar deila þekkingu sín á milli og hver staðall er því afurð uppsafnaðrar þekkingar á tilteknu sérfræðisviði. Með því læra menn líka hver af öðrum. Stundum verða staðlar hluti af löggjöfinni þegar ákveðið er að vísa til þeirra til að segja til um sértækar kröfur. Þeir eru því hluti af grunngerð hvers samfélags, styðja við nýsköpun og nýja tækni, veita litlum og meðalstórum fyrirtækjum möguleika á þátttöku með þróun nýrra þjónustuleiða og einfalda og auðvelda öllum aðilum markaðarins þátttöku.
Sérfræðingar á sviði upplýsingatækni, sem tekið hafa þátt í staðlastarfi innan áætlunar ESB um almannaöryggi fyrir samfélagið lýsa í nýrri skýrslu ávinningi af stöðlun, virði þeirra og mikilvægi. Það er sérstaklega áhugavert hvað stöðlun er mikils virði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og hvernig staðlar auðvelda þeim að koma sér á framfæri og þróa frábærar nýjar lausnir t.d. á sviði upplýsingatækni.
Í skýrslunni er einnig fjallað um samfélagslegar áskoranir s.s. notkun nýrrar tækni innan menntastofnana, nýsköpun á stafrænum innri markaði Evrópu, s.s. vegna rafrænna reikninga og þar er áhugaverð umfjöllun um staðal sem gæti auðveldað eftirlit með höfundaréttarvörðu efni á samfélagsmiðlum til að koma í veg fyrir ólögmæta notkun þess og undirbyggja greiðslur til rétthafa. Þá er í skýrslunni einnig að finna umfjöllun sérfræðinga um það hvernig staðlar styðja við sjálfbæra þróun, árangur í umhverfismálum og gagn þeirra fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og virði í samfélaginu.