ISO 22329:2021 Öryggi og seigla - Stjórnun neyðartilvika - Leiðbeiningar um notkun samfélagsmiðla við neyðartilvik

Samfélagsmiðlar eru dýrmæt leið fyrirtækja og opinberra aðila  til að ná til fólksins sem skiptir þá máli. Hraði við upplýsingagjöf í neyðartilvikum er einnig ómetanlegur. Samfélagsmiðlar eru oft fyrsti viðkomustaður þeirra sem leita upplýsinga og fyrsta boðleið til að koma skilaboðum til fólks.

Það er hins vegar ekki sama hvaða skilaboð eru send eða hvernig og rangar eða misvísandi upplýsingar eru mjög snöggar að dreifa sér um allt með ófyrirséðum afleiðingum. Upplýsingar þurfa að vera skýrar, traustar og réttar. Á þær þarf að vera hægt að treysta.

Til að einfalda stjórnendum fyrirtækja og stofnana verkefnið hefur ISO nú gefið út leiðbeiningar til nota í krefjandi aðstæðum þar sem skilvirkra upplýsinga og samskipta er krafist. Leiðbeiningarnar gagnast til að eiga í samskiptum á áhrifaríkan hátt í gegnum samfélagsmiðla, mögulega áður en atvik koma til, á meðan á þeim stendur og eftir að þau eru yfirstaðin. Hér er því á ferðinni mjög gagnlegt verkfæri til notkunar við neyðarstjórnun og samskipti í hættuaðstæðum.

Meðal þess sem farið er yfir í leiðbeiningunum er mikilvægi þess að vakta samskipti á miðlinum, tilgang vöktunar, í hverju hún felst, gæði upplýsinga, miðlun þeirra og viðbrögð. Þar er einnig fjallað um áætlanagerð, áhættustýringu, mat og umbætur á ferlum.

Leiðbeiningarnar ISO 22329:2021 Öryggi og seigla – Stjórnun neyðartilvika – Leiðbeiningar um notkun samfélagsmiðla við neyðartilvik fást hér

Menu
Top