Á dögunum stóðu norrænu staðlasamtökin fyrir sameiginlegri vinnustofu fyrir ungt fagfólk á sviði rafmagnsfræða og fór vinnustofan fram rafrænt. Um 50 þátttakendur frá öllum Norðurlöndunum tóku þátt þar sem fjallað var um hvernig rafmagnsstaðlar geta stuðlað að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Vinnustofan fór fram með sama fyrirkomulagi og þekkist hjá IEC staðlasamtökunum sem fer fram á aðalfundi samtakanna ár hvert og má segja að norræna vinnustofan hafi verið nokkurs konar undanfari IEC vinnustofunnar.
Tilgangi vinnustofunnar er hægt að skipta upp þrennt:
- Efla þekkingu ungs fagfólks á stöðlum í víðum skilningi og þá sérstaklega á raftæknilegu sviði
- Efla skilning á stöðlun sem verðmætum verkfærum við að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun
- Leggja áherslu á hvernig stöðlun getur styrkt faglega og persónulega færni ásamt því að efla tengslanet
Að sama skapi var þessi vinnustofa tækifæri fyrir hagaðila til að tryggja sínu fólki aðkomu að og þekkingu um staðlagerð til framtíðar.
Þetta var fyrsta vinnustofan sem NOREK* stendur að. Stefnt er að því að halda þessa vinnustofu árlega, sem undanfara IEC vinnustofunnar, Young professionals sem haldin er á aðalfundi þeirra samtaka. Ungt fagfólk á svið rafmagnsfræða sem hefur áhuga á að taka þátt í mótun framtíðarinnar má gjarnan setja sig í samband við Staðlaráð Íslands sem undirbýr og skipuleggur þátttöku Íslands á sviðinu.
*NOREK er samstarf norrænna rafstaðlasamtaka